Tómas Þór Þórðarson og Davíð Þór Viðarsson settust í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á föstudögum á Hringbraut.
Bikarúrslitaleikur dagsins, þar sem Víkingur Reykjavík mætir FH, var að sjálfsögðu til umræðu. Tómas Þór heldur með fyrrnefnda liðinu og Davíð er yfirmaður knattspyrnumála hjá því síðarnefnda.
Benedikt Bóas hrósaði báðum liðum fyrir umgjörðina í kringum leikinn og virkni á samfélagsmiðlum.
„Við erum búin að gera þetta í allt sumar. Það er mjög auðvelt að gera hluti þegar vel gengur. Eftir að við urðum Íslands- og bikarmeistarar var ráðinn starfsmaður í þetta, það var enginn að vakna núna,“ segir Tómas og skýtur aðeins á FH.
Víkingur og FH eru að mætast í úrslitaleik bikarsins í annað sinn á skömmum tíma. Víkingur vann einvígi liðanna 2019. Þá var FH talið sigurstranglegri aðilinn fyrir fram. Nú hefur dæmið snúist við.
„Í þeim leikjum fórum við inn í leikina sem líklegri aðilinn til að vinna. Það verður gaman að sjá núna, þegar við förum inn sem ólíklegri aðilinn, hvernig við höndlum það,“ segir Davíð og minnist þarna einnig á úrslitaleik FH og ÍBV árið 2017, sem Eyjamenn unnu.
Víkingur er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari. Tómasi finnst það hálf óraunverulegt.
„Þegar ég byrja að æfa knattspyrnu hjá Víkingi er liðið ríkjandi Íslandsmeistari, svo gerðist bara ekki neitt. Svo allt í einu urðum við bara bestir, þetta er mjög skrýtið.“
Hér að neðan er rætt nánar um bikarúrslitaleikinn.