Ætlar sér stóra hluti á stóra sviðinu

Sturla Snær Snorrason, 23 ára gamall skíðakappi, stefnir hátt í greininni. Í febrúar á næsta ári setur Sturla stefnuna á Vetrarólympíuleikana. Hann hefur síðustu ár skipað sér í hóp fremstu skíðakappa landsins. Sturla sýndi snemma afburða hæfileika á skíðum. Reyndar sýndi hann mikla getu í nánast hvaða íþrótt sem hann prófaði hvort sem um var að ræða golf, mótokross eða íshokkí. Skíðin áttu hug hans allan þó svo að hann hafi æft íshokkí alla tíð samhliða því. Sturla vann margar keppnir á sínum yngri árum og hreppti meðal annars nokkra Íslandsmeistaratitla.

Býr á Ítalíu í vetur

Síðustu tvö ár hefur hann flakkað um heiminn og tekið þátt í fjölmörgum mótum með frábærum árangri. Sturla hefur unnið sig upp um mörg hundruð sæti á heimslistanum síðustu tvö tímabil. Atvinnumennska á skíðum felur í sér mikið af ferðalögum, því eins og landinn veit, þá getur verið erfitt að treysta á veður og vinda hér á Íslandi. Sturla hefur því lengstum búið í Noregi yfir vetrartímann en mun búa á Ítalíu þennan veturinn. Þar mun hann æfa með 13 öðrum skíðagörpum sem eru héðan og þaðan úr heiminum í liði sem heitir WRA (World racing academy) undir leiðsögn frábærra þjálfara.

Sturla Snær mun í vetur fara á stærstu mótin í greininni á borð við heimsleikana og Ólympíuleikana. Kostnaðurinn við þessa þátttöku Sturlu er afar mikill og leitar hann nú leiða til að fjármagna þessar keppnir og þau ferðalög sem fram undan eru. Þeir sem vilja hjálpa Sturlu Snæ er bent á styrktarreikning hans. Reikningsnúmer: 537-26-42369 / Kennitala: 010394-2369

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.