Erik Hamren og lið hans, AaB, æfðu fyrir luktum dyrum í gær þar sem sænski stjórinn vildi ekki að njósnarar eða aðilar tengdir öðrum félögum fylgdust með.
Hamren tók við AaB á dögunum í annað sinn á ferlinum. Liðið hefur verið í vandræðum það sem af er tímabili og er í næstneðsta sæti með níu stig eftir tíu leiki.
Þessi fyrrum þjálfari íslenska karlalandsliðsins gerði AaB að meisturum árið 2008 og er í miklum metum hjá félaginu.
„Úti í heimi er víðanæft fyrir luktum dyrum alltaf. Það er ekki þannig hér en við viljum geta gert eitt og annað án þess að það séu kannski stuðningsmenn annara liða að fylgjast með,“ segir Hamren við Nordjyske.
„Við viljum hafa möguleikann af og til til að vera einir án þess að einhver sé að fylgjast með.“