Sport

„Er ekki að fara breyta sjálfri mér eða keppnisskapinu“

Valdís Þóra er einn fremsti kylfingur þjóðarinnar – Hefur tryggt sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári

Kolbrún Bergþórsdóttir
Mánudaginn 27. nóvember 2017 20:00

Valdís Þóra Jónsdóttir er einn fremsti kylfingur þjóðarinnar. Þessi tæplega 28 ára Skagastúlka hefur rokið upp heimslistann í golfi, eða um 350 sæti á árinu. Á dögunum tryggði hún sér þriðja sætið á golfmótinu Sanyo Ladies Open á Hainan-eyju í Kína og skrifaði þar með nýjan kafla í golfsögu Íslands. Aldrei áður hefur íslenskur kylfingur hreppt verðlaunasæti á annarri af stærstu mótaröðum heims, þeirri evrópsku og bandarísku. Sigurinn var ekki síst mikilvægur fyrir þær sakir að með árangrinum tryggði Valdís Þóra sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni að ári.

Valdís Þóra verður 28 ára í byrjun desember. Hún æfði og skaraði fram úr í mörgum íþróttagreinum en golfið komst fljótt í fyrsta sæti. „Ég æfði fótbolta í um 12 ár, en var líka í sundi og karate. Ég komst í landsliðsúrtak í fótboltanum, en golfið var númer eitt frá fermingu. Ég keppti á mínu fyrsta golfmóti átta ára á sumarnámskeiði, en byrjaði að æfa af einhverri alvöru 16 ára. Ég var líka í fótbolta í menntaskóla, en ákvað að leggja meiri vinnu í golfið, því ég vildi verða betri. Ég sakna alltaf fótboltans að vissu leyti, ekki síst félagslega hlutans, en þegar ég er 16 ára áttaði ég mig á því að ég ætti bara ágætis möguleika á því að geta eitthvað í golfi og ákvað því að klára allt nám áður en ég gæfi þessu alvöru séns,“ segir Valdís Þóra sem fór í nám til Texas á golfstyrk.

„Ég var í smábænum San Marcos, sem er milli Austin og San Antonio og lærði innanhússhönnun. Mér bauðst að fara til Suður-Karólínu og Hawaii, en leist best á Texas. Þar leist mér best á skólann, umhverfið og stelpurnar í liðinu. Ég fann líka þessa heimatilfinningu sem er svo mikilvæg.“

Nú er Texas-menningin ansi ólík Íslandi, hvernig gekk að aðlagast ?

„Texas er mjög áhugavert ríki að búa í,“ segir Valdís. „Það má segja að þetta sé bara nákvæmlega eins og maður sér í bíómyndum og sjónvarpinu. Þar eru allir í kúrekastígvélum og með kúrekahatta og jafnvel byssur í beltinu! En þetta var mjög skemmtilegt. Þetta var vissulega strembið, það voru stífar æfingar á hverjum degi, auk skólans, þannig að það gafst ekki eins mikill tími fyrir félagslífið eins og kannski hjá öðrum nemendum. En það kenndi mér heilmikið að standa á eigin fótum fjarri fjölskyldunni á þessum aldri.“

Munar um stuðninginn

Valdís Þóra ferðast vítt og breytt um heiminn á keppnisferðalögum sínum. Hún er nýkomin frá Kína og heldur svo áleiðis til Dúbaí í næsta mánuði. Slík ferðalög hljóta að taka á, andlega, líkamlega og ekki síst fjárhagslega?

„Jú, þetta tekur mikið á andlega, bara að aðlagast tímamismuninum er alltaf visst ferli. Ég reyni nú samt að lifa líka og sjá heiminn, skoða borgir og staði sem tengjast golfíþróttinni ekki neitt. En svo koma upp mót þar sem maður er bara þreyttur, eða staðir sem maður hefur komið á áður og þá slakar maður á. En þó svo ég sé ein á þessum ferðalögum, ég get ómögulega verið að draga þjálfarana mína frá sínum fjölskyldum, finn ég samt gífurlegan stuðning frá fjölskyldu minni og jafnvel fjölskyldum þjálfaranna minna þegar ég þarf mest á þeim að halda. Ég er með frábært fólk í kringum mig sem vill mér vel, bæði innan sem utan vallar. Það er ótrúlega gott að finna þann stuðning. Hvað fjárhagslegu hliðina snertir, þá er ég svo heppin að njóta stuðnings Forskots, sem er styrktarsjóður íslenskra kylfinga, samansettur af nokkrum burðugum fyrirtækjum. Sjóðurinn hefur hjálpað okkur ótrúlega mikið við að stunda okkar sport og virðist vera að virka vel.“

Pirringur og keppnisskap

Blaðamaður getur ekki annað en spurt út í keppnisskap Valdísar og nokkuð frægt viðtal við hana á RÚV, andartökum eftir að hún tapaði fyrir Ólafíu Þórunni á Íslandsmótinu í höggleik á Akureyri í fyrra. Valdís Þóra var gagnrýnd innan golfheimsins fyrir óíþróttamannslega framkomu í viðtalinu, (hún sagðist meðal annars vera „brjáluð“) en hún sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þar sem hún afsakaði framkomu sína.

„Ég hafði bara ekki fengið tíma til að jafna mig, ég var nýbúin að skila inn skorkortinu og varla búin að átta mig á að ein besta spilamennska á Íslandsmóti hafði ekki dugað til. Fólk var að óska mér til hamingju með annað sætið, sem er alltaf leiðinlegt að heyra. Þótt ég hafi verið ánægð með mína spilamennsku er alltaf leiðinlegt að tapa. En það voru líka aðrir hlutir í gangi sem fólk veit ekki um og ég get ekki tjáð mig um hér. Þannig að þetta kom bara upp á leiðinlegum tíma.“

Dróstu einhvern lærdóm af þessu máli öllu ?

„Jú jú, ég lærði heilmikið af þessu. Maður fékk bara í andlitið hvernig íslenskt samfélag getur verið ef maður er ekki alltaf í Pollýönnuleiknum. Ég er þannig að ég kem hreint og beint fram, hvernig sem mér líður og ég sýndi bara þær tilfinningar sem ég hafði og það vildi til að það var í beinni útsendingu fyrir framan alþjóð. Maður verður að lifa með því, en ég er ekki að fara breyta sjálfri mér eða keppnisskapi mínu, eða fara í Pollýönnuleik vegna þess einhverjir einstaklingar úti í bæ voru ekki ánægðir með að ég var ekki brosandi þegar ég var nýbúin að tapa,“ segir Valdís Þóra.

Jón og séra Jón

Að mati blaðamanns voru viðbrögðin við viðtalinu fárviðri í fingurbjörg, samanborið við viðtöl eftir kappleiki karla í boltaíþróttum til dæmis. En fer þetta eftir íþrótt, eða kyni?

„Ef þú tekur viðtal við fótboltamann sem er brjálaður eftir leik, þá er það allt í lagi, en ef einhver stelpa í golfi segist vera brjáluð, þá er það allt í einu heimsendir. En golf er auðvitað heiðursmannaíþrótt. Inni á vellinum haga ég mér auðvitað samkvæmt því, er sanngjörn og hrósa andstæðingum mínum þegar þeir gera vel. Ég tek ekki pirring minn út á öðru fólki, heldur við sjálfa mig. En ég kem einfaldlega til dyra eins og ég er klædd, ef ég verð fúl þegar ég tapa, þá verð ég bara fúl og ætla ekkert að skammast mín fyrir það. Það þýðir einfaldlega að ég vilji gera betur. Það eru til stelpur með meira skap en ég,“ segir Valdís Þóra að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433Sport
Fyrir 2 dögum

Einn vinsælasti tónlistarmaður landsins spyr: Er bein tenging á milli þess að elska fótbolta og hata konur?

Einn vinsælasti tónlistarmaður landsins spyr: Er bein tenging á milli þess að elska fótbolta og hata konur?
433Sport
Fyrir 2 dögum

Einelti í garð Harðar fékk að ganga í mörg ár: Sonur Bjössa Bollu og Höddi Skinka – ,,Yrði kæft í fæðingu í dag“

Einelti í garð Harðar fékk að ganga í mörg ár: Sonur Bjössa Bollu og Höddi Skinka – ,,Yrði kæft í fæðingu í dag“
433Sport
Fyrir 3 dögum

Eiður Smári um umdeilt val á Kolbeini: Hann þarf að komast úr þessum djúpa dal – ,,Kolbeinn er einsdæmi“

Eiður Smári um umdeilt val á Kolbeini: Hann þarf að komast úr þessum djúpa dal – ,,Kolbeinn er einsdæmi“
433Sport
Fyrir 3 dögum

90 mínútur með Herði Magnússyni: Hlustaðu á þáttinn hérna – Markanef, Eiður Smári og Pepsimörkin

90 mínútur með Herði Magnússyni: Hlustaðu á þáttinn hérna – Markanef, Eiður Smári og Pepsimörkin
433Sport
Fyrir 3 dögum

Theodór Elmar fékk ekki borgað og er samningslaus – ,,Mjög sár að þetta hafi endað svona“

Theodór Elmar fékk ekki borgað og er samningslaus – ,,Mjög sár að þetta hafi endað svona“
433Sport
Fyrir 3 dögum

Hraunaði reglulega yfir Neville á æfingasvæðinu – ,,Hann kom hræðilega fram við mig“

Hraunaði reglulega yfir Neville á æfingasvæðinu – ,,Hann kom hræðilega fram við mig“