Alfreð Elías Jóhannsson hefur látið af störfum sem þjálfari Grindavíkur en frá þessu greinir hann á Facebook síðu sinni.
Alfreð var að klára sitt fyrsta tímabil sem þjálfara karlaliðs félagsins. Lengi hafa verið á kreiki sögur um að Grindavík myndi segja upp samningi Alfreðs.
Ný stjórn tók við í gærkvöld og bendir allt til þess að hún hafi ákveðið að reka Alfreð.
„Nú er það orðið ljóst að ég mun ekki halda áfram störfum hjá knattspyrnudeild Grindavíkur á komandi tímabili. Mig langar að þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með síðastliðið ár fyrir ánægjulegt samstarf. Það hefur verið lærdómsríkt að þjálfa sinn heimaklúbb og ég hlakka til að fylgjast með Grindavíkurliðinu á komandi árum,“ skrifar Alfreð á Facebook.
Ejub Purisevic hefur verið sterklega orðaður við starfið en hann hefur undanfarin ár starfað í yngri flokkum Stjörnunnar.