fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
433Sport

Spá DV fyrir Pepsi Max-deild karla: Hvaða lið verður Íslandsmeistari?

Hörður Snævar Jónsson
Föstudaginn 26. apríl 2019 08:20

Hannes Þór Halldórsson, er ein skærasta stjarnan í sögu íslenska fótboltans.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stærsta og vinsælasta íþróttakeppni á Íslandi hefst um helgina þegar Pepsi Max-deild karla fer af stað. Um er að ræða efstu deild karla í knattspyrnu og að mati margra er þessi vinsælasta íþrótt í heimi vorboðinn ljúfi. 12 lið eru í deildinni líkt og síðustu ár. Hart verður barist á toppnum en ekki síður á botninum og fréttamenn DV settust niður og röðuðu liðunum niður í spá fyrir tímabilið. Spáin er líkleg til þess að ganga eftir, enda fréttamenn DV sérfræðingar upp til hópa.

1. Valur
Valur hefur unnið Pepsi Max-deildina tvö ár í röð og allt stefnir í að liðið muni vinna deildina í þriðja sinn á jafn mörgum árum. Valur hefur langsterkasta leikmannahópinn í deildinni. Það hefur tvo íslenska landsliðsmenn, Birki Má Sævarsson og Hannes Þór Halldórsson sem kom til félagsins á dögunum. Valur hefur keypt fjölda leikmanna í vetur og státar af breidd í sínum leikmannahópi sem önnur lið geta aðeins látið sig dreyma um. Krafan á Hlíðarenda er að liðið vinni deildina og flestir telja að sú verði raunin. Ef einhver getur staðið undir slíkri pressu er það Ólafur Jóhannesson, reyndur þjálfari Vals.

2. FH
Eftir hörmungarnar á síðustu leiktíð er pressa á FH að koma sér aftur í fremstu röð, en liðinu gekk illa á fyrsta tímabilinu sem Ólafur Kristjánsson var með liðið. Ólafur var með mikið breytt lið á síðustu leiktíð og getur notað þá afsökun, en sú afsökun dugar ekki í ár og þarf FH að berjast á toppnum. FH er með afar sterkt byrjunarlið, en liðið þarf að treysta á að Guðmann Þórisson og Björn Daníel Sverrisson, sem komu í vetur, beri liðið uppi en báðir eiga að styrkja FH mikið. Vandamál FH gæti verið að skora mörk en liðið treystir á að Jákub Thomsen frá Færeyjum og Steven Lennon geti dregið vagninn þar.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR

3. KR
Ef guð er til í Vesturbænum, þá er það Rúnar Kristinsson. Þessi öflugi þjálfari gerði vel með KR á síðustu leiktíð og kom liðinu aftur inn í Evrópu. Nú vilja KR-ingar fara að berjast um titla og ef mið er tekið af vetrinum ætti það að geta gerst. KR hefur gert litlar breytingar, sami kjarni er til staðar en Tobias Thomsen er mættur aftur. KR-ingar treysta á að Thomsen raði inn mörkum og vörnin haldi, þá gæti KR komist á þann stað að liðið gæti barist um titla. KR er með gamalt lið en það þarf oft reynslu til að vinna titla. Fari liðið langt í Evrópu- og bikarkeppni gæti það haft áhrif í deildinni en annars ætti reynslan að vinna með KR, frekar en hitt.

4. Stjarnan
Litlar breytingar hafa orðið í Garðabæ en þær geta stundum verið af hinu góða. Stjarnan úr Garðabæ er lið stemningar og Rúnar Páll Sigmundsson kann að vekja upp þá stemningu. Stjarnan hefur á að skipa öflugri sveit, vörnin og markvarsla gæti orðið styrkleiki liðsins með komu Martins Rauschenberg. Vandræði liðsins gætu orðið á miðsvæðinu, þó er Þorri Geir Rúnarsson klár í stærra hlutverk en síðustu tvö ár, hann hefur náð fullri heilsu. Eyjólfur Héðinsson og Baldur Sigurðsson, sem borið hafa uppi miðsvæðið, eru ekki að yngjast, báðir hafa glímt við meiðsli og liðið má illa við að missa þá út. Haldist allir heilir getur Stjarnan farið langt.

5. Breiðablik
Lykilmenn hafa horfið á braut og fleiri gætu farið. Gísli Eyjólfsson og Willum Þór Willumsson eru farnir og nú reynir Jonathan Hendricx að losna úr Kópavoginum. Blikar hafa hins vegar styrkt lið sitt á móti og þar ber helst að nefna Guðjón Pétur Lýðsson og Höskuld Gunnlaugsson og þá er Arnar Sveinn Geirsson einnig mættur í Kópavoginn. Thomas Mikkelsen, besti framherji deildarinnar, verður með frá byrjun, það munar um minna. Ungir drengir munu svo leika stórt hlutverk og eru margir spenntir að sjá hvernig Brynjólfur Willumsson tekur við stærra hlutverki; er hann jafn öflugur og bróðir sinn?

6. KA
Það er metnaður í starfinu á Akureyri, en það getur reynst erfitt að brjóta sér leið inn í Evrópusæti. Óli Stefán Flóventsson er við stjórnvölinn og treysta stuðningsmenn KA á að hann verði með skipulag sitt og gleði í farteskinu, Óli er öflugur þjálfari en það eru spurningarmerki á lofti um hvort KA sé nógu sterkt lið til að stíga næsta skref. Haukur Heiðar Hauksson er kominn heim en liðið hefur misst Guðmann Þórisson, sem telst stór biti. Guðjón Pétur Lýðsson stökk svo frá borði rétt fyrir mót og það getur haft áhrif.

7. Fylkir
Fylkir mætir til leiks með betra lið en í fyrra, Geoffrey Castillion er mættur á láni frá FH og takist Fylki að koma hollenska framherjanum í form verður hann mikill styrkur fyrir liðið. Sam Hewson kom frá Grindavík en hefur glímt við meiðsli, þar er á ferðinni einn öflugasti miðjumaður deildarinnar. Helgi Valur Daníelsson er svo í frábæru formi og hefur æft af krafti í vetur. Stærsti styrkur Fylkis er hins vegar sú staðreynd að Ólafur Ingi Skúlason verður með allt tímabilið og á góðum degi er hann besti leikmaður deildarinnar. Fylkir gæti, ef allt gengur upp, komist ofar í töflunni.

8. ÍA
Skagamenn hafa verið frábærir í vetur en það er annað að gera hlutina í höllunum eða úti á grasi, þegar allt er undir. Skagamenn eru nýliðar í deildinni og þetta er fyrsta stóra prófið fyrir Jóhannes Karl Guðjónsson í þjálfun. Að margra mati er hann okkar efnilegasti þjálfari en hann þarf að sanna það á stóra sviðinu. Skagamenn hafa verið með veskið á lofti í vetur og krækt sér í stóra bita, þrátt fyrir að vera nýliðar. Viktor Jónsson og Tryggvi Hrafn Haraldsson eiga að bera upp sóknarleikinn og þeir gætu reynst mörgum liðum skeinuhættir.

Ólafur Ingi í Fylki er einn besti leikmaður deildarinnar.

9. Víkingur
Arnar Bergmann Gunnlaugsson er við stýrið og hann á erfitt verk fyrir höndum því hann þarf að smíða svo gott sem nýtt lið. Arnar þarf að treysta á að Sölvi Geir Ottesen haldi heilsu, en hann hefur lítið æft í vetur. Sölvi var afar mikilvægur fyrir Víking í fyrra en varnarleikur liðsins hrundi þegar hann var meiddur. Arnar hefur sótt marga unga stráka.

10. ÍBV
Pedro Hipólito er kominn til starfa í Eyjum. Hann gerði ekki merkilega hluti með Fram, en það hefur reyndar enginn gert síðustu ár. Fram hefur verið sökkvandi skip í íslenskum fótbolta. Það er mjög erfitt að meta styrkleika ÍBV en liðið er veikara á pappír en á síðustu leiktíð, stemningarleysi virðist svífa yfir vötnum hjá félaginu.

11. Grindavík
Suður með sjó er óvissa, en þar hafa stór nöfn, sem borið hafa leik liðsins uppi síðustu ár, horfið á braut. Srdjan Tufegdzic tók við stýrinu og hann fær erfitt verkefni, með talsverðan fjölda erlendra leikmanna í bland við kjarna sem hefur lengi verið til staðar. Túfa, eins og þjálfarinn er kallaður, þarf að treysta á að Gunnar Þorsteinsson og Alexander Veigar Þórarinsson verði í stuði og haldi uppi stemningu og leikgleði í Grindavík.

12. HK
Nýliðar HK virðast dæmdir til að falla, enginn hefur trú á liðinu nema kannski leikmenn og þjálfari liðsins. HK er með marga leikmenn sem hafa mikið að sanna í efstu deild og liðið sótti sér reynslu úr Pepsi Max-deildinni með því að fá Ásgeir Börk Ásgeirsson og Arnþór Ara Atlason til liðs við sig. Brynjar Björn Gunnarsson er að hefja sitt annað ár sem aðalþjálfari og hann nýtur mikils trausts í efri byggðum Kópavogs. Liðið er það eina sem spilar innandyra og gæti Kórinn reynst sterkasta vopn HK.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Nú líklegast að hann fari til Spánar

Nú líklegast að hann fari til Spánar
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Antony rýfur loks þögnina og útskýrir það sem hann gerði

Antony rýfur loks þögnina og útskýrir það sem hann gerði
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Selfoss lánar Gary Martin til Ólafsvíkur

Selfoss lánar Gary Martin til Ólafsvíkur
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Leikmaður í ensku úrvalsdeildinni skýtur fast á Antony

Leikmaður í ensku úrvalsdeildinni skýtur fast á Antony
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Hlakkar til að fylgjast með uppgangi John – „Það er ekkert skemmtilegra“

Hlakkar til að fylgjast með uppgangi John – „Það er ekkert skemmtilegra“
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Katrín myndi vilja bjóða Jurgen Klopp á Bessastaði – „Hann er miklu meiri stemningsmaður en ykkar maður“

Katrín myndi vilja bjóða Jurgen Klopp á Bessastaði – „Hann er miklu meiri stemningsmaður en ykkar maður“