Sport

Treyjunúmerin sem pirra þig óstjórnlega

Þegar staðan passar ekki við númerið á bakinu – Þessir syntu gegn straumnum

Ritstjórn DV skrifar
Fimmtudaginn 23. febrúar 2017 21:00

Liðin er sú tíð þegar staðan sem knattspyrnumenn leika ákvarðar treyjunúmerið sem þeir bera. Þegar byrjunarliðin samanstóðu af leikmönnum í treyjum með númerin 1 til 11 á bakinu. Það er allt gott og blessað, leikurinn breytist og mennirnir með. Nú geta leikmenn valið sér númer allt frá 1 og upp í 99.

Þrátt fyrir þetta aukna frjálsræði þá kemur það einstaka sinnum fyrir að leikmenn ganga of langt og strjúka fótboltapúritönum andhæris svo um munar. Eins og þegar miðverðir henda sér í treyju númer 9, eins og Khalid Boulahrouz gerði sem frægt er orðið hjá Chelsea á sínum tíma. Þvílíkur hryllingur.

Af því tilefni hefur breska dagblaðið Mirror tekið saman lista yfir byrjunarlið verstu treyjunúmeranna þar sem leikmenn velja sér númer frá 1–11 sem engan veginn hæfa stöðunni sem þeir leika


Mynd: EPA

Markvörður
Emiliano Viviano
Sampdoria
Treyjunúmer: 2

Ítalski markvörðurinn ætti að vera sendur í bann fyrir að velja sér treyjunúmer hægri bakvarðar. Viviano (31) hefur líka leikið með Brecia, Bologna og Fiorentina á ferlinum auk þess sem hann fór eitt sinn á láni til Arsenal. Státar af sex landsleikjum fyrir Ítalíu en sagan segir að hann hafi valið sér treyju númer 2 hjá Sampdoria árið 2014 vegna þess að eina númerið sem annars var í boði var 12 og Viviano líkar ekki við háar tölur. Markmenn eru sérstakar týpur.


Mynd: EPA

Hægri bakvörður
Glen Johnson
Stoke City
Treyjunúmer: 8

Bakvörðurinn Glen Johnson var eitt mesta efni Englands þegar Chelsea keypti hann ungan frá West Ham árið 2003. Hann renndi sér í hina dæmigerðu treyju númer 2 hjá Chelsea eftir að hafa verið í númer 23 hjá West Ham. Þaðan lá leið hans til Portsmouth þar sem hann fór í treyju númer 5 og aftur í treyju númer 2 hjá Liverpool. Hvað varð til þess að hann ákvað að velja sér númer 8 hjá Stoke City árið 2015 er einn af leyndardómum nútímaboltans.


Mynd: EPA

Miðvörður
Artem Fedetskiy
Darmstadt
Treyjunúmer: 7

Stór og stæðilegur, úkraínskur miðvörður í treyju númer 7, SJÖ!, er bara furðulegt, jafnvel fyrir þýsku Bundesliguna. Fedetskiy hafði skartað númer 44 í fjögur ár hjá Dnipro í heimalandinu en ákvað að flippa létt þegar í ljós kom að hefðbundin varnartreyjunúmer voru öll upptekin hjá Darmstadt.


Mynd: EPA

Miðvörður
Kyriakos Papadopoulos
Hamburg SV
Treyjunúmer: 9

Gríska varnartröllið var oft talið einn efnilegasti ungi leikmaður Evrópu í sinni stöðu. Hann ákvað að Boulahrouz-a yfir sig þegar hann var sendur á láni til Hamburg SV frá Bayer Leverkusen. Kannski er eitthvað í vatninu þarna í Bundesligunni en aldrei, undir nokkrum kringumstæðum, ætti miðvörður að skarta treyju númer 9.


Mynd: EPA

Vinstri bakvörður
Aleksandar Kolarov
Manchester City
Treyjunúmer 11

Það má vissulega færa fyrir því rök að Kolarov hafi alltaf litið meira á sig sem vinstri kantmann en varnarsinnaðan bakvörð. Á ferlinum hafði hann áður sótt í þristinn, hið hefðbundna treyjunúmer vinstri bakvarða. Bæði hjá OFK Beograd í heimalandinu og Lazio á Ítalíu en síðan hóf hann ferilinn hjá Man City í treyju númer 13. Það slapp. En þegar Scott Sinclair hvarf á braut frá City sætti Kolarov færis og stökk á treyju númer 11! Það númer hafði hann reyndar notað síðasta tímabilið sitt hjá Lazio og hefði því augljóslega átt að vita betur.


Til vinstri á mynd, númer 1.
Jonathan de Guzman Til vinstri á mynd, númer 1.

Mynd: EPA

Miðjumaður
Jonathan de Guzman
Chievo
Treyjunúmer: 1

Hollenski miðjumaðurinn er á láni hjá Chievo frá Napoli á Ítalíu og kannski er hann bara pirraður að hafa verið álitinn afgangsstærð hjá Napoli og ákveðið að gefa skít í hefðir knattspyrnunnar. Hver veit, en það er hins vegar vitað mál að hann og Viviano mættu gjarnan skiptast á númerum á þessum lista.


Miðjumaður
Henri Lansbury
Aston Villa
Treyjunúmer: 5

Klárlega ekki versta brotið á þessum lista en Mirror-menn virðast líta þannig á að treyjunúmerið 5 eigi heima í vörninni. Mörg dæmi eru raunar um að miðjumenn skarti fimmunni, meðal annars Zinedine Zidane hjá Real Madrid á sínum tíma, sem var reyndar mjög einkennilegt val. Lansbury átti að mati Mirror að bíða í nokkra daga og taka númer 10 hjá Villa sem losnaði nokkrum dögum síðar nú í janúar þegar Jordan Ayew var seldur.


Mynd: EPA

Miðjumaður
Nabil Bentaleb
Schalke
Treyjunúmer: 10

Bentaleb er fínn leikmaður og teknískur. Er á láni frá Tottenham hjá Schalke en starfar mest sem djúpliggjandi miðjumaður og við vitum öll að þeir eiga að láta treyju númer 10 vera. Menn áttu að læra af vitleysunni í Lassana Diarra hjá Real Madrid. Leyfum Pele, Maradona og Messi-týpunum að eiga tíuna. Menn í miðjuharki eiga sín númer.


Mynd: EPA

Framherji
Steven Fletcher
Sheffield Wednesday
Treyjunúmer: 6

Skoski framherjinn hefur leikið í treyjum 9 og 10 allan sinn feril eins og vera ber en þegar hann gekk í raðir Sheffield Wednesday í fyrra virðist hann hafa hætt að reyna. Hann leyfði í alvörunni eiganda liðsins, Dejphon Chansiri, að velja treyjunúmerið fyrir sig.

„Hann velur þau í raun öll eftir tilfinningu sinni fyrir hverjum leikmanni,“ útskýrði Fletcher. „Ég veit ekki af hverju hann valdi númer 6 fyrir mig. En hann er yfirmaðurinn, svo ég ákvað að best væri að spyrja ekki út í það.“
Fletcher minn, þú hefðir átt að spyrja.


Framherji
Hal Robson-Kanu
West Bromwich Albion
Treyjunúmer: 4

Velski framherjinn þráði að komast í ensku úrvalsdeildina eftir fína frammistöðu með Wales á EM í fyrrasumar. Hann var greinilega svo ánægður með að WBA gaf honum tækifærið á lokadegi félagaskiptagluggans í haust að hann pældi ekkert í vitleysunni sem hann var að samþykkja með að taka fjarkann. Aðeins skorað eitt mark og það er pottþétt treyjunúmerinu að kenna.


Mynd: EPA

Framherji
Jordan Ayew
Swansea
Treyjunúmer: 3

Gylfi Sigurðsson hefði mátt hnippa aðeins í Jordan til að koma fyrir hann vitinu þegar Swansea keypti hann í janúarglugganum. Ayew hefur að sjálfsögðu verið spurður út í val sitt og borið því við að hann hafi ekki haft úr mörgu að velja og einnig að hann hafi áður leikið í treyju númer þrjú, þegar hann var lánsmaður í Frakklandi hjá Souchaux.
Eins og margir muna hefur landi hans, Ganamaðurinn Asamoah Gyan, ávallt leikið í treyju númer 3, þrátt fyrir að vera framherji. En það þýðir ekki að það sé í lagi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af