Gylfi gefur lítið fyrir gagnrýni á landsliðið

Ætlar ekki að falla með Swansea - Pælir ekki í sögusögnum

Gylfi segir að öll hans orka fari í að halda Swansea í deild þeirra bestu.
Einbeittur Gylfi segir að öll hans orka fari í að halda Swansea í deild þeirra bestu.
Mynd: EPA

Gylfi Þór Sigurðsson er án nokkurs vafa skærasta stjarna Íslands í dag. Strákurinn úr Hafnarfirði heldur slöku liði Swansea á floti í ensku úrvalsdeildinni á sama tíma og að hann dregur vagninn með íslenska landsliðinu.

Gylfi hefur átt frábæru gengi að fagna í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð en hann hefur lagt upp flest mörk allra í deildinni. Ekki neinn leikmaður í deildinni hleypur meira en Gylfi og þá hefur hann skorað átta mörk fyrir Swansea sem berst fyrir lífi sínu í deildinni. Gylfi fer yfir gengi landsliðsins og lokasprettinn með Swansea í þessu viðtali en DV heyrði í honum í vikunni.

Gefur lítið fyrir gagnrýni Óskars Hrafns

Óskar Hrafn Þorvaldsson knattspyrnusérfræðingur steig fram í vikunni og gagnrýndi landsliðið nokkuð harkalega. Hann sagði spilamennsku liðsins áhyggjuefni en Gylfi gefur lítið fyrir þau ummæli. Landsliðið vann Kósóvó í erfiðum útileik fyrir viku og er í frábærri stöðu í undankeppni HM.

„Það var afskaplega gott að ná í þrjú stig í þessum leik, það er mjög mikilvægt að við vinnum svona leiki þrátt fyrir að við séum ekki að spila vel. Frá mínu sjónarhorni skiptir það ekki nokkru máli hvernig við spilum svo lengi sem við vinnum okkar leiki. Ef við værum að spila alveg frábærlega og að tapa leikjum þá hefði ég áhyggjur, þetta snýst allt um að vinna leiki. Eins og þessi riðill okkar er að spilast þá má ljóst vera að þetta ræðst bara á 1–2 stigum. Þetta er að spilast þannig, Króatía er ekki að tapa mörgum stigum og maður sér heldur ekki Úkraínu og Tyrkland gera það,“ sagði Gylfi um málið en Ísland er í afar erfiðum riðli, líklega þeim erfiðasta sem var í boði.

„Ég held að það sé alveg á hreinu að við erum í sterkasta riðlinum sem er í gangi fyrir HM í Rússlandi, þarna eru fjórar þjóðir sem voru á EM í Frakklandi. Finnland og Kósóvó eru síðan mjög sterk lið, þetta eru lið sem erfitt er að spila gegn. Þú setur Finnland og Kósóvó ekki í sama flokk og Lúxemborg eða San Marínó. Þetta er mjög erfiður riðill, við erum búnir með Króatíu, Úkraínu og Kósóvó úti. Ef þú hefðir spurt mig fyrir riðilinn hvort ég hefði tekið tíu stig eftir fyrri umferðina að þá hefði ég tekið þau. Staðan er góð og við getum horft björtum augum á seinni hlutann.“

Gylfi átti mjög góðan leik gegn Kósóvó í liðinni viku. Hann er fullur tilhlökkunar fyrir leikinn gegn Króötum í júní.
Hlakkar til Gylfi átti mjög góðan leik gegn Kósóvó í liðinni viku. Hann er fullur tilhlökkunar fyrir leikinn gegn Króötum í júní.
Mynd: EPA

Ekki ástæða til að breyta því sem gott er

Óskar hafði orð á því að ef íslenska liðið héldi áfram að spila eins og það gerir núna þá færi það ekki á HM í Rússlandi. Staðreyndir málsins eru hins vegar þær að liðið er í frábærri stöðu þegar undankeppnin er hálfnuð. Fram undan er leikur um toppsætið við Króatíu í júní, Króatar hafa 13 stig á toppnum en íslenska liðið er með 10 stig í öðru sæti. Efsta sætið gefur öruggt sæti á HM og annað sætið í riðlinum ætti að gefa sæti í umspili. „Það er þannig að við erum mjög öflugir varnarlega, þegar við erum að stýra leikjum hefur það stundum verið smá vesen. Það er hlutur sem við þurfum að bæta en ef við náum upp sama varnarleik og síðustu ár þá er ég mjög bjartsýnn. Það hentar okkur betur að liggja aðeins til baka og stjórna leiknum með varnarleik. Ég sé ekki ástæðu til þess að breyta þeim hlutum sem hafa virkað svo vel. Það væri gáfulegra að breyta hlutunum ef við værum búnir að vera í veseni síðustu ár.“

„Ef þú hefðir spurt mig fyrir riðilinn hvort ég hefði tekið tíu stig eftir fyrri umferðina að þá hefði ég tekið þau.“

Gylfi er spenntur fyrir leiknum við Króata þann 11. júní á Laugardalsvelli, toppsætið undir og þetta rifjar upp gamla tíma fyrir Gylfa. „Þetta er mjög spennandi leikur, þetta minnir mig svolítið á leikinn gegn Tékklandi hérna sumarið 2015. Það var svona leikur sem gat komið okkur í frábæra stöðu, við höfðum tapað gegn Tékkum úti alveg eins og gegn Króatíu og áttum þá svo heima um sumarið. Ef við náum góðum úrslitum þá er allt mögulegt. Þetta verður samt gríðarlega erfitt verkefni. Ef maður skoðar hópinn þeirra þá er þetta líklega eitt af sjö bestu landsliðunum í dag. Miðjan hjá þeim er frábær, þeir eru með öfluga sóknarmenn og það er ekki einfalt að spila við þá. Það er samt að styttast í sigur okkar á þeim, við höfum ekki unnið þá í þremur tilraunum á síðustu árum og nú er vonandi komið að sigri.“

Ekki besta uppskriftin

Swansea er einu sæti fyrir ofan fallsætin þrjú og fram undan eru mikilvægir tíma hjá Gylfa. Tímabilið hefur verið erfitt þar sem liðið hefur haft þrjá þjálfara. Í dag er Paul Clement þjálfari liðsins og Gylfa líkar mjög vel að vinna með honum.

„Við eigum leik við Middlesbrough á sunnudaginn og við hreinlega verðum að vinna þann leik. Ef við klárum það ekki erum við komnir í þvílíkt basl. Við erum með 27 stig og 10 stig í viðbót ættu að bjarga okkur frá falli. Ég hef haft trú á þessu allt tímabilið, líka þegar það leit ekkert sérstaklega vel út. Eftir að Clement kom inn þá hefur þetta litið allt öðruvísi út, við eru með meira sjálfstraust. Við vitum að við getum klárað öll lið, sigur eins og gegn Liverpool á Anfield gefur öllum mikið.“

„Ég hef ekki hugmynd um það hvort ég fari í sumar.“

Clement hafði orð á því í vikunni að Gylfi ætti að koma til greina sem einn af leikmönnum ársins í deildinni og það gladdi okkar mann að heyra af því. „Það er í fyrsta skipti sem ég heyri eitthvað svona, það er gaman að heyra að hann tali svona um mig. Hann er sáttur við mig, það hefur gengið vel að leggja upp mörk eftir að hann tók við. Ég hef líka leyst margar stöður, hef verið falskur framherji, á miðjunni og úti á kantinum. Sem miðjumaður er ég að skora mikið og leggja upp. Persónulega hefur þetta gengið frábærlega.“

Félagarnir láta mann vita

Varla er hægt að skoða ensk blöð eða vefsíður þar í landi án þess að lesa um að hitt og þetta lið hafi áhuga á Gylfa. Lið frá Kína sýna honum áhuga auk stærri liða í ensku úrvalsdeildinni. Þessi öflugi leikmaður er hins vegar mjög jarðbundinn og pælir ekki í svona sögusögnum og því sem kann að gerast í sumar. „Heiðarlega svarið er að ég er ekkert að pæla í því sem getur gerst eða gerist ekki, maður sér eitthvað af þessum fréttum og svo eru félagarnir duglegir að láta mann vita. Ég heyri af þessu en ég er bara að hugsa um að halda sæti okkar í deildinni. Ég hef ekki hugmynd um hvort ég fari í sumar, ég hef ekki talað við Swansea um þau mál. Ég er mjög ánægður hérna og á þrjú ár eftir af samningi mínum. Það er undir klúbbnum komið hvað gerist.“

Á í deilum við Jóhann Berg

Gylfi á í deilum við Jóhann Berg Guðmundsson, liðsfélaga sinn í landsliðinu, um það hvort hann hafi fallið á ferli sínum. Gylfi lék nefnilega 15 leiki með Crewe veturinn 2009 og þá féll liðið. Gylfi telur að það telji ekki með í svona. Hann ætlar sér ekki að falla með Swansea í ár. „Ég er að einbeita mér að því núna að hjálpa Swansea að halda sér í deildinni, ég veit ekki hvort ég sé með fall á ferilskránni. Ég var í láni hjá Crewe í smá tíma þegar liðið féll og Jóhann Berg vill meina að það telji. Hann fór að tala um að það fall væri gott og gilt eftir að hann féll með Charlton í fyrra, ég er ekki á því að þetta telji sem fall á mínum ferli.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.