fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Sport

Fær vasapening frá mömmu

Gabriel Jesus slær í gegn hjá Manchester City – Heldur Sergio Aguero fyrir utan liðið – Hlaut strangt uppeldi og hlýðir mömmu í einu og öllu

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 16. febrúar 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um það leyti sem Manchester City fagnaði sínum fyrsta Englandsmeistaratitli í rúm 40 ár vorið 2012 var Gabriel Jesus 14 ára piltur sem lék sér í fótbolta á götum fátækrahverfisins Jardim Peri í norðurhluta Sao Paulo.

Nú, fimm árum síðar, er Jesus ein af vonarstjörnum City-liðsins eftir að hafa gengið í raðir félagsins í byrjun janúar frá Palmeiras í Brasilíu. Áður en að leiknum gegn Bournemouth kom á dögunum hafði hann skorað þrjú mörk í fyrstu þremur leikjum sínum fyrir félagið og hélt hann sjálfum Sergio Aguero, einum besta leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar, á bekknum. Gabriel Jesus varð fyrir slæmum meiðslum í leiknum gegn Bournemouth sem munu halda honum frá keppni næstu þrjá mánuðina. Byrjun hans hjá City hefur þó lofað góðu og ljóst að hann muni styrkja sóknarleik liðsins mikið á komandi misserum. En hver er þessi ungi Brassi sem komið hefur eins og stormsveipur í ensku úrvalsdeildina?

Ólst upp á sparkvöllum

Gabriel Jesus fæddist þann 7. apríl 1997 í Sao Paulo og ólst upp í Jardim Peri-hverfinu. Eins og Brasilíumanna er siður eyddi Jesus löngum stundum á sparkvöllum hverfisins. Jesus var orðinn nokkuð stálpaður þegar hann gekk í raðir fótboltafélags í borginni en árið 2010, þegar hann var 12 ára, gekk hann til liðs við áhugamannafélagið Associação Atlética Anhanguera. Áður hafði hann æft fótbolta með liði í hverfinu en hjá Anhanguera naut hann fyrst almennilegrar leiðsagnar þeirra sem voru ágætlega að sér í fótboltafræðum.

Gabriel Jesus er fæddur árið 1997. Tímabilið 1996-1997 var Manchester City í miðjumoði í næstefstu deild Englands. Þá voru leikmenn eins og Niall Quinn, Uwe Rösler og Georgi Kinkladze á mála hjá félaginu.
Ungur snáði Gabriel Jesus er fæddur árið 1997. Tímabilið 1996-1997 var Manchester City í miðjumoði í næstefstu deild Englands. Þá voru leikmenn eins og Niall Quinn, Uwe Rösler og Georgi Kinkladze á mála hjá félaginu.

Palmeiras bankar á dyrnar

Stórlið Brasilíu eru með net útsendara um allt land og ekki leið á löngu þar til forsvarsmenn Palmeiras, eins sigursælasta knattspyrnuliðs Suður-Ameríku, fengu veður af hæfileikum hans. Þann 1. júlí 2013 skrifaði Jesus undir samning við félagið en hafa ber í huga að þá var hann nýorðinn 16 ára. Hann spilaði með unglingaliði félagsins fyrst um sinn og er óhætt að segja að hann hafi farið vel af stað með sínu nýja liði. Á sínu fyrsta tímabili skoraði hann 54 mörk í 48 leikjum fyrir unglingalið Palmeiras.

Keyptur á 3,8 milljarða

Forsvarsmenn Palmeiras vissu sem var að þeir voru með óslípaðan demant í höndunum og í ársbyrjun 2014 fékk Jesus samningstilboð sem hann gat ekki hafnað og skrifaði hann undir þriggja ára samning. Áfram hélt Jesus að raða inn mörkunum fyrir unglingaliðið og árið 2014 skoraði hann 37 mörk í 22 leikjum. Það ár fékk Jesus smjörþefinn af því sem koma skyldi og var hann í nokkur skipti í hópi aðalliðsins án þess að spila. Það var svo í mars 2015 að hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið. Jesus kom sér hægt og bítandi inn í liðið og fyrr en varði var hann orðinn lykilmaður í því. Tímabilið 2015 skoraði hann 4 mörk í 20 leikjum en 12 mörk í 27 leikjum árið 2016, áður en Manchester City tókst að klófesta hann í fyrrasumar. Þann 3. ágúst síðastliðinn var tilkynnt að Jesus myndi ganga í raðir City í byrjun janúar og var kaupverðið talið vera 27 milljónir punda, 3,8 milljarðar króna. Sú upphæð gæti þó hækkað umtalsvert að ýmsum skilyrðum uppfylltum. Gabriel kvaddi svo Palmeiras í desember en skömmu áður hafði liðið hampað meistaratitlinum í brasilísku deildinni.

Gabriel Jesus vann deildina með Palmeiras í desember áður en hann hélt til Manchester.
Meistarar Gabriel Jesus vann deildina með Palmeiras í desember áður en hann hélt til Manchester.

Umhyggju- og afskiptasöm móðir

Mail Online fjallaði ítarlega um Gabriel Jesus á dögunum og í þeirri umfjöllun kom margt athyglisvert fram um þennan 19 ára Brasilíumann. Talið er að Jesus sé með ríflega 100 þúsund pund á viku hjá City, 14 milljónir króna, en móðir hans, Vera Lucia de Jesus, er sögð geyma nær allt sem Jesus fær í laun. Þetta gerir hún að sögn til að halda syni sínum á jörðinni.

„Ég er góðhjörtuð en ég vil að fyrir mér sé borin virðing. Gabriel hefur alltaf verið hrekkjóttur en hann hefur aldrei sýnt mér vanvirðingu.“

Vera flutti til Englands til að vera syni sínum innan handar en með í för voru einnig tveir bræður Jesus og tveir vinir. Vera er einstæð móðir og hefur verið með fingurna í nær öllu sem sonur hennar gerir frá því hann var barn. Hún sér til þess að hann borði hollan og góðan mat, hvenær hann fer út með vinum sínum og jafnvel hvaða stúlkum hann fer á stefnumót með. „Kærustur þurfa að fara eftir mínum reglum og þær mega aðeins gista einstöku sinnum. Ég mun ekki taka því þegjandi ef sonur minn vanvirðir dætur annarra. Enginn af mínum sonum mun gera dóttur einhvers ólétta. Ég krefst virðingar af þeim því þannig ól ég þá upp,“ sagði hún í viðtali fyrir skemmstu. Bætti hún við að Jesus þyrfti að lúta höfði þegar hún talaði til hans. „Ég er góðhjörtuð en ég vil að fyrir mér sé borin virðing. Gabriel hefur alltaf verið hrekkjóttur en hann hefur aldrei sýnt mér vanvirðingu.“

Gabriel Jesus lítur upp til móður sinnar, Veru Lucia de Jesus, sem stendur þétt við bak sonar síns. Hún krefst þó mikils af honum og lætur hann heyra það ef hann gerir eitthvað sem er henni á móti skapi.
Með mömmu Gabriel Jesus lítur upp til móður sinnar, Veru Lucia de Jesus, sem stendur þétt við bak sonar síns. Hún krefst þó mikils af honum og lætur hann heyra það ef hann gerir eitthvað sem er henni á móti skapi.

Fær vasapening

Gabriel hefur vafalítið notið góðs af umhyggju móður sinnar þótt hún hafi stundum verið erfið viðureignar. Eitt sinn sagði Jesus að móðir hans væri erfiðari viðureignar en allir þeir varnarmenn sem hann hefur þurft að glíma við.

Caique, eldri bróðir Jesus, sagði í viðtali við Yahoo Brasil í desember síðastliðnum að Vera, móðir þeirra, héldi utan um allar launagreiðslur til handa Gabriel. Lætur hún honum í té vasapeninga svo hann geti átt fyrir helstu nauðsynjum. Í viðtalinu sagði Caique að Gabriel hefði aldrei verið mikið fyrir djammið, hann hefði ávallt haft meira gaman af því að vera með fjölskyldu sinni en úti á lífinu.

Vera og Jesus eru góðir vinir og virðing er orð sem á vel við um sambandið milli þeirra. Hún þreytist seint á að reyna að gefa syni sínum góð ráð og skiptir þá engu hvort þau eru tengd fótbolta eða einhverju öðru í lífi hans. Vera sagði fyrir skemmstu að hún talaði við hann fyrir hvern einasta leik og gæfi honum ráð. „Ef hann skorar er það frábært. En ef hann gerir það ekki segi ég honum að hann sé jafn velkominn heim og áður.“

Eftir 3-0 sigur Brasilíumanna á Ekvador í undankeppni HM síðastliðið haust, þar sem Gabriel skoraði tvö markanna, fékk hann smáskilaboð frá móður sinni eftir leikinn. „Gabriel, lærðu, passaðu rangstæðuna. Þú varst tvisvar rangstæður í leiknum.“
Gabriel segir að móðir hans hafi ekki einu sinni óskað honum til hamingju með mörkin tvö heldur gagnrýnt hann. Gabriel segir að þrátt fyrir þetta elski hann móður sína og finnist gott að hafa hana við bak sér. „Mamma er alltaf að nöldra í mér en það er það sem ég vil. Það hefur gert mig að þeim manni sem ég er í dag. Þó að ég sé bara 19 ára hef ég þurft að sýna ábyrgð lengi,“ sagði Gabriel í viðtali.

Philippe Coutinho, Neymar og Gabriel Jesus eru liðsfélagar í brasilíska landsliðinu.
Þrír góðir Philippe Coutinho, Neymar og Gabriel Jesus eru liðsfélagar í brasilíska landsliðinu.

Mynd: EPA

Ólst upp án föðurímyndar

Gabriel ólst upp án föðurímyndar og viðurkenndi hann fyrir skemmstu að stundum hafi hann litið vini sína sem áttu föður öfundaraugum. Það hafi þó ekki skipt hann miklu máli enda hafi móðir hans sýnt honum mikla umhyggju, eins og systkini hans. „Hún hefur alltaf stutt mig í öllu og þegar hún þurfti lagði hún hendur á mig. Fyrir mér var hún ávallt móðir mín og faðir.“

Gabriel er yngstur fjögurra systkina; Caique er 24 ára, Felipe, 26 ára og Emanuele er elst, 32 ára. Emanuele missti eiginmann sinn í mótorhjólaslysi fyrir nokkrum árum og flutti hún aftur heim ásamt börnum sínum tveimur; þau voru því sex í lítilli íbúð í Jardim Peri. Lucia kveðst hafa vaknað klukkan sex alla morgna til að koma Gabriel á fótboltaæfingu áður en hún hélt sjálf til vinnu við ræstingar í húsum hinna efnameiri í Sao Paulo.
Lucia segir að þótt hún hafi hvatt son sinn til dáða í fótboltanum hafi hún einnig lagt ríka áherslu á að hann sinnti náminu af kostgæfni. „Ég sagði honum alltaf að fólk eins og við þyrftum að leggja mikið á okkur til að verða eitthvað í lífinu.“

„Ég er ósköp venjulegur náungi sem hefur gaman af einföldum hlutum.“

Aldrei langt undan

Vera hætti að vinna eftir að Gabriel varð atvinnumaður þó að það hafi ekki verið ástæðan. Hún neyddist til að hætta vegna slits í öðrum handleggnum sem gerði að verkum að hún átti erfitt með að beita sér í vinnunni. Hún segir að strangt uppeldi hafi undirbúið Gabriel betur fyrir lífið í atvinnumennskunni. Hann sé agaðri og skipulagðari fyrir vikið.

„Allt það sem við leggjum á okkur skilar sér að lokum. Gabriel hefur aldrei verið upptekinn af veraldlegum hlutum, dýrum fötum eða dýrri merkjavöru. Hann sá hvað ég þurfti að gera til að eiga fyrir hlutunum. Hann kemur með góðan grunn út í lífið og það mun hjálpa honum á þeirri vegferð sem fram undan er.“

Sjálfur er Gabriel jarðbundinn eins og kom fram í viðtali við hann í Brasilíu fyrir skemmstu. „Ég kem úr fátæku samfélagi en ég reyni að koma í heimsókn þegar ég get. Ég held að það muni gera mér auðveldara að eiga við frægðina. Ég er ósköp venjulegur náungi sem hefur gaman af einföldum hlutum. En ef ég geng of langt veit ég að móðir mín er aldrei langt undan til að grípa inn í.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Nú líklegast að hann fari til Spánar

Nú líklegast að hann fari til Spánar
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Antony rýfur loks þögnina og útskýrir það sem hann gerði

Antony rýfur loks þögnina og útskýrir það sem hann gerði
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Selfoss lánar Gary Martin til Ólafsvíkur

Selfoss lánar Gary Martin til Ólafsvíkur
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Leikmaður í ensku úrvalsdeildinni skýtur fast á Antony

Leikmaður í ensku úrvalsdeildinni skýtur fast á Antony
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Hlakkar til að fylgjast með uppgangi John – „Það er ekkert skemmtilegra“

Hlakkar til að fylgjast með uppgangi John – „Það er ekkert skemmtilegra“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Katrín myndi vilja bjóða Jurgen Klopp á Bessastaði – „Hann er miklu meiri stemningsmaður en ykkar maður“

Katrín myndi vilja bjóða Jurgen Klopp á Bessastaði – „Hann er miklu meiri stemningsmaður en ykkar maður“