„Ég er sammála umræðunni erlendis um að banna eigi skallabolta í fótbolta þegar um er að ræða börn og unglinga, hvort sem er á æfingum eða í keppni,“ sagði Jónas G. Halldórsson, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði, í samtali við Morgunblaðið um helgina.
Þar kom fram að létt höfuðhögg, til dæmis við að skalla bolta, geti komið af stað hreyfingum á vefi heilans. Afleiðingarnar geti verið slæmar, til dæmis höfuðverkur, svimi, þreyta, kvíði og depurð. Þeim sérfræðingum fjölgi sem vilja banna skallabolta hjá börnum og unglingum vegna þess að afleiðingarnir geti verið óafturkræfar.
„Börn eru með tiltölulega þunna og viðkvæma höfuðkúpu, sem ver heilann ekki eins vel og höfuðkúpa fullorðinna. Svona skallaboltar geta orðið nokkuð margir á æfingu eða í fótboltaleik svo þetta safnast upp, þannig að jafnvel þótt höggin séu létt og börnin rotist ekki eða fái einkenni heilahristings, þá er þetta endurtekið áreiti á heilann,“ segir Jónas við Morgunblaðið.
Í Bandaríkjunum hefur verið til umræðu að banna skallabolta barna og takmarka hann hjá unglingum og segist Jónas sammála þessari umræðu. „Höfuðkúpan hefur ekki náð fullum styrkleika. Heilinn er viðkvæmur fyrir þessum endurteknu höfuðhöggum. Og það skortir á líkamlegan styrk, einbeitingu og færni við að skalla boltann, sem getur skipt verulegu máli.“
Þá er rætt við Arnar Bill Gunnarsson, fræðslustjóra KSÍ, sem segir að KSÍ fylgist með gangi mála hjá FIFA og UEFA sem eru að skoða þessi mál. „Ef þessi stóru sambönd koma með nýjar leiðbeiningar um þetta förum við eftir þeim.“