Gegn Kósóvó er krafan þrjú stig

Mikilvægur leikur fram undan hjá Íslandi - Hefur umræðan um drykkju Viðars áhrif?

Gylfi Þór Sigurðsson er leikfær en félagar hans á myndinni, Birkir Bjarnason og Kolbeinn Sigþórsson, eru fjarri góðu gamni.
Mikilvægur leikur Gylfi Þór Sigurðsson er leikfær en félagar hans á myndinni, Birkir Bjarnason og Kolbeinn Sigþórsson, eru fjarri góðu gamni.
Mynd: EPA

Það er gríðarlega mikilvægur landsleikur á föstudag þegar karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Kósóvó í undankeppni HM. Leikið er í Albaníu þar sem Kósóvó, sem er nýtt lið innan FIFA, á ekki völl sem er löglegur í leik af þessari stærðargráðu. Íslenska landsliðið mætir sært til leiks þar sem lykilmenn vantar í liðið. Alfreð Finnbogason, Birkir Bjarnason, Kolbeinn Sigþórsson og Jóhann Berg Guðmundsson eru allir fjarverandi vegna meiðsla en allir léku stórt hlutverk á EM í sumar.

Ný þjóð sem ekki má vanmeta

Kósóvó var viðurkennt innan FIFA í janúar árið 2014 og fékk þá að spila æfingarleiki við aðrar þjóðir. Það var svo í maí í fyrra sem UEFA gaf þjóðinni keppnisleyfi og í framhaldinu var liðið dregið í riðil með íslenska landsliðinu fyrir HM í Rússlandi árið 2018. „Við erum búnir að horfa á þá spila og vitum hvað þeir geta, það er því ekki nein ástæða til þess að vanmeta þá. Þeir sem eru utanaðkomandi vita kannski ekki að þeir eru góðir í fótbolta og telja þá ekki til stórræðanna,“ sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, um málið.

Heimir segir að íslenska liðið megi ekki við því að vanmeta lið Kósóvó. Liðið sé sterkara en staða þess á styrkleikalista FIFA gefi til kynna.
Ekkert vanmat Heimir segir að íslenska liðið megi ekki við því að vanmeta lið Kósóvó. Liðið sé sterkara en staða þess á styrkleikalista FIFA gefi til kynna.
Mynd: EPA

Mikill munur á lista FIFA

Kósóvó situr í 164. sæti á styrkleikalista FIFA en á sama tíma situr Ísland í 23. sæti og því er eðlilegt að gerðar séu kröfur um sigur. Lið Kósóvó er þó sterkara en sæti þeirra á lista FIFA segir til um enda hefur það ekki spilað nema fjóra mótsleiki og búast má við að Kósóvó rjúki upp listann. Að því sögðu á Ísland alltaf að vinna svona leik miðað við stöðu liðanna í dag. „Þeir eru langt niðri á lista FIFA og eiga ekki glæsta sögu eða sigra, þeir hafa líka bara spilað fjóra mótsleiki sem þjóð. Þeir eru með góða einstaklinga og þjálfarinn er góður, þetta verður snúinn leikur og mörg ljón í veginum,“ sagði Heimir um verkefnið.

Sigur setur Ísland í bílstjórasætið

Vinni Ísland leikinn er liðið í bílstjórasæti í riðlinum, liðið mætir Króatíu á Laugardalsvelli í júní og vinni Ísland þann leik er liðið komið með toppsætið í riðlinum að því gefnu að Ísland vinni Kósóvó. Ísland situr þessa stundina í þriðja sæti með sjö stig eftir fjóra leiki en Úkraína er með átta stig og Króatía 10 stig en þessi lið mætast í þessari umferð. „Þetta er eitt skref af þeim sem við þurfum að taka í átt að því markmiði sem við erum með, þrjú stig gera mikið fyrir okkur og halda okkur í bílstjórasætinu og við ráðum okkar örlögum sjálfir ef við klárum þennan leik,“ sagði Heimir.

Varar við vanmati

Heimir varar við því að leikmenn liðsins, fjölmiðlar og áhorfendur vanmeti lið Kósóvó þrátt fyrir skamma sögu. „Við þurfum að hafa öll okkar atriði á hreinu og hvert einasta smáatriði, eitt af því er að vanmeta aldrei andstæðinginn sama hversu mörg stig hann er með. Við vitum að lið Kósóvó mun eflast með hverjum leik og vonandi verður það ekki of öflugt fyrir okkur.“

Viðar og drykkjan

Á föstudag í síðustu viku komst í umræðuna að Viðar Örn Kjartansson hefði fengið sér í glas nokkru fyrir landsleik gegn Króatíu í nóvember í fyrra. Upp kom hálfgert fjölmiðlafár en Viðar og Heimir, þjálfari liðsins, höfðu grafið málið eftir að það kom upp. Viðar braut ekki agareglur liðsins en málið vakti athygli og spurning hvort það muni trufla leikmenn og þjálfara í undirbúningi leiksins. Viðar hefur beðist afsökunar á hegðun sinni en blæs á þær kjaftasögur að hann hafi mætt fullur til leiks þegar liðið hóf undirbúning. Framherjinn hefur verið sjóðandi heitur í Ísrael og raðað inn mörkum, þá er Viðar mikilvægur landsliðinu á þessum tímapunkti þar sem Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Sigþórsson eru meiddir. Fróðlegt verður því að fylgjast með því hvernig hann svarar fyrir sig á föstudag í Albaníu, en búist er við að hann verði í byrjunarliðinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.