„Hann er ekki vanur að tippa, Arsenal-aðdáandinn sem var að vafra á netinu og ákvað að skella sér á einn sjálfvalsseðil í Getraunum,“ segir í tilkynningu frá Getspá.
Þar er sagt frá einum heppnum tippara sem nældi sér í 4,6 milljónir króna um helgina.
Tipparinn skellti sér á sjálfvalsseðil en í fyrstu tilraun kom upp tap hjá Arsenal. Það var okkar maður ekki ánægður með og hann valdi því aftur. Í þetta skiptið kom upp jafntefli sem var ekki heldur nógu gott.
„Þegar tipparinn smellti í þriðja sinn kom upp sigur Arsenal og það var seðillinn sem okkar maður ákvað að taka. Þessar 54 raðir kostuðu 648 krónur. Tipparinn varð að vonum ánægður þegar hringt var í hann frá Íslenskum getraunum og honum sagt að hann hefði fengið 13 rétta og vinning upp á 4,6 milljónir króna. Ekki amalegur þriðjudagur fyrir þennan stálheppna tippara.“