Tveir leikir voru háðir í Bestu deild kvenna í fótbolta í dag. Selfoss sótti Þór/KA heim og ÍBV tók á móti Þrótturum.
Brenna Lovera skoraði eina mark leiksins og sigurmark Selfyssinga úr vítaspyrnu á 76. mínútu í 1-0 sigri á Norðankonum og skaut þar með Selfyssingum á toppinn eftir fjórar umferðir.
Selfoss hefur nú unnið þrjá og gert eitt jafntefli í fyrstu fjórum leikjum liðsins á leiktíðinni. Þór/KA hefur unnið tvo og tapað tveimur.
Ameera Abdella Hussen kom Eyjakonum yfir gegn Þrótturum með marki á 33. mínútu en Þróttarar sneru leiknum sér í vil á fjögurra mínútna kafla. Murphy Agnew jafnaði metin á 79. mínútu og Sæunn Björnsdóttir skoraði sigurmark gestanna af 40 metra færi fjórum mínútum síðar.
Þróttur R. er með sjö stig eftir fjóra leiki en ÍBV er með fjögur.
Fyrr í dag vann Fjarðab/Höttur/Leiknir 2-0 útsigur á Augnablik í Lengjudeildinni. Linli Tu skoraði bæði mörk gestanna í sitthvorum hálfleiknum.
Þór/KA 0 – 1 Selfoss
0-1 Brenna Lovera (’76, víti)
ÍBV 1 – 2 Þróttur R.
1-0 Ameera Abdella Hussen (’33)
1-1 Murphy Alexandra Agnew (’79)
1-2 Sæunn Björnsdóttir (’83)