

Það er tilgangslaust fyrir lið Marseille að komast í Meistaradeildina á næstu leiktíð segir leikmaður liðsins, Florian Thauvin.
Thauvin lék með Marseille á föstudaginn er liðið tapaði 2-0 gegn Bordeaux. Liðið er nú átta stigum á eftir Lyon sem situr í þriðja sæti deildarinnar sem gefur sæti í deild þeirra bestu.
Þetta var 11. tap Marseille á tímabilinu sem er meira en mörg önnur lið hafa tapað. Thauvin segir að liðið hafi ekkert að gera í Meistaradeildinni, að þeir séu einfaldlega ömurlegir.
,,Ég er orðinn svo þreyttur á þessu en þetta tímabil hefur verið glatað,“ sagði Thauvin við blaðamenn.
,,Þetta er sama sagan á hverju tímabili. Ég er kominn með nóg. Að ná topp þremur? Það er úr sögunni.“
,,Jafnvel þó við komumst í Meistaradeildina, hver er tilgangurinn? Við erum ömurlegir.“