Sport

105 dagar í EM og útlitið er ekki nógu gott

Ýmis ljón í veginum fyrir íslenska liðið – Barneign Hörpu hefur valdið þjálfaranum höfuðverk

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 5. apríl 2017 19:00

Það eru ekki nema 105 dagar í að íslenska kvennalandsliðið hefji leik á EM í Hollandi í sumar. Fyrsti leikur liðsins er gegn Frakklandi þann 18. júlí næstkomandi. Miðað við þá ótrúlegu stemmingu sem skapaðist á landinu í fyrrasumar þegar strákunum gekk vel má ekki útiloka að eitthvað svipað muni eiga sér stað í sumar ef stelpurnar okkar, sem hafa í dag talsverða reynslu af stórmótum, geri gott mót.

Er útlitið svart?

Það er hins vegar ljóst að útlitið hefur oft verið bjartara en um þessar mundir, lykilmenn eru meiddir og þá átti Harpa Þorsteinsdóttir barn á dögunum og ekki er öruggt að henni takist að koma sér í toppform á þessum 105 dögum sem eru til stefnu. Það hefur hins vegar orðið ljóst síðan Harpa þurfti að taka sér pásu vegna þungunar sinnar að hún er landsliðinu afar mikilvæg. Sóknarleikur liðsins hefur verið slakur á þeim tíma sem Harpa hefur verið fjarverandi.

Harpa skoraði tíu mörk í undankeppninni sem tryggði liðinu leið inn á EM. Þar skoraði liðið 34 mörk en Harpa var ekki bara sú sem skoraði mest heldur skapaði hún mikið fyrir liðsfélaga sína. Hún tekur mikið til sín og skapar þannig svæði sem félagar hennar geta nýtt sér. Freyr Alexandersson, þjálfari liðsins, hlýtur einfaldlega að liggja á bæn og vona að Harpa nái sér áður en boltinn fer að rúlla í Hollandi. Harpa er farin að stunda hreyfingu og vonast til að ná sér.

Freyr segist vera alveg sama hvaðan mörkin koma. Sóknarleikur liðsins hefur verið slakur í fjarveru Hörpu Þorsteinsdóttur.
Mörg spurningarmerki Freyr segist vera alveg sama hvaðan mörkin koma. Sóknarleikur liðsins hefur verið slakur í fjarveru Hörpu Þorsteinsdóttur.

Mynd: EPA

Þjálfarinn hefur áhyggjur

Freyr Alexandersson hefur aldrei ferið í felur með neitt síðan að hann tók við landsliðinu, hann veit af þeim vandamálum sem hafa komið upp síðan að Harpa þurfti frá að hverfa. Freyr hefur breytt um leikkerfi sem enginn sá fyrir enda var liðið eins og smurð vél í undankeppninni, vörnin hélt vel og sóknarleikurinn var eins og best varð á kosið. Í undankeppni EM lék liðið alltaf útgáfu af 4-3-3 kerfinu. Undanfarið hefur Freyr verið að prófa sig áfram með 3-4-3 kerfið og útgáfur af því. Allt er það vegna þess að sóknarleikur liðsins, án Hörpu, hefur verið slakur, aðrir leikmenn hafa fengið tækifærið en ekki nýtt sér það.

„Harpa myndi hjálpa liðinu, hún gerir íslenska liðið betra. Hún er ekki bara að skora, hún skapar líka pláss. Ég hef ekki verið ánægður með þau svör sem ég hef fengið í fjarveru hennar. Þegar Harpa kom inn í mitt kerfi hafði hún ekki skorað mikið en það tók hana 4–5 leiki að skora fyrsta markið. Ég er ekki búinn að gefast upp á þeim sem hafa fengið tækifæri, þeir leikmenn hafa hæfileika. Þær hafa möguleika á að stíga upp. Sóknarleikurinn er augljóst vandamál en ég er búinn að skoða þetta og á meðan hún er ekki að spila þá er mér alveg sama hvar mörkin koma,“ sagði Freyr um málið.

„Ég hef ekki verið ánægður með þau svör sem ég hef fengið í fjarveru hennar.“

Áföll í Portúgal

Liðið hélt til Algarve á dögunum þar sem það tók þátt í sterku æfingarmóti, ferðin skildi hins vegar eftir fleiri vandamál en lausnir. Strax í fyrsta leik gegn Noregi meiddust bæði Dóra María Lárusdóttir og Sandra María Jessen alvarlega. Meiðslin eru þess eðlis að þær missa að öllum líkindum báðar af EM, Sandra María reynir að halda í vonina um ótrúlega skjótan bata en sú von er afar veik. Að auki er Hólmfríður Magnúsdóttir í kappi við tímann eftir fótbrot og ekki er víst hvenær hún kemst á fullt aftur, hún reyndist liðinu einnig mikilvæg sóknarlega. Dagný Brynjarsdóttir er svo einn allra mikilvægasti leikmaður liðsins en vandræði hennar með meiðsli hafa sett strik í reikninginn í leikjum landsliðsins í upphafi árs. Vonir standa þó til að hún verði heil heilsu tæpum tveimur mánuðum áður en ballið byrjar í Hollandi. Það þarf ekki að hafa meistaragráðu í neinu fagi til að sjá að svona stuttu fyrir mót er ástandið ekki eins og þjálfarinn klóki hefði viljað hafa það. Mörg spurningarmerki voka yfir liðinu sem hefur þó ótrúlegan karakter sem hjálpar til á tímum sem þessum.

Mikilvægir dagar fram undan

Það eru mikilvægir dagar fram undan hjá landsliðinu þessa stundina þar sem liðið leikur tvo æfingarleiki, sá fyrri er gegn Slóvakíu á fimmtudag en báðir leikirnir eru ytra. Í Slóvakíu gæti gefist kjörið tækifæri fyrir íslenska liðið að byggja upp sjálfstraust á nýjan leik og þá er tækifærið gott fyrir sóknarmenn liðsins sem hafa átt erfitt uppdráttar í að finna markaskóna sína á nýjan leik. Síðari leikurinn er svo gegn Hollandi eftir slétta viku, sá tími sem liðið fær þar í landi og leikurinn gegn Hollandi er góð prófraun. Liðið nær að kynnast aðstæðum í landinu þar sem það dvelur á EM í sumar. Þá er Holland sterkur andstæðingur sem mun reyna talsvert á varnarlínu liðsins og verða henni stór prófraun. Hver dagur fram að móti þarf svo að nýtast vel í að fá lykilmenn heila heilsu til að íslenska þjóðin geti verið stolt af þessu landsliði okkar í Hollandi í sumar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af