Martin O’Neill, landsliðsþjálfari Írlands, hefur staðfest það að miðjumaðurinn Declan Rice hafi fengið símtal frá enska knattspyrnusambandinu.
Rice á að baki þrjá landsleiki fyrir Írland en hann er aðeins 19 ára gamall og spilaði í vináttuleikjum.
Hann er þó einnig löglegur með enska landsliðinu þar sem hann hefur enn ekki spilað í keppnisleik með Írlandi. Hann er fæddur í London en afi hans og amma koma frá Írlandi.
Rice er á mála hjá West Ham á Englandi en hann var ekki valinn í landsliðshóp Írlands fyrir leik gegn Wales í Þjóðadeildinni.
,,Hann er enn að ákveða sig. Hann er ungur maður,” sagði O’Neill er hann var spurður út í af hverju Rice væri ekki í hópnum.
,,England hefur rætt við hann. Hann er að hugsa sig um. Hann hefur staðið sig frábærlega fyrir okkur og ég mun gefa honum tíma.”