Jurgenn Klopp segir að því miður séu það mjög góð kaup hjá Manchester City í Erling Haaland sem félagið fær í sumar. Haaland hefur á tveimur og hálfu ári orðið einn besti knattspyrnumaður í heimi en framherjinn frá Noregi er 21 árs gamall.
Alf-Inge, faðir hans lék meðal annars með Manchester City á ferli sínum en sonurinn fetar nú í fótsport hans.
Real Madrid hafði einnig lagt áherslu á að fá Haaland en nú er allt frágengið og framherjinn fer til Manchester City.
„Hann breytir miklu, frábær leikmaður. City er þó aldrei lið sem snýst aðeins um einn leikmann,“ segir Klopp stjóri Liverpool.
„Þeir hafa sinn leikstíl, ég held að Erling muni átta sig á því að hann skorar mikið af mörkum á fjærstönginni. Þar sem hann setur löppina bara í boltann, hann mun elska það. Hann er algjört naut.“
„Hann var meiddur aðeins hjá Dortmund en heill heilsu er hann algjört naut. Því miður, þá eru þetta mjög góð kaup.“