Albert Guðmundsson komst á blað fyrir lið Genoa í dag sem spilaði við Spal í ítölsku B-deildinni.
Albert spilaði allan leikinn fyrir Genoa í 2-0 sigri en hann kom boltanum í netið á 88. mínútu til að gulltryggja stigin þrjú.
Jón Daði Böðvarsson skoraði í ensku C-deildinni fyrir Bolton sem vann 2-0 heimasigur á Lincoln.
Framherjinn kom inná sem varamaður á 73. mínútu og var búinn að skora annað mark Bolton aðeins 11 mínútum síðar.
Willum Þór Willumsson reyndist hetja Go Ahead Eagles í Hollandi sem mætti stórliði Ajax á útivelli.
Willum tryggði sínu liði stig með marki á 78. mínútu en hann lék allan leikinn í mjög góðu 1-1 jafntefli.
Nökkvi Þeyr Þórisson byrjar vel með Beerschot í belgísku B-deildinni og skoraði gegn Deinze í dag.
Nökkvi kom til Beerschot frá KA fyrir ekki svo löngu og skoraði annað mark Beerschot í 2-0 sigri.
Enn einn Íslendingurinn komst þá á blað í Ungverjalandi er Viðar Ari Jónsson skoraði fyrir Honved í 4-3 tapi gegn Debrecen.