Þýska stórliðið Borussia Dortmund hefur fest kaup á Cole William Campbell, leikmanni FH. Það er Sky í Þýskalandi sem greinir frá þessu.
Campbell er 16 ára gamall og á íslenska móður og bandarískan föður. Bayern Munchen hafði einnig áhuga á Campbell sem lék sinn fyrsta leik fyrir FH á síðustu leiktíð og hefur verið eftirsóttur af félögum víðsvegar um Evrópu.
Campbell er sóknarþenkjandi miðjumaður og á fimm leiki að baki fyrir U17 ára landslið Íslands og hefur skorað í þeim tvö mörk. Hann mun spila fyrir unglinga- og varalið Dortmund á næstu leiktíð.
Campbell hefur áður greint frá því að hann vilji feta í fótspor móður sinnar, Rakelar Bjarkar Ögmundsdóttur, og spila fyrir íslenska A-landsliðið í framtíðinni en Rakel lék á sínum tíma fyrir íslenska kvennalandsliðið og skoraði sjö mörk í tíu leikjum.