Hann verður að líkindum sá elsti til að spila á HM frá upphafi

Ef fer sem horfir verður Essam sá elsti til að spila í lokakeppni HM.
Öflugur Ef fer sem horfir verður Essam sá elsti til að spila í lokakeppni HM.

Ýmislegt bendir til þess að Essam El-Hadary verði elsti leikmaðurinn til að spila í lokakeppni heimsmeistaramótsins í fótbolta. Essam þessi er markvörður egypska landsliðsins og mjög leikreyndur.

Essam á að baki 156 landsleiki fyrir Egyptaland en hans fyrsti landseikur kom árið 1996. Nú, rúmum tuttugu árum síðar, er hann enn að og fátt bendir til þess að hanskarnir fari upp í hillu í bráð – að minnsta kosti ekki fyrr en eftir HM.

Essam er fæddur þann 15. janúar árið 1973 og hann verður því orðinn 45 ára þegar flautað verður til leiks á HM næsta sumar. Egyptaland komst síðast á HM árið 1990 en á dögunum tryggðu þeir sér þátttökurétt í lokakeppninni.

Essam varð fyrr á þessu ári elsti leikmaðurinn til að spila í Afríkukeppninni, en þá var hann nýorðinn 44 ára þegar hann byrjaði fyrir Egypta. Það sem af er þessu ári hefur hann spilað átta landsleiki og er enn markvörður númer eitt.

„Ég hef gert nánast allt á ferlinum; unnið 37 titla og átt frábær augnablik. Það eina sem vantar er leikur í lokakeppni HM,“ sagði Essam í viðtali áður en Egyptaland gulltryggði sæti sitt í októbermánuði.

Svo lengi sem Essam helst heill og heldur sér í formi mun hann standa í markinu þegar Egyptaland mætir til leiks næsta sumar.

Núverandi elsti leikmaður lokakeppni HM er Faryd Mondragon, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Kólumbíu, sem var 43 ára og þriggja daga þegar hann stóð í markinu í 4-1 sigurleik Kólumbíu gegn Japan á HM 2014. Þar áður var það Kamerúninn Roger Milla sem átti metið, hann var rétt rúmlega 42 ára þegar hann spilaði í 6-1 tapi Kamerún gegn Rússlandi á HM í Bandaríkjunum árið 1994.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.