Það var laglegt! Ísland í góðri stöðu eftir sigur á Kósóvó

2-1 sigur og 2. sæti riðilsins staðreynd

Björn Bergmann kom Íslandi á bragðið.
Marki fagnað Björn Bergmann kom Íslandi á bragðið.
Mynd: EPA

Ísland vann afar mikilvægan sigur á Kósóvó í undankeppni HM í kvöld, 2-1. Björn Bergmann Sigurðarson kom Íslandi á bragðið á 25. mínútu með marki af stuttu færi eftir að markvörður Kósóvós varði skot Gylfa Þórs Sigurðssonar út í teiginn.

Á 33. mínútu fékk Ísland svo vítaspyrnu þegar brotið var á Birki Má Sævarssyni. Gylfi Þór Sigurðsson fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Leikmenn Kósóvó pressuðu íslenska liðið stíft í byrjun leiks og voru í raun líklegri til að ná forystunni. Rétt áður en Björn Bergmann kom Íslandi yfir áttu Kósóvóar skot sem sleikti þverslána á marki íslenska liðsins.

Kósóvóar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og minnkuðu þeir muninn á 52. mínútu. Þar var á ferðinni Atdhe Nuhiu sem skallaði boltann inn af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf frá vinstri vængnum. Ísland sigldi svo sigrinum í höfn þrátt fyrir nokkra pressu Kósóvóa. Niðurstaðan góður sigur í erfiðum leik.

Með sigrinum fór Ísland upp í 2. sæti riðilsins með 10 stig eftir 5 leiki. Króatar, sem lögðu Úkraínu, eru á toppnum með 13 stig eftir jafn marga leiki. Úkraína og Tyrkland eru svo jöfn að stigum með 8 stig í 3. og 4. Sæti. Tyrkir lögðu Finna í dag, 2-0, og eru Finnar með 1 stig eins og Kósóvóar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.