fbpx
Mánudagur 01.júní 2020
433Sport

Aron Einar nýtur lífsins í eyðimörkinni: Heillaður af þekkingu Bjarka – „Við fjölskyldan höfum yfir engu að kvarta“

Hörður Snævar Jónsson
Miðvikudaginn 14. ágúst 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Ég er ekki byrjaður að keyra strax, það fer samt að styttast í það. Ég er aðeins að venjast þessari bilun hérna,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson í samtali við 433.is í dag. Hann var þá á leið á æfingu með Al-Arabi í Katar, hann er að venjast nýju lífi í eyðimörkinni. Miðjumaðurinn knái var að setjast upp í bíl með bílstjóra sínum, umferðin í Katar er allt öðruvísi en Íslendingur sem búið hafði í Bretlandi í ellefu ár á að venjast.

Hitinn í Katar er gríðarlegur. Eftir að hafa búið í rigningunni í Wales í fjölda ára er það nýtt fyrir Aroni Einari. ,,Þetta er mjög fínt, það er auðvitað frekar heitt en það er notalegt bara. Það er lítið verið að stressa sig á hlutunum, þetta er allt öðruvísi kúltúr en maður hefur vanist í Evrópu. Mestu viðbrigðin fyrir mig hafa verið að æfingar fara fram á kvöldin en ekki á morgnana. Í ellefu ár á Englandi æfði maður alla morgna og var svo oftast í fríi eftir hádegi. Það hefur reynst mér erfiðast að venjast því. Lífið hérna er samt frábært og við fjölskyldan höfum yfir engu að kvarta.“

Hitastigið í Katar er slíkt að ekki er hægt að æfa á daginn, hitastigið er líka það mikið að Aron Einar er lítið utandyra þegar sólin er hátt á lofti. Loftkæld herbergi heilla meira.

,,Það er ekkert hægt að æfa hérna á morgnana, það eru komnar 40 gráður og mikill raki þegar þú vaknar um 8 leytið. Það er ekkert hægt að ætlast til þess að menn æfi við slíkar aðstæður, þeir bíða þar ti að sólin er við það að setjast. Þá er upphitun keyrð í gang. Þetta venst eins og flest annað,“ sagði Aron en þegar hann var á leið á æfingu var klukkan 17:10 á staðartíma.

,,Maður er ekkert að sækjast út á daginn, nema rétt inn og út. Maður þarf að geta eytt orkunni í æfingar á kvöldin. Ég er ekkert að leggjast út á bekk og sóla mig, það er afslöppun og eyða tíma með fjölskyldunni.“

Aron EInar og Kristbjörg, eiginkona hans.

Á að nota reynslu sína og öskra

Eins og fyrr segir samdi Aron Einar við Al-Arabi i sumar. Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, er þjálfari liðsins. Heimir veit hvað Aron stendur fyrir og vildi fá hans hugsunarhátt inn í félagið. Vonast hann til að hugarfar Arons Einars smitist í heimamenn.

,,Gæðin hafa komið mér passlega á óvart, fyrst um sinn var þetta öðruvísi. Mér finnst það venjast vel, heimamennirnir hérna eru með ágætis gæði. Ég var auðvitað fenginn hingað til að nota mína reynslu, fá læti og öskur á æfingar. Auka hraðann á öllu og það hefur tekist hægt og rólega, að koma með mína leikreynslu inn á æfingar. Maður tekur eftir því að leikmenn eru farnir að verða agaðri, hér er allt annar kúltúr og hugarfar en við venjumst í Evrópu. Þar eru allt atvinnumenn, það er verið að breyta hugsunarhættinum. Það er á réttri leið, það má samt alveg bæta helling.“

,,Þeir eru að sækja mikið í Spánverja, mikið af þjálfurum þaðan. Þeir vilja reyna að breyta og bæta sig. Þeir vilja búa til það atvinnumannaumhverfi sem þekkist í Evrópu. Heimir segir mér að það sé mikill munur á þessu frá því bara á síðustu leiktíð.“

Fann til með Stjörnunni í Barcelona

Hitinn í Katar yfir sumartímann er nánast óbærilegur, þannig fóru Aron og félagar til Barcelona í þrjár vikur og æfðu þar. ,,Það var of heitt hérna til að æfa tvisvar á dag, það var ágætis keyrsla. Fimm leikir og það var fínt til að byrja með, þegar maður er lengi á sama stað í æfingaferð þá kemur þreyta í mann. Öll lið hérna verða að gera þetta, það er ekki hægt að taka almennilegt undirbúningstímabil í hitanum hérna.“

Þegar Al-Arabi var statt í Barcelona þá lék Stjarnan gegn Espanyol í borginni. Þar fékk liðið skell í Evrópudeildinni. ,,Maður fann til með þeim í seinni hálfleik, orkan var búin eftir mikla vinnslu og keyrslu í fyrri hálfleik. Það var mikill hiti og raki, maður fann fyrir því í stúkunni. Maður átti von á því að þeir myndu brotna eftir öll átökin framan af leik. Þeir gerðu vel í fyrri hálfleik, voru vel skipulagðir. Það var gott að komast aðeins út af hótelinu og ekki skemmdi fyrir að hitta á Íslendinga.“

Langir fundir Heimis enn í gangi

Eins og fyrr segir eru Aron og Heimir að vinna saman aftur, eftir farsælt samband hjá íslenska landsliðinu. Þar voru langir fundir venjan. ,,Það var mikið um langa myndbandsfundi í Barcelona, svo hefur þeim fækkað en fer fjölgandi aftur. Tímabilið okkar hefst eftir níu daga og undirbúningur er í fullum gangi. Hann er að reyna að koma sínum áherslubreytingum á framfæri, það þarf að koma því til skila.“

Bjarki Már Ólafsson er aðstoðarþjálfari Heimis í Katar og heillast Aron af honum og hans þekkingu. ,,Það er gott að vinna með Heimi aftur, Bjarki er líka með honum. Hann er ótrúlega hæfileikaríkur. Það er gaman að sjá hvernig hann horfir á fótboltann, hann er mjög vitur um knattspyrnu og knattspyrnumenn. Það hefur komið mér á óvart hvað hann veit svakalega mikið.“

Heilsan í toppstandi

Heilsufar Arons hefur oft verið til umræðu. Álagið á Englandi í ellefu ár og allir landsleikirnir höfðu tekið sinn toll enda væri annað óeðlilegt. ,,Það er búið að vera mikil keyrsla, ég hef verið með á öllum æfingum nema tveimur. Þar þurfti ég að hvíla, ég er í góðu formi. Undirbúningstímabilið hefur verið mjög gott, ég líka fagna hvíldinni sem ég fékk í sumar. Þetta var tæpur mánuður í frí, þetta er í fyrsta sinn lengi sem ég fæ gott frí til að leyfa líkamanum að jafna sig. Það hefur skilað sér í því að ég æfi nánast alltaf.“

Íslenska landsliðið leikur gegn Moldavíu og Albaníu í byrjun september. Aron er spenntur fyrir því verkefni. ,,Ég á tvo leiki í deildinni hérna í Katar áður en landsleikirnir eru. Það er mikil spenna, við töluðu um það fyrir verkefnið í sumar, að þeir tveir leikir myndu setja tóninn. Við unnum Tyrkland og Albaníu sem setur tóninn. Við getum ekki misst okkur í gleðinni, við höfum aldrei gert það reyndar. Við þurfum að halda okkur á tánum og fylgja þessu aftur, ná í önnur sex stig í september,“ sagði Aron Einar að lokum við 433.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433Sport
Í gær

Sjáðu þegar allt sauð upp úr á Akranesi í dag: „Alltaf sama helvítis kjaftæðið“

Sjáðu þegar allt sauð upp úr á Akranesi í dag: „Alltaf sama helvítis kjaftæðið“
433Sport
Í gær

Sjáðu tíu launahæstu á síðasta ári – Milljarður á milljarð ofan

Sjáðu tíu launahæstu á síðasta ári – Milljarður á milljarð ofan
433Sport
Fyrir 3 dögum

Gæðastund að bruna Reykjanesbrautina: „Við klárum þetta í bílnum“

Gæðastund að bruna Reykjanesbrautina: „Við klárum þetta í bílnum“
433Sport
Fyrir 3 dögum

Starfsmaður Puma spenntur: „Stuðningur íslenskra stuðningsmanna er magnaður“

Starfsmaður Puma spenntur: „Stuðningur íslenskra stuðningsmanna er magnaður“
433Sport
Fyrir 3 dögum

Bumban á De Bruyne vekur mikla athygli – Hvað var hann að borða í fríinu?

Bumban á De Bruyne vekur mikla athygli – Hvað var hann að borða í fríinu?
433Sport
Fyrir 3 dögum

Turnarnir takast á: „Geir ætti því að vera fullkunnugt um þetta allt saman“

Turnarnir takast á: „Geir ætti því að vera fullkunnugt um þetta allt saman“