Íslendingar skrifa nýtt víkingaævintýri: Þýska pressan heldur áfram umfjöllun sinni

Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson

„Þetta lið vekur hreina og tæra hrifningu,“ segir þýska blaðið Bild um íslenska landsliðið í knattspyrnu en miðillinn heldur áfram umfjöllun sinni um landsliðið okkar. Í nýrri grein á vef Bild segir meðal annars:

„Í fyrsta skipti í sögu sinni fer Ísland á heimsmeistaramót í knattspyrnu. Eyríkið verður með á HM í Rússlandi á næsta ári!“

Þá segir í greininni að Tyrkland og Króatía hafi fyrirfram verið álitin sigurstranglegustu lið riðilsins og Ísland hafi verið talið eiga litla möguleika. En bæði Króatía og Tyrkland hafi tapað fyrir Íslandi og það sé magnað að Íslendingar hafi unnið riðilinn og fari beint á HM án umspils. Þetta sé ekki langt frá árangri þýska landsliðsins sem einnig vann sinn riðil. Íslenska liðið sé að vísu ekki jafnsterkt og það þýska en engu að síður:

„Þetta lið kann svo sannarlega ýmislegt fyrir sér.“

Bild nefnir tvær meginástæður fyrir frábærum árangri íslenska liðsins: Baráttugleði liðsins og frábærir stuðningsmenn.

Þá segir í greininni að Gylfi Þór Sigurðsson sé yfirburðamaður í liðinu en Bild minnist þess að Gylfi hafi einu sinni spilað með Hoffenheim.

Síðan er rifjuð upp frábær frammistaða Íslendinga á EM í fyrra og spurt hvort liðið geti endurtekið það ævintýri á HM í Rússlandi. Greinarhöfundur er þeirra skoðunar að það geti vel gerst en skrifar síðan:

„Eitt er á hreinu: Hinir líflegu stuðningsmenn, með íslenska fánann málaðan framan í andlitið, víkingahjálma á höfðinu og sitt stórkostlega Víkingaklapp „Húh!“ munu auðga heimsmeistarakeppnina í Rússlandi mikið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.