fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Samkvæmisleikir og staðreyndir um Njálu

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 24. nóvember 2017 10:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Kárason skrifar:

Það er stundum talað um það sem einhvern langdreginn samkvæmisleik okkar Íslendinga að reyna að giska á eða geta sér til um höfund okkar frægustu bókar fyrr og síðar, sjálfrar Brennu-Njáls sögu, eða Njálu. Og vissulega hafa margar slíkar ágiskanir verið eins og hreint skot í myrkri; menn hafa verið að nefna til sögunnar biskupa, presta eða veraldlega höfðingja sem við teljum að hafi verið uppi á ritunartíma sögunnar og að auki trúlega bæði læsir og skrifandi, sem var á þeim tímum annars ekki sjálfgefið. Að auki innifela þannig ágiskanir það að þessi úthugsaða og margslungna bók sem hér um ræðir hafi þá sennilega verið verk viðvanings; að einhver með litla eða jafnvel enga reynslu af sagnaskrifum hafi tekið sig til einn góðan veðurdag og farið að skrifa stóra sögulega skáldsögu, með þessari útkomu.

Eins og mörgum er kunnugt hef ég sjálfur hallast mjög að eða eiginlega sannfærst um að sú kenning sem aðrir höfðu viðrað á undan mér, meðal annars Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, að Sturla Þórðarson hafi samið Njálu, sé hárrétt. Einhverjir kynnu þá að spyrja hvort það sé ekki bara einmitt enn eitt skotið í myrkrinu, ágiskun sem getur aldrei orðið meira en það; að Sturla, skáld og sagnaritari, sé bara enn einn maðurinn sem hafi verið uppi á ritunartíma Njálu og verið læs og skrifandi. En það er aldeilis ekki svo. Þessi kenning byggir nefnilega á þeirri staðreynd að innihaldslegar samsvaranir á milli þekktustu bókar sem við vitum að Sturla samdi, og hinsvegar Njálu, eru svo miklar og sláandi að engin haldbær eða trúleg skýring á því getur verið önnur en sú að sami höfundur hafi verið að verki við samningu beggja bóka.

Glæsimennið Kári Sölmundarson.

„Íslendingasaga,“ sem svo hefur verið kölluð, er veigamesti og mikilvægasti hluti Sturlungusafnsins, en í fyrsta hluta hennar er kappinn og glæsimennið Sturla Sighvatsson í forgrunni. Uppgangur hans og sigurganga virðist óstöðvandi, hann er bæði dáður og öfundaður, en hann verður einhvers konar ofmetnaði og ofdirfsku að bráð; hann hirðir ekki um aðvörunarorð og ráðleggingar eldri og vitrari manna eins og föður síns. Sturla egnir gegn sér of marga og of volduga andstæðinga, sem mynda bandalag gegn honum og fella svo í bardaga, undir forystu Gissurar Þorvaldssonar, síðar jarls. Annar hluti bókarinnar segir svo frá hefndinni sem kom yfir Gissur; bær hans er umkringdur af óvinaflokki sem reynir að brjóta sér leið inn í húsin til að drepa Gissur og syni hans þrjá, en þar sem varist er af hörku taka þeir til bragðs að brenna húsin. Einn þeirra sem drepa átti, Gissur sjálfur, sleppur lifandi úr eldinum, og síðasti hluti Íslendingasögu segir svo frá hefnd hans, og drápum á mörgum brennumanna.

Sama orðalag

Þegar ég var niðursokkinn í að skrifa skáldsöguna „Skáld“ (2012), þar sem Sturla Þórðarson er aðalpersónan, og ég lá í að lesa allt sem ég kom höndum yfir og skrifað hefur verið um tímann þegar hann lifði, og hafði reyndar verið í áratug með hugann við þrettándu öldina vegna fleiri skáldsagna um sama tímabil, þá uppgötvaði ég að þessum þremur hlutum Íslendingasögu mætti lýsa, næstum í smáatriðum, með sömu orðum og þeim þremur bókarhlutum sem Njála er samsett úr: hetjan og glæsimennið í fyrsta hluta sem fer fram úr sér, ofmetnast og fellur; næsti bókarhlutinn er um brennuna, og síðasti hlutinn um hefnd þess sem sleppur lifandi úr eldinum. Áður höfðu ýmsir fræðimenn, meðal annars Barði Guðmundsson, sagnfræðingur og fyrrverandi þjóðskjalavörður og mikill Njálufræðingur, og norski norrænufræðingurinn John Meegaard, bent á ótalmargar hliðstæður á milli beggja bóka, til dæmis hvernig sjónarhornið er fært í báðum bókum á dramatískum stöðum á milli andstæðra fylkinga; í brennunni til að mynda frá brennumönnum og svo inn í eldinn þar sem hliðstæðar persónur birtast – húsmóðirin og tengdadóttirin, sem segja og gera nokkurn veginn það sama, og svona mætti lengi telja.

Hér er stuttur bútur úr Skírnisgrein sem ég birti um þessi mál árið 2011: „En önnur atriði snerta dramatískasta atburð beggja bóka, er íslenskt höfuðból er umkringt af óvinum sem brenna húsin þegar þeim mistekst að brjótast inn og drepa húsráðendur. Hér er ein af stórmerkilegum athugunum Barða: „Veturinn eftir Flugumýrarbrennu heppnaðist Gissuri Þorvaldssyni að fella átta af brennumönnum, og á næsta sumri, er Oddur Þórarinsson hafði tekið við forystunni af Gissuri í baráttunni gegn þeim, felldi hann fimm í Grímsey“ (Grímsey og Flatey á Skjálfanda. aths. – ek). „Rétt áður en greint er í Njálu frá utanför Flosa og manna hans á skipi Eyjólfs nefs er Kári látinn segja við Þorgeir skorargeir: „Drepa ætla ég Gunnar Lambason og Kol Þorsteinsson, ef færi gefur á. Höfum við þá drepið fimmtán menn með þeim fimm, er við drápum báðir saman“ Hina átta hafði Kári drepið í hefndaraðförinni með Birni í Mörk. Tvískiptingin á tölu hinna felldu brennumanna í Sturlungu og Njálu er nákvæmlega eins: 8+5.“ (Barði Guðmundsson, sama bls. 63–64)

Áfram Barði bls. 64:

Gegnir hér sama máli eins og um dráp Gissurarsona í Flugumýrarbrennu og Njálssona í Njálsbrennu. Tveir bræðurnir farast í sjálfri brennunni. Sá þriðji er höggvinn niður fyrir dyrum úti, er hann freistar undankomu með sverð í hendi.

Um svipað leyti og ég var að velta fyrir mér þessum athugunum Barða rakst ég á grein á netinu, skrifaða á ensku af John Meegaard, sem mun vera norskur norrænufræðingur; hún heitir einfaldlega: „Was Njáls saga written by Sturla Þorðarson?“

Hann tekur eftir sama orðalagi á lykilstöðum í báðum brennum, t.d. eru húsmæðurnar á Flugumýri og Bergþórshvoli látnar segja: „Að eitt skyldi yfir þær báðar ganga“ (Fl.brenna), „Að eitt skyldi ganga yfir okkur bæði“ (Nj.brenna) Og á sama stað í báðum brennulýsingum stendur: „Tóku þá húsin mjög að loga“ (Fl.brenna) „Nú taka öll húsin að loga“ (Nj.brenna)

Í þessum tveimur brennum má sem sé sjá hliðstæður á milli orða og örlaga húsfreyjunnar á bænum sem er sóttur með eldi, og sömuleiðis sona húsráðandans. John Meegaard bendir einnig á hliðstæðu sem varðar tengdadóttur húsráðenda: bæði Ingibjörg Sturludóttir á Flugumýri og Þórhalla Ásgrímsdóttir á Bergþórshvoli eru komnar í námunda við dyragætt eftir að eldur hefur læst sig í húsin, og þá er kallað til þeirra að utan og þeim boðin útganga. Báðar hika, vilja helst ekki skiljast við eiginmenn sína. Ingibjörg Sturludóttir Þórðarsonar höfundar frásagnarinnar um Flugumýrarbrennu var þá nýgift Halli Gissurarsyni, en Þórhalla var kona Helga Njálssonar“ (Hausthefti Skírnis 2012)

Stórmerkileg rannsókn í nýjum Skírni

Skarphéðinn vegur Þráin.

Þennan bút læt ég nægja því að ef ég færi að telja upp allar hliðstæðurnar á milli beggja bóka, jafnt í efnisatriðum sem orðalagi, þá væri ég fljótur að fylla það rými sem ég hef til að birta þessi skrif. Og samsvaranirnar eru reyndar hafnar yfir vafa og ekki um þær deilt. Ég hef beðið eftir að fá viðbrögð við mínum skrifum og athugunum, og þá helst eftir að heyra aðrar skýringa sem menn aðhyllast á því hversu hliðstæðar þessar fornu bækur eru – báðar skrifaðar um svipað leyti. Hvaða skýringar aðrar séu yfirleitt tiltækar önnur en sú eina sem mér finnst blasa við, það er að segja að hér sé um sama höfund að ræða?

Því er ég nú að rifja þetta upp að eins og margir hafa heyrt þá birtust í nýútgefnu hefti hins fornfræga bókmenntatímarits Skírnis niðurstöður nokkurra fræðimanna sem gerðu nýstárlega og stærðfræðilega rannsókn á stíl ýmissa íslenskra miðaldabóka, bæði þeirra sem við þykjumst vita hverjir skrifuðu og svo annarra, með það fyrir augum að fá vísbendingar um hverjir gætu hafa samið þær sem við teljum ófeðraðar. En niðurstöður þeirra Jóns Karls Helgasonar íslenskufræðings og stærðfræðinganna Sigurðar Ingibergs Björnssonar og Steingríms Páls Kárasonar voru kannski þær helstar að margt benti til að Snorri Sturluson hafi samið Egils sögu, eins og margir hafa getið sér til um, en að sömu vísbendingar væri ekki að finna um að Sturla Þórðarson hafi samið Njálssögu, með stíllegri samanburðarrannsókn á þeirri bók og svo frægasta verki Sturlu, Íslendingasögu, sem er mikilvægasti partur Sturlungusafnsins.

En aðalatriðin standa óhögguð

Þar sem, eins og hér hefur komið fram, mörgum er kunnugt um að ég hef á síðari árum verið einna helstur talsmaður þess að ekki sé unnt að líta framhjá þeim líkindum sem eru á milli þessara tveggja frægu snilldarverka, Íslendingasögu og Njálu, hafa menn getið sér þess til að umrædd niðurstaða hljóti að vera mér mikil vonbrigði og að nú verði ég að endurskoða mín sjónarmið. En ég ætla að segja það strax að þótt mér finnist umrædd rannsókn stórmerkileg og tímabær, þá tel ég engu að síður að sem svar við spurningunni um Njálu og Sturlu tel ég hana litlu breyta. Ég held að þótt líkindi í stíl á milli tveggja verka sé vissulega vísbending um að sami höfundur geti verið á ferðinni, þá þarf frábrugðin tækni ekki endilega að benda til hins gagnstæða. Einfaldlega vegna þess að listrænir höfundar geta brugðið fyrir sig ólíkum stílbrigðum. Og það á við um Sturlu Þórðarson; það eru til dæmis mjög ólíkar bækur Íslendingasagan hans og svo ævisagan sem hann skrifaði um Hákon Noregskonung Hákonarson. Sumir höfundar breyta um stíl í einni og sömu bókinni; mig minnir að James Joyce geri það að minnsta kosti sex sinnum í Ódysseifi, og mér fljúga í hug ýmsir nútímahöfundar; ég held til dæmis að það væri tæplega hægt með stílrannsókn að komast að þeirri niðurstöðu að bækur Sjóns, Stálnótt og Rökkurbýsnir, væru eftir sama höfundinn.

Engin bókaprentun eða dreifing

Einar Kárason rithöfundur. Mynd/Sigtryggur Ari

Einu skýringarnar sem hafa heyrst á þessum sláandi líkindum, aðrar en þær sem ég aðhyllist, eru þær að höfundur Njálu hafi verið búinn að lesa Íslendingabók Sturlu, og af einhverjum ástæðum ákveðið að laga sína bók að henni; eiginlega tekið hana eins og litaspjald með númerum og ákveðið að mála í reitina með öðrum litum. En við verðum að hafa í huga að á þessum tímum var engin bókaútgáfa eða bókaprentun og dreifing. Bækur flugu ekkert um land allt. Hin viðamiklu skrif Sturlu um Sturlungaöldina hafa verið afar þykkur bunki skrifaðra skinnblaða heima hjá honum á Staðarhóli vestur eða úti í Fagurey á Breiðafirði, þangað sem hann síðar flutti. Þetta hefur ekkert verið tvist og bast um landið, og engar heimildir eru um að þetta hafi verið afritað um hans ævidaga, en hann lést 1284. Trúlegt er að fyrsta afritunin hafi verið sú sem einn af hans samstarfsmönnum gerði snemma á fjórtándu öld, er hann steypti saman úr ólíkum bókum Sturlungusafninu eins og við síðan þekkjum það.

Fyrir nú utan það sem blasir við að Sturla er eini höfundurinn á hans tímum sem hafði þá reynslu, þá miklu æfingu, og þá snilli til að bera sem þarf svo hægt sé að skrifa jafn viðamikið, úthugsað og margslungið listaverk og sem Brennu-Njáls sögu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna