Sport

Töframaðurinn Totti og tengingin við tölvuleikinn FIFA ’96

Á þessum degi fyrir 24 árum lék Francesco Totti sinn fyrsta leik fyrir aðallið Roma

Ritstjórn DV skrifar
Þriðjudaginn 28. mars 2017 20:30

Það var á þessum degi fyrir 24 árum sem ítalska goðsögnin Francesco Totti lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Roma í ítölsku Serie A, aðeins sextán ára gamall.

Það var 28. mars árið 1993 sem þjálfari liðsins Vujadin Boskov gaf Totti tækifæri í 2-0 útisigri gegn Brescia. Það var þó ekki fyrr en tímabilið eftir sem hann fór að fá spila reglulega og söguna síðan þekkja flestir knattspyrnuáhugamenn. Totti, sem nú er fertugur, en enn að spila með Roma og enn að bjarga liðinu með mikilvægum mörkum af bekknum.

Á þessum tímamótum hafa sparkspekingar jafnt sem aðdáendur keppst við að mæra þennan ótrúlega leikmann á samfélagsmiðlum. Á Twitter birtist athyglisverður fróðleiksmoli sem er, eftir því sem næst verður komist, hárréttur.

Árið 1995 gaf EA Sports út fótboltatölvuleikinn FIFA ´96, sem þá var þriðji leikurinn í seríunni sem komið hefur út árlega alla tíð síðan og nýtur meiri vinsælda í dag en nokkru sinni. Áður höfðu komið út leikurinn FIFA ´95 og fyrsti leikurinn, FIFA International Soccer.

Svo virðist sem Francesco Totti sé eini útileikmaðurinn sem enn er að spila í dag sem var að finna í tölvuleiknum FIFA ´96.

Svo sannarlega sturluð staðreynd og til marks um ótrúlegan og langan feril ítalska framherjans hjá einu og sama félaginu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af