Newcastle tók á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Leikið var á St. James’ Park.
Stuðningsmenn Newcastle létu vel í sér heyra er heimamenn hófu leikinn af miklum krafti og gestirnir eilítið heppnir að vera ekki undir í hálfleik.
Callum Wilson kom aftur í byrjunarlið heimamanna í kvöld og setti pressu á Ben White sem stýrði boltanum í eigið net á 55. mínútu.
Newcastle hélt áfram að pressa og uppskar annað mark fimm mínútum fyrir leikslok þegar Bruno Guimarães skoraði eftir að Aaron Ramsdale hafði varið skot Wilson og lokatölur 2-0 sigur Newcastle.
Fjórða sætið er nú í höndum Tottenham en Arsenal er með 66 stig, tveimur stigum á eftir Spurs þegar ein umferð er eftir. Arsenal tekur á móti Everton í lokaleik sínum á meðan Tottenham sækir botnlið Norwich heim.
Newcastle getur enn endað í efri hluta deildarinnar en liðið situr í 12. sæti með 46 stig og sækir Burnley heim í lokaumferðinni.
Newcastle 2 – 0 Arsenal
1-0 Ben White (’55, sjálfsmark)
2-0 Bruno Guimarães (’85)