

Björk Björnsdóttir, markvörður HK/Víkings í fótbolta, hefurt þurft að leggja hanskana á hilluna, tímabundið hið minnsta.
Ástæðan er þungt höfuðhögg sem Björk fékk í leik árið 2017, hún gerði sér ekki grein fyrir löngu síðar, hvaða afleiðingar höggið hafði á hana.
,,Í maí árið 2017 rotaðist ég í leik í Íslandsmótinu. Höggið var nokkuð alvarlegt og enn þann dag í dag man ég ekki eftir því. Ég var frá í dágóðan tíma en fylgdi leiðbeiningum KSÍ um endurkomuna og var nokkuð skynsöm en einnig óþolinmóð. Ég kláraði síðan sumarið með stæl með liðinu mínu og lyfti með þeim bikar,“ skrifar Björk í löngum pistli á Facebook.
Andlegir erfiðleikar fóru að hafa áhrif á Björk sem gerði sér ekki grein fyrir ástæðu þess.
,,Algjörlega ómeðvituð um alvarlegar afleiðingar höggsins hélt ég af stað inn í nýtt undirbúningstímabil. Þegar á leið og álagið jókst fór að bera á einkennum sem ég tengdi ekki við höggið í fyrstu. Þetta voru meðal annars andlegir erfiðleikar en til að gera langa sögu stutta þá var ég bara orðin virkilega ólík sjálfri mér. Ég spilaði tímabilið 2018 en vissi þó innst inni að eitthvað væri að. Ég harkaði af mér. „
KSÍ hefur staðið yfir aukinni umfjöllun um alvarleika þess að fá höfuðhögg, fólk er beðið um að harka slíkt ekki af sér.
,,Smám saman og í takt við aukna umfjöllun um afleiðingar höfuðhögga byrjaði að renna upp fyrir mér hvað væri að hrjá mig. Þekking mín og þeirra í kringum mig jókst enn meira og það leiddi til þess að ég hitti sérfræðing núna í febrúar,“ skrifaði Björk sem þarf að taka sér frí frá fótbolta.
,,Ég má ekki spila í sumar vegna afleiðinga þessa höfuðhöggs og ég skrifa það hér með tárin í augunum.
Ég er virkilega þakklát og stolt af tímabilinu sem ég átti í sumar en ég er hætt að harka af mér. Við tekur hvíld og endurhæfing en fótboltinn verður ekki langt undan. Ég stefni á endurkomu og hlakka til að taka upp hanskana en er þó einnig spennt fyrir endurhæfingunni og horfi björtum augum til batans sem kemur á endanum með þolinmæði og dug.“

Björk þakkar fyrir að búið að sé að auka umfjölun um þær afleiðingar sem höfuðhögg getur haft.
,,Takk fyrir aukna umfjöllun um afleyðingar höfuðhögga. Án hennar hefði ég ekki áttað mig Takk fyrir aukna þekkingu á mikilvægi þess að huga að andlegri heilsu íþróttafólks. Án þess hefði ég ekki kunnað að hlúa að sjálfri mér í sumar Takk fyrir fótboltann! Án hans væri ég ekki ég Megi allt ofangreint verða enn meira og betra og megi enginn harka af sér höfuðhögg.“
Pistil hennar má lesa í heild hér að neðan.