Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að félaginu líði eins og áhorfendum þegar kemur að því að semja við leikmenn.
Chelsea getur ekki framlengt samninga við leikmenn sína vegna refsiaðgerða á hendur Roman Abramovich, eiganda félagsins. en hann sætir nú viðskiptaþvingunum vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
„Þú getur endað í stöðu þar sem leikmenn ræða við önnur félög og truflast,“ sagði Tuchel. „Það er auðveldara þegar manni er frjálst að taka þátt í viðræðunum en okkur líður meira eins og áhorfendum þessa stundina.“
Chelsea getur, eins og staðan er núna, hvorki keypt né selt leikmenn. Greint var frá því fyrr í dag að Antonio Rudiger, einn besti varnarmaður liðsins, hafi samið um að ganga í raðir Real Madrid í sumar en hann fer frá Chelsea á frjálsri sölu.
Barcelona hefur þar að auki komist að samkomulagi við danska varnarmanninn Andreas Christensen og eru í viðræðum við Cesar Azpilicueta, fyrirliða Chelsea.
Fjárfestahópur sem leiddur er af Todd Boehly, meðeiganda hafnaboltaliðsins LA Dodgers, er við það að ganga frá kaupum á Chelsea en ljóst er að miklar breytingar eru í vændum hjá félaginu.