Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari FH og aðstoðarmaður hans, Sigurvin Ólafsson, hafa vakið mikla athygli fyrir samstæða galla sem þeir hafa verið í á hliðarlínunni seinni hluta sumars.
Sjálfir hafa þeir gert gott úr þessu og spiluðu gallarnir hlutverk í upphitunarmyndbandi FH fyrir úrslitaleik bikarsins gegn Víkingi R. á laugardag.
Í hlaðvarpsþættinum Steve Dagskrá var Eiður spurður í það hvort hann og Sigurvin yrði í göllunum í úrslitaleiknum.
„Við erum búnir að setja pressu á okkur að vera í þeim út af þessu myndbandi sem var tekið upp,“ segir Eiður og á þar við upphitunarmyndbandið.
„Mér finnst þetta rosalega skrýtin umræða,“ bætir hann við.
Sagan á bakvið af hverju gallarnir gráu urðu fyrir valinu er einföld.
„Ég fór í Nike-umboðið og náði í galla í öðruvísi lit. Það fór alltaf svo í taugarnar á mér þjálfarar á æfingu væru í öllu svörtu eins og leikmenn.“