fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
433Sport

Guðni Bergsson: Við þurfum á skilningi stjórnvalda að halda á sérstöðu okkar reksturs

Hörður Snævar Jónsson
Þriðjudaginn 31. mars 2020 12:54

Guðni Bergsson er fyrrum formaður KSÍ og býður sig nú fram að nýju.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Bergsson, formaður KSÍ ritar pistil á vef sambandsins í dag þar sem farið er yfir tímana sem nú eru, en COVID-19 veiran hefur haft gríðarlegt áhrif á íþróttastarf.

Rekstur íþróttafélaga hefur verið erfiður og verður enn erfiðari nú þegar mikil óvissa ríkir. Guðni kallar eftir aðgerðum frá stjórnvöldum. ,, Við þurfum þar á skilningi stjórnvalda að halda á sérstöðu og uppbyggingu okkar reksturs. Ég vil í þessu sambandi þakka öllum þeim sem komu að þessari vinnu fyrir þeirra þátt. Stjórnendur félaganna, leikmenn, þjálfarar og aðrir eru að gera sitt til þess að láta þetta ganga upp,“ skrifar Guðni

Pistill Guðna í heild:
Kæru félagar.
Við höfum upplifað saman erfiða og skrítna tíma undanfarnar vikur. Framvindan hefur verið hröð og ógnvekjandi á köflum með aðgerðum sem við höfum ekki upplifað áður. Í svona aðstæðum áttar maður sig líka á því hvað það er margt sem er gott við okkar samfélag og hversu vel við stöndum saman þegar á reynir.

Við í knattspyrnuhreyfingunni höfum, eins og aðrir hópar í samfélaginu, horft fram á mikla röskun og síðan algjöra stöðvun á okkar starfi. Heilsa okkar er að veði og við verðum að gæta þess öll í sameiningu að vernda þau okkar sem eru veikust fyrir smiti. Við þurfum að forgangsraða. Það reynir á reksturinn eins og hjá öðrum en með samstilltum aðgerðum og hjálp opinberra aðila þá komumst við í gegnum þetta. Áður en til faraldursins kom höfðum við haft áhyggjur af rekstri og rekstarumhverfi aðildarfélaganna, en nú þurfti svo sannarlega að bregðast við. Ég trúi því að út úr þessu öllu komi á endanum sterkari hreyfing með betri rekstur og áherslur en áður.

Nú liggja fyrir úrræði ríkisstjórnarinnar og vonandi geta sem flest okkar innan aðildarfélaganna nýtt sér þau. Við höfum verið að vinna að tillögum um að laga þessi úrræði að okkar hreyfingu, sem gefur okkur betri og sanngjarnari niðurstöðu. Við þurfum þar á skilningi stjórnvalda að halda á sérstöðu og uppbyggingu okkar reksturs. Ég vil í þessu sambandi þakka öllum þeim sem komu að þessari vinnu fyrir þeirra þátt. Stjórnendur félaganna, leikmenn, þjálfarar og aðrir eru að gera sitt til þess að láta þetta ganga upp.

Verkefni KSÍ vegna COVID-19 hafa verið af ýmsum toga og unnin í samstarfi með félögum, öðrum hagsmunaaðilum og sérfræðingum eftir því sem við á hverju sinni. Upplýsingar um framvindu mála hafa verið birtar reglulega hér á vef KSÍ og með því að smella á borða á forsíðunni er hægt að sjá samantekt þeirra greina og upplýsinga sem birtar hafa verið. Til að stikla á stóru má nefna viðræður og önnur samskipti við stjórnvöld og Reykjavíkurborg, greiningarvinnu með Deloitte (minnisblað um lagafrumvarp, líkan um rekstur félaga, leiðbeiningar um útfærslu á umsóknum), starf vinnuhóps um fjármál félaga (aðlögun laga um úrræði vegna launagreiðslna, fyrirframgreiðsla og fyrirgreiðsla til aðildarfélaganna). Svo má auðvitað ekki gleyma „Áfram Ísland“ átakinu okkar á samfélagsmiðlum, sem gengur út á að hvetja unga iðkendur og fjölskyldur þeirra, og raunar þjóðina alla til dáða og til að halda áfram að hreyfa sig. Þar spila leikmenn landsliðanna okkar stórt hlutverk með jákvæðum skilaboðum og æfingum. Mörg félög hafa einnig verið með álíka verkefni á sínum miðlum, beint til sinna iðkenda, og gert af myndarskap.

Það mun birta til um síðir og við munum hefja aftur æfingar og mótahald. Íslenskur fótbolti á bjarta framtíð fyrir sér og það verður spennandi verkefni að þróa hann áfram. Grasrótarstarfið okkar er á heimsmælikvarða þökk sé góðri aðstöðu, vel menntuðum og færum þjálfurum ásamt miklum metnaði og dugnaði leikmanna sem og stjórnenda. Við eigum fullt inni sem betur fer, sérstaklega á afrekssviðinu bæði hjá félögunum og KSÍ. Við ætlum okkur að njóta fótboltans áfram innan vallar sem utan og þjóna samfélaginu okkar í leiðinni.

Við erum öll í sama liði! Áfram Ísland!

Kveðja,

Guðni Bergsson, formaður KSÍ

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Sárnaði að vera sökuð um að vera drusla í beinni útsendingu

Sárnaði að vera sökuð um að vera drusla í beinni útsendingu
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Ronaldo vinnur skaðabótamál gegn Juventus – Fær 1,5 milljarð plús vexti

Ronaldo vinnur skaðabótamál gegn Juventus – Fær 1,5 milljarð plús vexti
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Arsenal fær óvæntar 350 milljónir í kassann

Arsenal fær óvæntar 350 milljónir í kassann
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Dóttir stjórans kemst í fréttirnar – Skiptir um kærasta en valdi samherja hans í landsliðinu

Dóttir stjórans kemst í fréttirnar – Skiptir um kærasta en valdi samherja hans í landsliðinu