Hollendingar hafa verulegar áhyggjur af stöðu Donny van de Beek hjá Manchester United en hann var keyptur til félagsins frá Ajax í sumar fyrir um 40 milljónir punda.
Van de Beek hefur hins vegar ekki fengið að byrja leik í deild eða Meistaradeild, hann var ónotaður varamaður í jafntefli gegn Chelsea um helgina og Hollendingar hafa áhyggjur af mikilvægum landsliðsmanni.
„Donny átti ekki að fara til United, þegar þú ert góður leikmaður þá viltu spila í hverri viku,“ sagði goðsögnin Marco van Basten um stöðu mála hjá Van de Beek.
„Það er vont fyrir leikmann eins og Donny að spila sex eða sjö leiki á ári, sem frábær leikmaður þá verður þú að skoða stöðu þína og mögulegan spilatíma þegar þú ferð í nýtt félag.“
„Donny hefði átt að bíða eftir betra verkefni og skrifa undir hjá öðru félagi.“
Ole Gunnar Solskjær stjóri Manchester United hefur sagt að tækifæri Van de Beek muni koma á næstunni.