Burnley er úr leik í Evrópudeildinni en liðið mætti Olympiakos frá Grikklandi í kvöld.
Leikur kvöldsins fór fram á Turf Moor, heimavelli Burnley og lauk með 1-1 jafntefli.
Fyrri leiknum lauk með 3-1 sigri gríska liðsins sem hefur samanlagt betur, 4-2. Jóhann Berg Guðmundsson er meiddur og var ekki með Burnley í kvöld.
Það verða þó nokkrir Íslendingar í riðlakeppninni en Quarabag, Sarpsborg, Rosenborg og Malmö tryggðu sér öll sæti.
Arnór Ingvi Traustason kom við sögu í 2-0 sigri Malmö á Midtjylland en Malmö hefur betur samanlagt, 4-2.
Hannes Þór Halldórsson er á mála hjá Quarabag en hann var ekki með í öruggum 3-0 sigri á Sheriff Tiraspol í kvöld. Quarabag fer áfram samanlagt, 3-1.
Matthías Vilhjálmsson og félagar í Rosenborg tryggðu sér þá sæti og Orri Sigurður Ómarsson var ekki í hóp Sarpsborg sem sló Viðar Örn Kjartansson og félaga í Maccabi Tel Aviv úr leik.