fbpx
Mánudagur 23.september 2019  |
433Sport

Hermann var skíthræddur við Pétur Jóhann: Las yfir Eiði Smára – ,,Spurðu hann hvað hann kallaði mig í partýinu“

Victor Pálsson
Laugardaginn 18. maí 2019 18:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Auðunn Blöndal hefur gert frábæra þætti um íslenska atvinnumenn í íþróttum, þriðja þáttaröð var að klárast á Stöð2 og fékk hún frábær viðbrögð. Fyrsta þáttaröðin var afar áhugaverð og á næstu dögum, ætlum við að rifja upp bestu bitana úr þessum frábær þáttum, sem einn besti sjónvarpsmaður í sögu Íslands, Auðunn Blöndal hefur stýrt.

Það eru einhverjir sem muna eftir lokaþættinum í fyrstu seríu en þar var fjallað um ‘íþróttamanninn’ Pétur Jóhann Sigfússon. Pétur ættu landsmenn að þekkja en hann hefur lengi gert það gott sem grínisti.

Síðasti þátturinn var fullur af gríni og skemmtun en þar var rætt um íþróttaferil Péturs. Hann var að margra mati besti íþróttamaður sem við Íslendingar höfum átt.Auðunn ræddi við stórstjörnur um feril Péturs og má nefna Thierry Henry, Sol Campbell og John Terry. Þeir muna að sjálfsögðu allir eftir Pétri sem var góður í öllum íþróttum, ekki bara knattspyrnu.

Pétur var þó að eigin sögn bestur í knattspyrnu og var miklu betri leikmaður en Eiður Smári Guðjohnsen sem á þessum tíma lék með stórliði Barcelona. Eiður talaði afar vel um Pétur og hans feril. Stórstjörnur eins og Henry og Lionel Messi ræddu hæfileika hans reglulega í klefanum.

,,Pétur var bara svona náttúru talent. Hann var ekki bara langbestur á æfingum heldur kom hann hlaupandi á æfingar, búinn að hita upp og var alltaf síðastur af æfingasvæðinu,“ sagði Eiður.

,,Svo fór ég í sund með mömmu og pabba um kvöldið og þá var hann að keppa þar, í sundmóti. Það er eins og hæfileikarnir hafi verið of miklir fyrir hann.“

,,Þeir tala enn um það strákarnir í klefanum eins og Thierry Henry og Messi, þeir hafa séð myndir af Pétri þegar hann var yngri.“

,,Hann hefði bara verið á svipuðum stall og þeir ef hann hefði haldið áfram.“

,,Ég held að þetta hafi verið of auðvelt fyrir Pétur. Áhuginn og metnaðurinn hvarf því hann vissi að hann væri betri en allir aðrir.“

Pétur talar ekki eins vel um Eið sem átti gríðarlega farsælan feril bæði með Chelsea og Barcelona. Pétur segir að Eiður hafi aldrei borið nógu mikla virðingu fyrir eigin hæfileikum og var duglegur að láta hann heyra það.

,,Eiður Smári, mér fannst hann ekki bera virðingu fyrir sínum hæfileikum. Þetta fór í taugarnar á mér og ég reif í hann eitt skiptið og sagði við hann að þetta væri vanvirðing við hæfileikana,“ sagði Pétur um Eið.

,,Ég öskraði bara á hann: ‘Ætlarðu að vera í stelpunum eða ætlarðu að enda sem einhver feitabolla hérna í KR?’

,,Við höfum ekkert talað saman eftir þetta en ég var alltaf betri en hann.“

,,Ég var fljótari, sterkari og ég las leikinn betur. Ég var ekki eins latur.“

Auðunn fór víðs vegar í þessum frábæru þáttum en knattspyrnumennirnir Grétar Rafn Steinsson, Hermann Hreiðarsson og Eiður komu allir fyrir. Auðunn ræddi við þá Thierry Henry, John Terry, Sol Campbell, Peter Crouch og David James um Pétur. Þeir gátu vart trúað því að hann væri hættur að spila. Þetta höfðu þeir að segja:

Henry: ,,Má ég spyrja þig að einu, hvað gerðist hjá Pétri Jóhanni? Er hann enn að spila? Af hverju hætti hann?“

Campbell: ,,Já ég man eftir Pétri Jóhanni, frábær leikmaður. Hann var hjá Arsenal, frábær leikmaður.

Crouch: ,,Hvað varð um Pétur Jóhann? Af hverju hætti hann að spila? Hann var frábær.“

,,Ég átti alltaf í erfiðleikum með hann, sérstaklega í skallaboltum, hann vanna alla boltana í loftinu gegn mér.“

,,Hann hefði getað spilað fyrir England. Hann var miklu betri varnarmaður en John Terry getur nokkurn tímann orðið.“

James: ,,Pétur Jóhann Sigfússon, hvar er hann? Hann var besti íþróttamaður Íslands ekki rétt?“

Terry: ,,Já ég man eftir Pete. Það er synd að hann skuli hafa hætt skyndilega. Ég veit ekki hvað klikkaði.“

,,Ég veit ekki hvort það voru vandamál utan vallar eða hvað það var. Hæfileikarnir sem hann sýndi á vellinum voru ótrúlegir.“

,,Hann var eins hæfileikaríkur og leikmenn á borð við Ronaldinho og Messi og álíka sóknarmönnum.“

,,Það eru mikil vonbrigði. Ef einhver veit hvar hann er og getur fengið hann til að snúa aftur þá væri gaman að sjá hann. Það eru vonbrigði að sjá að þú sért hættur, vinur.“

,,Ég þekkti hann nokkuð vel, strákarnir elskuðu að hafa hann á svæðinu, hann var skemmtilegur karakter og var alltaf að grínast. Komdu aftur Pete, við þurfum þig.“

Eftir þessi frábæru viðtöl þá fengum við að kíkja á æfingu hjá Val sem lék í efstu deild á þessum tíma.

Þar æfði Pétur með öflugum leikmönnum eins og Helga Sigurðssyni sem var þáverandi landsliðsmaður.

,,Nei! Af hverju kemurðu aldrei með hann niðri maður!? Djöfulsins kjaftæði maður,“ öskraði Pétur í eitt skiptið á Helga, skiljanlega mjög pirraður yfir hans sendingargetu.

Willum Þór Þórsson var þjálfari Vals á þessum tíma og tók Pétur hann til hliðar til að ræða veikleika Helga. Hann sætti sig ekki við hvað sem er.

,,Það eru bara þessar sendingar hjá honum. Það þarf að gera eitthvað í þeim. Ég veit ekki hvort hann sé með of flata rist eða hvað, hann lyftir honum alltaf upp,“ sagði Pétur við Willum.

Willum svarar: ,,Við erum einmitt að vinna í því. Það er þess vegna sem er gott að fá þig inn á æfingar. Svo þeir sjái hvernig á að gera þetta.“

,,Þetta er alveg ótrúlega dýrmætt fyrir okkur. Strákarnir stíga upp um leið og þeir sjá þig. Þeir hækka um einn level sko.“

,,Með fullri virðingu fyrir okkar liði þá gerum við okkur alveg grein fyrir því að hann hefur einstaka hæfileika.“

,,Það er ekkert óþægilegt, hann fer vel með þá og hann er svo hvetjandi að þetta er bara skemmtilegt.“

Eftir það var svo rætt við Hermann Hreiðarsson sem er líklega einn mesti harðhaus sem hefur klæðst íslensku landsliðstreyjunni.

Hermann átti þó ekki roð í Pétur á æfingum og var hræddur í hvert einasta skipti sem þeir mættust.

,,Pétur Jóhann, þetta er bara harðasti fótboltamaður sem ég hef lent í. Ég var svo drullu hræddur við hann. Ég kom ekki nálægt þessu kvikindi maður,“ sagði Hermann.

,,Hann var með þvílíkar tæklingar og bara harður gæi. Ef maður kom eitthvað nálægt honum þá var manni stútað inn í klefa eftir leik. Hann lagði mig í einelti.“

Pétur gat ekki sagt það sama um Hermann. Hann borðaði of mikið fransbrauð og var Pétur duglegur að taka í hann. Hermann lék með Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni á þessum tíma.

,,Hemmi Hreiðars borðaði mikið fransbrauð, það háði honum svolítið. Hann var linur í fótunum.“

,,Nei hann var lítið að taka í mig. Það var aðallega ég sem var að taka í hann.“

En af hverju spilaði Pétur Aldrei með íslenska landsliðinu með alla þessa hæfileika?

Ástæðan er Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals. Ólafur var landsliðsþjálfari á þessum tíma en hann og Pétur áttu enga samleið.

Auðunn spurði Pétur út í það, af hverju hann hefði aldrei klætt sig í landsliðstreyjuna:

,,Ekki á meðan hann Óli Jó er þarna, það eru alveg hreinar línur. Við eigum ekki skap saman,“ svaraði Pétur.

,,Það er eitthvað sem ég vil ekki fara út í. Við eigum bara ekki skap saman. Það er gamalt.“

,,Það sem gerðist á milli okkar er ekki tengt fótbolta. Ég var að segja við þig að ég vil ekki fara út í þetta.“

Auðunn kíkti þá í heimsókn til Ólafs sem talaði ekki vel um Pétur. Það var eitthvað sem átti sér stað á lokahófi.

Ólafur segir að Pétur skuldi sér mikla peninga en því miður var ekki farið nánar út í smáatriðin.

,,Spurðu hann hvað hann kallaði mig í partýinu fyrir lokahófið hér um árið. Spurðu hann hvað hann skuldar mér mikla peninga. Ég hef engan áhuga á að tala um hann, þakka ykkur fyrir.“

Pétur mætti öðrum harðhaus þegar hann var 14 eða 15 ára gamal. Ólafur Þórðarson var ekkert lamb að leika sér við.

Pétur fótbrotnaði á fleiri en einum stað eftir tæklingu frá Ólafi á sínum tíma.

,,Já tæklingin, ætli ég hafi ekki verið 14 eða 15 ára gamall. Fyrsti meistaraflokks leikurinn. Óli Þórðar kemur þarna eins og steypubíll alveg á fleygiferð og straujar mig niður,“ segir Pétur.

,,Þegar ég ranka við mig ætlaði ég að standa upp og rjúka í hann og berja hann. Þá datt ég bara niður. Þá kom í ljós að það er allt mölbrotið í lærinu, hnénu og sköflungnum. Það var eins og þetta hefði verið sett í blandara. Ég ætlaði aftur inná. Óli Þórðar hann bara vankaðist við þetta, hann man ekkert eftir þessu.“

Ólafur gat sjálfur ekki sætt sig við það að það væri einhver gutti sem var einfaldlega miklu betri en allir aðrir á vellinum.

,,Sko maður var orðinn drullu pirraður á því að einhver 14-15 ára gutti væri sólandi alla upp úr skónum og keppnisskapið hljóp með mann í gönur.“

,,Ég ákvað bara að strauja hann og gerði það. Þetta var bara eins og að hlaupa á vegg.“

Því miður þá misstu flestir af þessum rússíbana sem ferill Péturs var en við mælum sterklega með því að fólk kíki á fyrstu þáttaröð. Þá sérstaklega þátt númer sjö!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Evra sendir stjórn United skýr skilaboð – Er kominn með nóg

Evra sendir stjórn United skýr skilaboð – Er kominn með nóg
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Pálmi og Óskar með frábært grín: Elliheimilið Grund – Þagga niður í gagnrýnendum

Pálmi og Óskar með frábært grín: Elliheimilið Grund – Þagga niður í gagnrýnendum