Er Illugi skyggn? „Ég gæti líka sagt ykkur hvernig leikirnir enda“

Illugi Jökulsson, fyrrverandi ritstjóri, er annað hvort skyggn eða ótrúlega sannspár því hann skrifaði stöðufærslu í morgun þar sem hann spáði hárrétt hverjir myndu skipa riðil ásamt Íslandi á HM í fótbolta næsta sumar.

„Þið getið hætt að bíða eftir þessum þarna drætti í Rússlandi. Ísland fær Argentínu, Króatíu og Nígeríu. Ég gæti líka sagt ykkur hvernig leikirnir enda, en það væri kannski ekki sanngjarnt,“ skrifaði Illugi klukkan hálf níu í morgun.

Í athugasemd fullyrðir Illugi að þessi spádómur sé byggður á vísindum. „Ég vil taka það MJÖG skýrt fram að spádómur minn um Argentínu, Króatíu og Nígeríu er EKKI - endurtek ALLS EKKI - byggður á þessari vél, sem veit ekkert í hausinn á sér. Minn spádómur er byggður á vísindum og mun rætast 100 prósent,“ skrifar Illugi fyrir þremur tímum.

Nú eftir að spá Illuga rætist spyr einn vinur hans, Magnús Geir Guðmundsson, augljósa framhaldsspurningu: „Nú vil ég vinsamlegast fá úrslitin líka félagi, en við vinnum auðvitað riðilinn...“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.