Rangers og Frankfurt mætast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar annað kvöld.
Í breskum fjölmiðlum í dag kom fram að sex stuðningsmönnum Rangers hafi verið vikið frá borði vélar lággjaldaflugsfélagsins Ryanair í dag á leið sinni til Faro í Portúgal. Úrslitaleikurinn fer fram í Seville.
Stuðningsmennirnir eru sagðir hafa drukkið ansi mikið magn af áfengi af flugvellinum fyrir brottför og verið orðnir mjög ölvaðir.
Einum af þeim var vikið frá borði áður en vélin tók á loft. Hinum var vikið frá borði eftir að vélin hafði stöðvað í Nantes í Frakklandi þar sem ekki var hægt að fá mennina til að haga sér. Voru þeir handjárnaðir af lögreglu við lendingu.
„Hegðun þeirra var skelfileg frá því þeir byrjuðu að hella í sig á flugvellinum fyrir brottför,“ sagði einn farþegi vélarinnar við fjölmiðla.
Með fréttinni má sjá mynd af einum stuðningsmanninum sem var ansi svekktur með að hafa verið vikið frá borði. Hann og vinir hans missa nú af tækifærinu til að sjá lið sitt í úrslitaleik í Evrópukeppni í fyrsta sinn síðan 2008.