Þórir Jóhann Helgason og félagar hans í Lecce eru komnir upp í Serie A eftir að hafa tryggt sér sigur í Serie B í gær.
Liðið tók á móti Pordenone og vann 1-0 sigur. Þórir kom inn á sem varamaður á 66. mínútu leiksins.
Þórir er uppalinn í Haukum en fór til Lecce frá FH í fyrra.
Í Serie B leikur einnig Hjörtur Hermannsson. Hann er á mála hjá Pisa. Liðið hafnaði í þriðja sæti deildarinnar og fer í umspil um sæti í Serie A. Það gæti því farið svo að tveir Íslendingar bætist við í Serie A á næstu leiktíð.
Nú þegar eru nokkir íslenskir leikmenn á mála hjá liðum í Serie A. Albert Guðmundsson leikur með Genoa sem er í harðri fallbaráttu. Liðið vann magnaðan sigur á Juventus í gær og er einu stigi frá öruggu sæti.
Þá er Andri Fannar Baldursson á mála hjá Bologna en hann er á láni hjá FCK í Danmörku sem stendur. Mikael Egill Ellertsson er þá leikmaður Spezia en er á láni hjá Spal sem stendur.
Arnór Sigurðsson leikur með Venezia en hann er þar á láni frá CSKA Moskvu. Hjá Venezia eru einnig Bjarki Steinn Bjarkason og Óttar Magnús Karlsson en eru þeir á láni hjá öðrum félögum, Bjarki hjá Catanzaro og Óttar hjá Oakland Roots.