Luka Modric, leikmaður Real Madrid á Spáni, var í dag valinn leikmaður ársins hjá UEFA en verðlaunafhending fór fram í Monaco.
Modric kom til greina sem leikmaður ársins ásamt Cristiano Ronaldo, leikmanni Juventus og Mohamed Salah, leikmanni Liverpool.
Modric átti stórkostlegt ár en hann fagnaði sigri í Meistaradeildinni með Real þar sem liðið vann Liverpool í úrslitum.
Einnig var miðjumaðurinn frábær á HM í Rússlandi í sumar þar sem Króatía komst alla leið í úrslit en tapaði þar fyrir Frökkum.
Danska landsliðskonan Pernille Harder var þá kosinn leikmaður ársins í kvennaflokki.
Harder spilar með Wolfsburg í Þýskalandi líkt og landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir.
Harder átti frábært ár en Wolfsburg varð meistari í Þýskalandi og tapaði fyrir Lyon í úrslitum Meistaradeildarinnar.