fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Sport

Það er líf eftir úrvalsdeildina

Leikmennirnir sem náðu sér aldrei á strik á Englandi – Slá í gegn annars staðar

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 18. febrúar 2017 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stundum er því haldið fram að enska úrvalsdeildin sé erfiðasta deildarkeppni heims á sviði fótbolta, og það er líklega engum ofsögum sagt. Tímabilið er langt og strangt, dagskráin er þétt yfir jólin og veðrið getur gert mönnum lífið leitt yfir köldustu vetrarmánuðina. Margir frábærir leikmenn hafa átt erfitt uppdráttar á Englandi, einhverra hluta vegna, en síðan slegið í gegn í öðrum deildum. Hér er yfirlit yfir nokkra slíka leikmenn.


Mynd: EPA

Iago Aspas

Spilaði með: Liverpool
Spilar í dag með: Celta Vigo

Forráðamenn Liverpool bundu miklar vonir við Spánverjann Iago Aspas þegar hann var keyptur frá Celta Vigo árið 2013. Aspas hafði enda raðað inn mörkum fyrir félagið. Hjá Liverpool náði Aspas sér þó aldrei á strik og varð hann hálfgert aðhlátursefni hjá stuðningsmönnum annarra liða. Aspas spilaði 15 leiki í það heila fyrir Liverpool og skoraði í þeim eitt mark. Hann var lánaður til Sevilla tímabilið 2014/15 áður en hann var seldur aftur til Celta sumarið 2015. Þar hefur hann slegið rækilega í gegn og skorað 33 mörk í 65 leikjum síðan.


Mynd: EPA

Andrej Kramaric

Spilaði með: Leicester
Spilar í dag með: Hoffenheim

Kramaric varð dýrasti leikmaðurinn í sögu Leicester þegar hann var keyptur frá Rijeka í Króatíu á 7,5 milljónir punda árið 2014. Kramaric gekk bölvanlega á Englandi og náði sér engan veginn á strik í úrvalsdeildinni. Hann skoraði tvö mörk í deildinni fyrir Leicester áður en hann var lánaður til Hoffenheim í Þýskalandi sumarið 2015. Þar hefur Kramaric fundið fjöl sína og er nú mikilvægur hlekkur í toppbaráttuliði Hoffenheim.


Mynd: EPA

Suso

Spilaði með: Liverpool
Spilar í dag með: AC Milan

Suso var aðeins 16 ára gamall þegar landi hans, Spánverjinn Rafael Benitez, fékk hann til Liverpool. Suso náði þó aldrei að sýna sitt rétta andlit hjá Liverpool en honum til varnar verður að segja að hann var mjög ungur þegar hann fékk sín fyrstu tækifæri á Anfield. Hann lék 20 leiki í það heila fyrir Liverpool og skoraði eitt mark. Hann var lánaður til Almeria á Spáni tímabilið 2013/14. Samningur hans við Liverpool rann út sumarið 2015 og þá gekk hann í raðir AC Milan á Ítalíu. Í fyrra lék Suso sem lánsmaður hjá Genoa þar sem hann stóð sig vel en í vetur hefur hann verið fastamaður í liði Milan og skorað sex mörk í deildinni til þessa. Þrátt fyrir nokkuð langan feril er Suso enn aðeins 23 ára.


Mynd: EPA

Serge Gnabry

Spilaði með: Arsenal
Spilar í dag með: Werder Bremen

Það voru margir sem spáðu Þjóðverjanum Serge Gnabry mikilli velgengni hjá Arsenal. Hann var aðeins 16 ára þegar hann gekk til liðs við félagið og hann byrjaði ágætlega. Tímabilið 2013/14 spilaði Gnabry reglulega en hnémeiðsli héldu honum frá keppni nánast allt tímabilið 2014/5. Í kjölfarið fylgdi martraðardvöl á láni hjá WBA á síðasta tímabili þar sem Gnabry lék lítið sem ekkert. Í sumar fékk hann sig lausan frá Arsenal og samdi við Werder Bremen í Þýskalandi. Þar hefur Gnabry látið til sín taka og skorað sjö mörk í 17 leikjum.


Mynd: EPA

Mohammed Salah

Spilaði með: Chelsea
Spilar í dag með: Roma

Þessi eldfljóti Egypti var keyptur til Chelsea í janúarglugganum 2014. Salah byrjaði sæmilega en gekk illa að brjóta sér leið inn í byrjunarlið Chelsea. Ári eftir að hann gekk til liðs við Chelsea var hann lánaður til Fiorentina og nokkrum mánuðum síðar, sumarið 2015, var hann lánaður til Roma. Ítalski boltinn virtist henta Salah ágætlega enda skoraði hann mikið, bæði með Fiorentina og Roma. Það var svo í fyrrasumar að Roma festi kaup á Salah og hefur hann þakkað traustið með frábærri spilamennsku. Salah hefur skorað 24 mörk í 63 leikjum og er í hópi bestu leikmanna ítölsku deildarinnar.


Mynd: EPA

Nabil Bentaleb

Spilaði með: Tottenham
Spilar í dag með: Schalke

Alsíringurinn Nabil Bentaleb var ungur að árum þegar hann var farinn að spila reglulega fyrir Tottenham. Hann braust inn í aðalliðið tímabilið 2013/14 og spilaði í það heila 66 leiki fyrir Tottenham. Tækifærum hans fór þó fækkandi eftir að hann varð fyrir meiðslum og í fyrrasumar var hann lánaður til Schalke í Þýskalandi. Þar hefur Bentaleb látið til sín taka og er einn af lykilmönnum liðsins. Það er þó aldrei að vita nema Bentaleb fái aftur tækifæri hjá Tottenham þegar lánsdvölinni hjá Schalke lýkur.


Mynd: EPA

Anthony Modeste

Spilaði með: Blackburn
Spilar í dag með: Köln

Modeste lék sem lánsmaður hjá Blackburn frá Bordeaux eftir að hafa komið í janúarglugganum 2012. Ekki var um neina frægðarför að ræða þar sem allt gekk á afturfótunum hjá Modeste – og raunar Blackburn-liðinu. Liðið féll í síðustu umferðinni eftir 3-0 tap í leik þar sem Modeste fékk að líta rauða spjaldið. Allt í allt spilaði hann níu leiki fyrir Blackburn án þess að skora. Í dag er Modeste þó annar leikmaður. Hann spilar með Köln í Þýskalandi og getur varla hætt að skora. Á þessu tímabili er hann kominn með 18 mörk í 23 leikjum, þar af 16 í deild. Hann hefur skorað meira en Robert Lewandowski í deildinni og aðeins einu marki minna en markamaskínan Pierre-Emerick Aubameyang.


Peter Gulacsi

Spilaði með: Liverpool
Spilar í dag með: RB Leipzig

Markvarðarvandamál Liverpool hafa verið talsvert í umræðunni á tímabilinu. Gulacsi er 26 ára Ungverji sem var á mála hjá Liverpool árin 2008 til 2013. Hann spilaði aldrei fyrir félagið heldur var hann lánaður milli ýmissa liða í neðri deildum Englands. Árið 2013 samdi hann við Red Bull Salzburg og árið 2015 samdi hann við systurfélagið RB Leipzig. Leipzig hefur komið allra liða mest á óvart í Þýskalandi í vetur þar sem liðið er í 2. sæti á eftir Bayern München. Gulacsi er lykilmaður í liðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Goðsögn Manchester United hefði viljað fá að spila þarna á ferlinum

Goðsögn Manchester United hefði viljað fá að spila þarna á ferlinum