Erik Hamren, landsliðsþjálfari, býst alls ekki við auðveldu verkefni á næstunni er okkar menn mæta liði Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni.
Hamren kynnti í dag sinn fyrsta landsliðshóp sem landsliðsþjálfari en hann tók við keflinu í sumar.
Hamren hefur útskýrt hvernig fyrstu dagarnir virka en hann fær fimm daga fyrir svokallað ‘undirbúningstímabil’.
,,Þetta verður krefjandi verkefni fyrir okkur. Við erum að spila gegn liðum númer þrjú og átta á heimslistanum og það er áhugavert,“ sagði Hamren.
,,Það eru fimm dagar sem við fáum á ‘undirbúningstímabilinu’ eins og ég kýs að kalla það áður en keppnin hefst og það er mikil áskorun.“
,,Á mánudaginn snúa leikmenn aftur úr félagsfótbolta og við byrjum svo myndafundi sama dag, við getum ekki gert allt á vellinum. Við þurfum að tala mikið saman.“
,,Við munum vinna með vörninni mest á þriðjudag og á miðvikudag með sókninni og hvernig við ætlum að spila.“
,,Ég get ekki beðið eftir því að hitta allt starfsfólkið og leikmennina og að byrja þetta ævintýri saman.“