Alfreð Finnbogason sneri aftur í íslenska landsliðið eftir langt hlé í nýafstöðnum landsliðsglugga. Hann er afar sáttur með að vera kominn aftur í landsliðið.
„Það var frábært að spila aftur með íslenska landsliðinu. Ég hef ekkert spilað með því í um tvö ár. Það hafa orðið kynslóðaskipti, þar sem margir af eldri leikmönnum hafa horfið á braut. Við vorum fjórir reynslumiklir leikmenn í bland við alla þessa ungu og þrælefnilegu leikmann. Það var frábær upplifun að vera hluti af þessum nýja hóp sem er verið að byggja,“ segir Alfreð við heimasíðu Lyngby, en hann gekk til liðs við félagið í sumar.
Ísland vann 1-0 sigur á Venesúela í landsliðsglugganum og gerði svo 1-1 jafntefli við Albaníu, þar sem liðið var manni færra frá því á 11. mínútu.
„Fyrri leikurinn okkar gegn Venesúela var ekki sá mest spennandi, en það var frábært að fá sigur. Tilfinningin eftir leikinn á móti Albaníu var eins og þetta hafi verið sigurleikur.“
Alfreð er að koma sér aftur í form hjá Lyngby.
„Líkaminn er að komast aftur í keppnisform. Ég er að komast í betra og betra stand og vonandi get ég komist í hundrað prósent stand í komandi leikjum.“