Þórður Þorsteinn Þórðarson fyrrum knattspyrnumaður var í áhugaverðu viðtali við Fótbolta.net í vikunni þar sem hann segir frá draumum sínum í dómgæslu.
Þórður að byrjaður að flauta á fullu í neðri deildum og í yngri flokkum. Einn reyndasti dómari í sögu Íslands, Garðar Örn Hinriksson skrifar undir viðtalið við Þórð að hann þurfi að hægja á sér.
Þórður talar um draum sinn að komast upp í efstu deild á næsta ári og í kjölfarið verða FIFA dómari.
„Það er í góðu að hafa trú á sjálfum sér en þú hefur elsku vinur ekkert að gera í efstu deild á næsta ári. Þú segir, „Í dag má ég dæma í 3. og 4. deild karla og Lengjudeild kvenna ásamt 2. flokki karla.“ Heldur þú virkilega að þetta sé svona auðvelt og að KSÍ hendi þér beint út í djúpu laugina?,“ skrifar Garðar undir frétt Fótbolta.net.
Garðar Örn ráðleggur Þórði að slaka aðeinss á áður en hann fer að leyfa sér að dreyma um stærsta svið fótboltans. „
„Slakaðu aðeins á. Dæmdu eins mikið af leikjum og þú getur í þeim flokkum og deildum sem þú mátt dæma í. Náðu þér í reynslu. Hún verður ekki komin fyrir lok næsta tímabils. Má vera að þú sért frábær dómari en þetta snýst ekki um það.“
Garðar segir að reynsla sé allt í dómgæslu. „Þetta snýst um reynslu og hana færðu ekki bara á því að vera fyrrum leikmaður og að dæma í 3. deild karla. Ég sjálfur fór of hratt upp. Ég áttaði mig á því síðar. Ég fór upp í efstu deild á mjög skömmum tíma og það á við um fleiri dómara. Reynsla, reynsla, reynsla…. Annars óska ég þér alls hins besta. Góðir hlutir gerast hægt.“