Frábær samstaða í Fjarðabyggð: Hlé gert á leiknum og leikmenn fóru út að leita

Óttast var að börn hefðu lent undir snjó sem féll af þaki Fjarðabyggðarhallarinnar

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki.
Björgunarsveit Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki.
Mynd: DV ehf / Sigurður Gunnarsson

Óvenjulegt atvik átti sér stað í Leiknis Fáskrúðsfjarðar og Fram sem fór í Fjarðabyggðarhöllinni í Lengjubikarnum í fótbolta í dag.

Eins og greint var frá í dag voru björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi kallaðar út laust fyrir klukkan 14 eftir að snjór rann af þaki hallarinnar. Talið var hugsanlegt að börn, sem voru að leik utandyra, hefðu orðið undir snjónum.

Fótbolti.net greinir frá því að tuttugu mínútna hlé hafi verið gert á leiknum í dag meðan að leikmenn beggja liða fóru út að leita í snjónum. Sem betur fer lentu engin börn undir snjónum og hélt leikurinn því áfram.

„Við sáum bara að allir áhorfendur hlupu út og húsvörðurinn í Fjarðabyggðarhöllini fór á bekkina og bað alla um að koma og hjálpa,“ segir Björgvin Stefán Pétursson, fyrirliði Leiknis, í samtali við Fótbolta.net. Hann segir að varamenn og þjálfarar hafi komið inn á og sagt frá gangi mála og í kjölfarið hafi allir farið út að moka í 10 til 15 mínútur. Leikmenn kláruðu svo leikinn þegar björgunarsveitin mætti með leitarhunda.

Þess má geta að um hörkuleik var að ræða sem endaði 4-4.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.