Egill: Komið nóg af skítkasti – Við eigum honum mikið að þakka

„Martraðarbyrjun Lagerbäcks“ les ég á íslenskum vefmiðli. Lars okkar Lagerbäck er búinn að taka við þjálfun norska landsliðsins. Það tapaði 0-2 fyrir Norður-Írlandi, kannski ekki martröð, en það er ekki gaman að tapa. Þetta var samt bara fyrsti leikur liðsins undir stjórn Lars.

Þetta segir fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason sem furðar sig á af hverju Íslendingar gleðjist yfir hrakförum Lars Lagerbäcks sem nýverið tók að sér að þjálfa landslið Noregs í Knattspyrnu. Í pistli á Eyjunni bendir Egill á að Norðmenn eigi enga afburðarleikmenn og hvað þá knattspyrnumann eins og Gylfa Sigurðsson til að halda liðinu á floti líkt og Gylfi gerði á föstudaginn gegn Kósovó. Það er langt um liðið síðan leikmenn í sama gæðaflokki og John Arne Riise, Ole Gunnar Solskjær og Tore Andre Flo léku fyrir Noreg.

„Ég sé mér til furðu að á samskiptamiðlum fagna margir þessum úrslitum. Annað hvort er þeim illa við Norðmenn, vilja veg þeim í íþróttum sem minnstan, ellegar þeir eru sárir út í Lars Lagerbäck fyrir að hætta að þjálfa íslenska liðið og vilja að honum gangi illa með Noregi. Já, maður sér að það hlakkar í mörgum.“

Egill furðar sig á þessu og vill sjá Íslendinga hvetja Lars og Norðmenn til dáða

„Þetta er skrítið. Við eigum Lars það að þakka að Ísland náði sínum langbesta árangri í fótbolta – og verður tæplega jafnaður. Og Norðmenn eru vina- og frændþjóð og koma yfirleitt fram við okkur af stakri alúð – halda meira að segja með okkur í íþróttakeppnum ef þannig ber undir. Og þetta segi ég ekki bara af því ég er af norsku bergi brotinn. Heia Norge!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.