fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Sport

Ítarlegt einkaviðtal við Gylfa – Ég set alltaf pressu á sjálfan mig

Spenntur fyrir HM í Rússlandi – Hugsar ekki um íþróttamann ársins

Hörður Snævar Jónsson
Miðvikudaginn 13. desember 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gylfi Þór Sigurðsson er fremsti knattspyrnumaður sem Ísland á en hann hefur verið að finna sitt rétta form eftir að hann gekk í raðir Everton í sumar. Everton hefur haft þrjá knattspyrnustjóra á þessu tímabili sem hófst í ágúst, það segir allt um það ástand sem hefur verið hjá Everton. Miklar væntingar voru gerðar til Gylfa og félaga um að standa sig, liðið hefur verið að að rétta úr kútnum eftir mjög erfiða byrjun.

„Það er allt miklu léttara andlega, stemmingin í hópnum og á æfingasvæðinu eftir tvo sigurleiki í röð er allt öðruvísi núna. Þetta voru langar vikur og mánuðir þar sem við náðum ekki að tengja saman góð úrslit, þetta voru stór töp. Taflan lítur betur út núna og það er léttara yfir þessu. Deildin er rosalega jöfn, ef þú nærð nokkrum sigurleikjum í röð þá er staðan í deildinni fljót að breytast. Við vonumst til þess að desember verði góður og þá ætti útlitið að verða bjartara. Það er stórleikur gegn Liverpool í deildinni um næstu helgi sem gaman verður að taka þátt í,“ sagði Gylfi þegar fréttamaður 433.is ræddi við hann í vikunni.

Gylfi var keyptur til Everton fyrir 45 milljónir punda í sumar og varð hann þá dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins. Hann, ásamt mörgum öðrum, kom til félagsins og það hefur tekið tíma til að fá hlutina til að virka.

„Þetta hefur verið svekkjandi, það voru miklar breytingar í sumar og það hefur tekið tíma að láta hlutina ganga upp. Við eigum ekki að vera í þessari stöðu, við vorum ekki að spila nógu vel. Það komu leikir þar sem við vorum marki undir og fórum allt of mikið í að reyna að jafna strax, í stað þess að halda stöðunni. Þú færð alltaf færi til þess að skora en við vorum of ákafir að jafna bara strax í næstu sókn. Þá opnaðist allt hjá okkur og við fengum á okkur mörk. Það var mikil óánægja í kringum liðið, pirringur yfir því hvernig við vorum að spila. Við vissum að við ættum að vera að gera betur.“

Veit aldrei hvað gerist þegar nýr þjálfari kemur

Ronald Koeman var stjóri Everton í sumar þegar Gylfi var keyptur til félagsins, hann var rekinn úr starfi og við tók David Unsworth, en þá aðeins tímabundið. Unsworth var með liðið í meira en mánuð áður en Sam Allardyce, gamall refur úr boltanum, var ráðinn til starfa. „Maður veit aldrei hvað gerist þegar nýr þjálfari kemur inn en ég var lítið að pæla í þessu, þjálfarinn sem hafði keypt mig (Ronald Koeman) var látinn fara en ég er rólegur. Nú er Allardyce mættur til starfa, við erum í góðum höndum með hann. Hann hefur mikla reynslu og veit hvað þarf að gera, hann hugsar vel um leikmennina sína.“

,,Það er erfitt að segja hvort þessi langa óvissa með þjálfaramálin hafi haft áhrif. Það er auðvelda leiðin fyrir leikmenn að kenna því um, leikmenn eru ekki að spá of mikið í þetta. Flestir vilja bara mæta á æfingar og í leiki og gera vel og hitt á ekki að skipta máli. Það er þægilegra að vera með fastan mann í starfinu og að maður viti við hverju er að búast, úrslitin eru samt leikmönnum að kenna. Við getum ekki falið okkur á bak við svona hluti.“

,,Allardyce hefur ekki verið lengi með okkur, fyrstu dagarnir með honum hafa verið fínir. Hann er með allt á hreinu varðandi tölfræði og slíka hluti, hann hefur verið lengi í þessu starfi. Reynslan er til staðar og hann virðist vera góður. Það hafa verið fínar æfingar hingað til, skilaboðin til leikmanna eru á hreinu. Hann er ekki að flækja hlutina. Allardyce hugsar vel um sína leikmenn og er mjög almennilegur í þeim samtölum sem ég hef átt við hann.“

Gott að setja pressu á sig

Gylfi gerir miklar kröfur til sjálfs sín og vill skora og leggja upp í flestum leikjum. Eftir erfiða byrjun hefur Gylfi skorað eða lagt upp í síðustu fjórum deildarleikjum Everton. „Það var kominn tími á mig að komast á smá skrið í mörkum og stoðsendingum og það er gott að það hefur gerst. Liðinu er byrjað að ganga vel og þá fer leikmönnum að ganga betur. Við erum betri varnarlega þessa stundina og þetta helst allt í hendur. Ég hef fengið veigameiri hlut í sókninni í síðustu leikjum. Ég var talsvert á kantinum og sinnti einnig mikilli varnarvinnu, en nú er ég mættur aðeins framar á völlinn. Við erum að skapa okkur fleiri færi og erum að skora meira. Ég set alltaf pressu á sjálfan mig um að skila mínu og það er gott og heldur manni á tánum. Ég er með mín markmið og ætla mér að ná þeim, ég reyni að halda áfram að hjálpa liðinu.“

Gekk ekki mikið upp

Gylfi var lengi að fá félagaskipti sín til Everton í gegn og æfði því mikið einn í sumar. „Það var kannski ekki það besta í stöðunni að vera einn að æfa stóran hluta í sumar, vera að hlaupa sjálfur og æfa með unglingaliðinu hjá Swansea þegar aðalliðið var í æfingaferð. Maður bjóst ekki við því að þessi félagaskipti myndu taka allan þennan tíma og það tók mig smá tíma að komast í leikform hjá Everton. Ég horfi samt ekki á það, liðið var að spila illa og persónulega gekk ekki margt upp. Við vorum slappir sóknarlega.“

Erfitt en skemmtilegt á HM

Dregið var í riðla fyrir HM í Rússlandi á dögunum, þar er Ísland í riðli með Argentínu, Króatíu og Nígeríu þegar Ísland fer á þetta stærsta svið í fyrsta sinn. „Maður áttaði sig á því þarna að við værum komnir á HM, þetta verður gríðarlega erfiður riðill. Þetta eru tvö frábær lið; Argentína og Króatía. Nígeríu þekkjum við minna en þeir eru með sterkt lið þegar maður skoðar hópinn. Ef við myndum gera einhverja hluti í þessum riðli þá væri það mjög sætt, Argentína er eitt af bestu liðum heims. Það er ekki bara Messi, það eru svo margir góðir leikmenn þarna. Argentína hefur marga af bestu leikmönnum í heimi. Þetta verður mjög erfitt en ótrúlega skemmtilegt.“

Missir ekki svefn yfir íþróttamanni ársins

Íþróttamaður ársins verður kjörinn á næstu vikum en Gylfi er einn af þeim líklegustu til að vinna verðlaunin í ár, hann átti stóran þátt í því að Ísland fer á HM, bjargaði Swansea frá falli og var keyptur fyrir 45 milljónir punda; metfé fyrir íslenskan íþróttamann. „Ég hef þannig séð ekkert spáð í þetta, ég er ekki að spá mikið í svona hluti. Það er lítið sem maður getur gert,“ sagði Gylfi sem kvaðst ekki missa svefn yfir þessu. „Ekki enn þá allavega, ég hef sofið ágætlega,“ sagði Gylfi léttur í spjalli við DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Garnacho bað Ten Hag afsökunar – „Hann verður að læra mikið og hratt“

Garnacho bað Ten Hag afsökunar – „Hann verður að læra mikið og hratt“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Haaland tæpur fyrir bikarleikinn mikilvæga á morgun

Haaland tæpur fyrir bikarleikinn mikilvæga á morgun
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Lögreglan hefur heimsótt heimili hans fjórum sinnum á þremur dögum – „Velkomin til Norður-Kóreu“

Lögreglan hefur heimsótt heimili hans fjórum sinnum á þremur dögum – „Velkomin til Norður-Kóreu“
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Aðstoðarmaður Klopp með spennandi tilboð á borði sínu

Aðstoðarmaður Klopp með spennandi tilboð á borði sínu
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum
Hartman í Val
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Stuðningsmenn Liverpool súpa hveljur – Af hverju er húsið hans komið á sölu?

Stuðningsmenn Liverpool súpa hveljur – Af hverju er húsið hans komið á sölu?
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Ríkharð segir þetta ástæðu þess að KSÍ hefur ekki ráðið framkvæmarstjóra – „Hún er byrjuð í annarri vinnu og þiggur laun þar“

Ríkharð segir þetta ástæðu þess að KSÍ hefur ekki ráðið framkvæmarstjóra – „Hún er byrjuð í annarri vinnu og þiggur laun þar“
433Sport
Í gær

Stuðningsmenn Liverpool brjálaðir yfir þessari ákvörðun Klopp í kvöld

Stuðningsmenn Liverpool brjálaðir yfir þessari ákvörðun Klopp í kvöld
433Sport
Í gær

Eftir vonbrigðin í gær telja æðstu menn hjá Arsenal að þetta vanti

Eftir vonbrigðin í gær telja æðstu menn hjá Arsenal að þetta vanti