fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Sport

Heldur áfram til 100 ára aldurs

Gunnleifur fagnar 42 ára afmæli sínu í sumar en er á meðal þeirra bestu

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 28. apríl 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pepsi-deild karla hefst á sunnudaginn en í marki Breiðabliks stendur Gunnleifur Gunnleifsson og hefur gert síðustu ár. Gunnleifur fagnar 42 ára afmæli sínu í sumar en þrátt fyrir það er hann einn allra besti markvörður landsins.

Blikar voru svekktir með endinn á síðasta tímabili þar sem liðið missteig sig allsvakalega og missti af Evrópusæti, en sæti í Evrópu er það sem öll stærstu félögin stefna að í dag enda miklir fjármunir í boðir.

„Ég held að það sé alltaf þannig að ef liðið hefur hæfileikana en nær ekki markmiðum sínum þá sé það andlegt, hausinn á mönnum og það var það sem gerðist. Við vorum ekki nógu sterkir í hausnum í síðustu umferðunum í fyrra og því fór sem fór,“ sagði Gunnleifur þegar við settumst niður með honum á Kópavogsvelli í vikunni.

„Breiðablik sem félag hefur meðvitað verið að setja það inn í félagsmenn sína að við séum komnir á þann stað að við eigum að keppa um titla á hverju einasta ári og allt annað eru vonbrigði. Þá kemur hungur í fólk, það er ekki svo langt síðan Breiðablik flakkaði á milli deilda. Félagið hefur hins vegar fest sig í sessi í efstu deild og vill keppa um titla og ná árangri.

„Ég get farið úr því vera rúmlega 40 ára gamall með stóra fjölskyldu og komið og hitt strákana og orðið strákur.“

Það er vandmeðfarið hvernig félög á Íslandi skilgreina sig, eins og Breiðablik sem er með um 1.600 iðkendur. Íþróttafélög á Íslandi eru nefnilega líka uppeldisstofnanir að einhverju leyti, krakkar sem koma hingað eru að læra gildi. Við viljum skila fólki út í samfélagið sem hefur lært aga, virðingu og góð gildi. Okkur finnst við geta gert hvort tveggja, verið uppeldisfélag sem selur leikmenn út og síðan teljum við okkur líka geta verið afreksþenkjandi og vera að keppa um titla. Fótbolti snýst um að vinna leiki og ef það tekst það þá félagið sjálfkrafa að keppa um titla.“

Hinn venjulegi Jón sér þetta kannski ekki

Knattspyrnan á Íslandi og í öllum heiminum er allt öðruvísi en hún var á árum áður, taktík og líkamlegt atgervi skiptir gríðarlega miklu máli. Með aga og skipulagi er hægt að ná langt, það sannar íslenska landsliðið best. „Fótboltinn í heiminum er orðinn þannig, ekki bara hérna, að það eru alltaf að verða fleiri og fleiri lið sem eru samkeppnishæf í toppbaráttu. Það kunna allir gott skipulag og allir eru í góðu líkamlega ástandi, það er eðlilegt að það séu fleiri lið að berjast. Hérna í efstu deild eru fimm lið sem vilja berjast um þá titla sem eru í boði og ég er klár á að þau lið sem ná ekki titli eða Evrópusæti í sumar verða afar vonsvikin.

Þjálfunin er orðin svo góð og ef við tölum bara um Ísland þá er utanumhaldið, þjálfunin og vitund leikmanna líka orðin miklu, miklu betri. Þótt hinn venjulegi Jón í stúkunni sjái ekki skákina sem er í gangi úti á vellinum, sérstaklega í byrjun móts þegar vellirnir eru ekki góðir og boltinn mikið í loftinu, þá er þetta allt sett upp. Það er verið bíða eftir því að andstæðingurinn gerir mistök sem gefur færi, maður þarf að vera sterkur andlega og reyna að nýta þau mistök sem koma upp í leikjum til að vinna þá.“

Atvinnumennska á Íslandi

Á Íslandi fá margir leikmenn vel borgað og tölur eins og ein milljón króna í vasann á mánuði hverjum heyrast reglulega. Þrátt fyrir það er deildin hér heima ekki atvinnumannadeild en Gunnleifur vill að menn hugsi þannig. „Ég vil meina að þótt menn fái mismikið borgað þá fá allir leikmenn í efstu deild eitthvað borgað og sumir hverjir mjög vel. Í mínum huga er þetta bara orðið atvinnumennska, það eru svo rosalega margir góðir fótboltamenn hérna að það er setið um stöðurnar. Það er setið um hverja stöðu í hverju einasta liði í Pepsi-deildinni – hjá okkur sem dæmi. Þetta er bara maskína, það kemur upp fjöldi efnilegra stráka á hverju ári, tæknilega mjög góðir. Það er ekki svigrúm fyrir mistök og eitthvert bull, þá kemur bara næsti maður og tekur stöðuna þína í liðinu. Þú verður að vera 100 prósent í því sem þú gerir daginn út og inn. Ef þú ætlar að ná einhverjum árangri í dag þarftu að vera atvinnumaður allan sólarhringinn, þú verður að setja þetta í forgang. Ef þú ætlar að ná árangri þá þarftu að hugsa um þig allan daginn, alla daga vikurnar,“ sagði Gunnleifur sem hefur lengi verið viðloðandi knattspyrnuna og tímarnir hafa breyst á þessum árum.

„Þetta var allt annar handleggur þegar ég var að byrja í þessu, æfingaferðirnar voru til að mynda bara djammferðir. Knattspyrnan í dag er bara allt annar heimur.“

Svekkjandi að vinna ekki neitt með Breiðabliki

Gunnleifur yfirgaf FH árið 2013 og gekk í raðir Breiðabliks en á þessum fjórum tímabilum hans í Kópavoginum hefur liðinu ekki tekist að vinna stóran titil. „Ég get bara alveg viðurkennt að það hefur verið svekkjandi að vinna ekki titla hérna, það má ekkert klikka. Breiðablik hefur verið að breyta hugsunarhættinum hjá sér karlamegin um að vera að berjast um titla, það er komið inn í félagið. Við höfðum tækifæri fyrir tveimur árum, þá var lag að ná FH. Það voru vonbrigði að ná ekki titli á fyrsta tímabilinu hans Arnars Grétarssonar.“

Heldur áfram til 100 ára aldurs

Eins og fram hefur komið er Gunnleifur að verða 42 ára gamall í sumar en þrátt fyrir háan aldur er hann í toppformi og er lítið að hugsa um það að hætta. „Þetta verður skemmtilegra og skemmtilegra með hverju árinu, ég kann að meta þetta eftir því sem ég verð eldri. Ég horfi öðruvísi á þetta og tek þessu ekki sem sjálfsögðum hlut, ég hugsa mjög vel um mig og allt sem ég geri. Ég er samt ekki að finna upp hjólið, ég tek lýsið mitt á morgnana og borða eðlilegan íslenskan mat. Ég æfi vel og hef verið hálf meiðslalaus í gegnum tíðina, þetta er ógeðslega gaman. Ég get ekki beðið eftir því að mæta á næstu æfingu með strákunum, þeir halda manni ungum með strákatalinu sínu. Ég get farið úr því vera rúmlega 40 ára gamall með stóra fjölskyldu og komið og hitt strákana og orðið strákur.

Ég er ekki að reyna að afsanna neitt, það er held ég bara eðlileg umræða að talað sé um minn aldur. Það eru ekki margir leikmenn á mínum aldri að spila í efstu deild í sínu landi. Í gegnum tíðina hefur þetta ekki gerst, ég skil þessa umræðu því vel. Að mínu mati var tímabilið í fyrra og tímabilið þar á undan ein af mínum bestu tímabilum á ferlinum, þá var ég 40 ára og 41 árs. Mér líður rosalega vel í dag og formið gott, ég er ekkert að pæla í þessu. Þetta er bara tala á blaði í mínum huga.

Ég æfi mjög vel, ég man samt ekki eftir því síðustu ár að það hafi ekki alltaf verið eitthvað sem angrar mann en þannig eru flestir knattspyrnumenn. Ég hef verið í marki meira og minna í 35 ár og ég er orðinn ansi vanur því og öllu sem því fylgir. Við vorum í æfingaferð á Spáni um daginn í viku og þar æfði ég 14 sinnum yfir ferðina. Þetta voru 22 klukkutímar og mér leið eins og ég væri nýr þegar ég kom heim.

Ég held að það sé ekki endilega gott að hugsa um það hvenær ég hætti, ég æfi mig í því að vera í núinu og taka hvert augnablik fyrir sig og temja mér þá hugsun. Ég elska íþróttina og elska að vera í marki, ég veit ekki hversu mörgum klukkutímum ég hef eytt í þessu yndislega marki í gegnum tíðina og þetta er það sem mér finnst skemmtilegast að gera. Svo lengi sem það er þannig þá held ég áfram þangað til að ég verð 100 ára.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Opinberar smáatriðin í stórfurðulegum samning sem hann og kærastan hafa gert með sér

Opinberar smáatriðin í stórfurðulegum samning sem hann og kærastan hafa gert með sér
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Spáin fyrir Bestu deild kvenna – „Ég myndi segja að það sé eina sjokkið“

Spáin fyrir Bestu deild kvenna – „Ég myndi segja að það sé eina sjokkið“
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Besta deild kvenna fer af stað með látum á sunnudag

Besta deild kvenna fer af stað með látum á sunnudag
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar