Gestir í hlaðvarpsþætti Fótbolta.net segja að Arsenal krefjist þess að Rúnar Alex Rúnarsson markvörður félagsins bæti á sig talsverðu magni af kílóum á næstunni til að vera leikfær í enska boltanum.
Arsenal keypti Rúnar Alex frá franska félaginu Dijon í haust en hann á eftir að þreyta frumraun sína í markinu hjá þessu sögufræga félagi. Líklegt er talið að Rúnar fái tækifæri innan tíðar í Evrópudeildinni en á sama tíma þarf hann að borða mikið og vera duglegur að lyfta lóðum ef marka má sérfræðinga vefsins.
„Mér skilst að þeir vilji bæta sjö kílóum við hann,“ sagði Einar Guðnason, stuðningsmaður Arsenal og aðstoðarþjálfari Víkings í efstu deild karla.
Samkvæmt vefmiðlum ytra er Rúnar í kringum 75 kíló í dag en hann er 1,85 á hæð. Jón Kaldal segir að Arsenal vilji að hann verði 82-83 kíló.
„Ég hef heyrt þetta líka. Að þeir vilji bæta við 7-8 kílóum af massa á hann,“ sagði Jón Kaldal við Fótbolta.net en hann er einnig stuðningsmaður Arsenal.