fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Sport

„Enski boltinn hentar mér miklu betur“

Jón Daði Böðvarsson hefur slegið í gegn hjá Úlfunum – Síðustu fjögur ár hafa verið eins og rússíbani –

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 11. september 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þegar ég var lítill sá ég ekki alveg fyrir mér að ná svona langt. Ég er afskaplega stoltur og verð klökkur þegar ég lít til baka,“ segir landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson í viðtali við DV. Selfyssingurinn var á sínum stað í fremstu víglínu Íslands í fyrsta leik undankeppni HM í knattspyrnu, sem fram fór í Úkraínu á mánudag.

Síðustu ár í lífi Jóns Daða hafa verið lyginni líkust. Hann var svo að segja óþekkt stærð, í september 2014, þegar hann kom óvænt inn í byrjunarliðið í fyrsta leik Íslands í síðustu undankeppni. Á þeim tíma lék hann með Viking í Noregi, og hafði gert í um tvö ár. Undankeppnin átti svo sannarlega eftir að verða eftirminnileg. Hann kom Íslendingum á bragðið með fyrsta markinu í ótrúlegum 3-0 sigri á Tyrkjum á Laugardalsvelli.

„Ég er afskaplega stoltur og verð klökkur þegar ég lít til baka.“

Fastamaður í landsliðinu

Allar götur síðan hefur hann átt fast sæti í byrjunarliðinu. Hann skoraði mark og lagði upp annað á EM í sumar – þar sem hann gegndi lykilhlutverki á fyrsta stórmóti landsliðsins. Hann hefur með baráttugleði sinni á vellinum, samhliða auðmjúku fasi sínu og lítillæti, unnið hug og hjörtu þjóðarinnar.

Jón Daði spilaði með Selfossi, uppeldisfélaginu, til ársins 2012 þegar hann var keyptur til Viking. Þar lék hann þrjú keppnistímabil og var keyptur til Kaiserslautern í Þýskalandi í fyrra, þar sem hann reyndar staldraði stutt við. Það var ekki síst vegna frammistöðu hans með landsliðinu að hann var keyptur til Englands, til Úlfanna, í sumar.

Selfyssingurinn hefur byrjað frábærlega hjá Úlfunum. Hann hefur skorað tvö mörk í fyrstu fjórum leikjunum og er þegar í miklum metum á meðal stuðningsmanna. Hann hefur verið valinn maður leiksins oftar en einu sinni og hefur látið til sín taka á vellinum. „Ég hefði ekki getað beðið um betri byrjun,“ segir hann um þessar fyrstu vikur. Wolverhampton Wanderers sé stór klúbbur þar sem væntingarnar séu miklar.

Hann hafði búist við að það tæki lengri tíma að aðlagast. „Hér eru auðvitað nýir samherjar og þjálfarar. Maður þarf að taka við miklum upplýsingum á skömmum tíma, auk þess að koma sér fyrir í nýrri borg.“

Hann ber liðsfélögunum vel söguna. „Strákarnir eru kurteisir og blíðir. Þeir hafa tekið mér opnum örmum og hjálpa mér að komast inn í hlutina.“ Hann segir að móttökurnar sem hann fékk hafi gert það að verkum að hann fann ekki fyrir óöryggi inni á vellinum í fyrsta leik. Enda hafi honum tekist að sýna á sér góðar hliðar. „Í fyrsta leiknum gekk allt upp og ég skoraði mark. Það jók sjálfstraustið. Vonandi heldur þetta áfram.“

„Ég er frá Selfossi“

Jón Daði segir að þeir sem hann hafi rætt við, áður en hann ákvað að skrifa undir hjá Úlfunum, hafi sagt að borgin, Wolverhampton, væri lítt spennandi. Hann er hins vegar afar ánægður með aðstæður. „Fólk setti upp skrítinn svip þegar ég spurði hvernig væri að búa hérna, eins og það væri hundleiðinlegt,“ segir hann glettinn. Hann segist ekki þurfa mikið. Bærinn sé rólegur en þar sé allt til alls. „Ég er líka frá Selfossi,“ segir hann og hlær: „Ég þarf ekki mikið.“ Í Wolverhampton búa um 245 þúsund manns. Hann bætir við að Birmingham – næststærsta borg Englands – sé í 20 mínútna akstursfjarlægð. Þangað sé gaman að koma.

Jón Daði er hér í búningi Úlfanna. Hann hefur farið afar vel af stað.
Í nýju félagi Jón Daði er hér í búningi Úlfanna. Hann hefur farið afar vel af stað.

Mynd: Úr einkasafni

Hann er líka ánægður með hvernig borgarbúar hafa tekið honum. „Stuðningsmennirnir eru virkilega flottir. Ég hef svo sem ekki séð hvernig þeir eru þegar illa gengur. En þegar vel gengur eru þeir æðislegir.“ Hann segir nokkuð algengt að hann sé stöðvaður í bænum og áhangendur biðji um að fá að taka af sér ljósmynd með framherjanum. „Þetta er mikill fótboltabær.“ Hann segir að Englendingar noti Twitter mikið og þar fái hann mjög skemmtilegar athugasemdir, þó að inni á milli komi eitthvað neikvætt. „Þetta getur verið svart og hvítt en stuðningsmennirnir eru mjög góðir og veita manni þvílíkan stuðning.“

Stefna á að fara upp

Spurður um muninn á Kaiserslautern, sem er í næstefstu deild Þýskalands, og Wolves, sem er í næst efstu deild Englands, segir hann að Kaiserslautern sé líklega stærra félag. Hann verði þó ekki var við að önnur deildin sé sterkari en hin. Liðin í deildunum leiki þó mjög ólíka knattspyrnu. Í Þýskalandi sé meira lagt upp úr að halda boltanum innan liðsins á meðan Englendingar séu mikið fyrir að sækja hratt og láta finna fyrir sér. „Enski boltinn hentar mér miklu betur.“

Jón Daði segir að Wolves, eða Wolverhampton Wanderers, eins og félagið heitir, hafi á að skipa mjög stórum leikmannahópi. Breiddin þurfi að vera mikil enda sé leikið afar þétt. Yfirleitt eru tveir leikir í viku. Hann veit ekki hvort liðið kemst upp um deild. „Stefnan er sett á að fara upp. Við erum ekki líklegastir á pappírunum en við getum alveg komið á óvart,“ segir hann. Liðið hefur byrjað ágætlega og er í níunda sæti með átta stig eftir fimm leiki.

Fjögur ár í rússíbana

Jón Daði er á stað sem flesta unga knattspyrnumenn dreymir um að vera á – í enska boltanum. Það var þó ekki alltaf planið. „Þegar ég var lítill hugsaði ég aldrei út í að fara í atvinnumennsku. Ég er ekki af afreksíþróttamönnum kominn en fjölskyldan hefur stutt dyggilega við bakið á mér. Þegar ég varð 16 ára rann það upp fyrir mér að þetta gæti orðið möguleiki. Ég spurði mig: „Af hverju ekki?“ Þá fór ég að leggja harðar að mér og með tímanum að líta á þetta sem vinnu frekar en áhugamál.“

Hann segir undanfarin fjögur ár hafa verið eins og rússíbanareið. „Það gekk stundum illa en oftar vel. Ég hugsa að ástæðan fyrir því að ég er kominn hingað sé sú að ég hélt alltaf áfram – var ekkert að væla þegar illa gekk.“ Hann segist alltaf hafa lært af þeim mistökum sem hann hafi gert. Sú staðreynd hafi gert hann að betri knattspyrnumanni.

Endalausar kröfur

Jón Daði segir, aðspurður hvort atvinnumennskan sé eins og hann hafi gert sér í hugarlund, að það geti verið erfitt vera atvinnumaður í íþróttum. „Það eru endalausar kröfur gerðar til manns. Væntingarnar eru miklar og maður er stöðugt undir pressu. Það er það erfiðasta við þetta – og getur tekið mjög á mann.“

Hann segir þess vegna mikilvægt að geta kúplað sig frá þegar vinnudeginum lýkur. Þar, segir hann, kemur kærasta hans, María Ósk Skúladóttir, til skjalanna. „Hún er alltaf heima þegar ég kem heim og hjálpar mér mjög mikið. Við erum búin að vera saman í fjögur ár og það er æðislegt að hafa hana sér við hlið í gegnum þetta. Hún er mjög dugleg og metnaðargjörn – er að læra mannfræði. Knattspyrnumenn eru mikið á ferðalögum og það er heldur ekki auðvelt að vera alltaf að flytja. María hefur staðið þétt við bakið á mér. Hún er bæði þolinmóð og góð við að ná manni niður eftir langan dag,“ segir hann.

„Hér er ein af mér þegar ég var lítill,“ segir Jón Daði um þessa mynd, þar sem hann situr í fangi föður síns, Böðvars Bjarka Þorsteinssonar. „Hann hefur alltaf verið mér klettur – gefið mér góð ráð – og hjálpað mér í gegnum súrt og sætt.“
Feðgar „Hér er ein af mér þegar ég var lítill,“ segir Jón Daði um þessa mynd, þar sem hann situr í fangi föður síns, Böðvars Bjarka Þorsteinssonar. „Hann hefur alltaf verið mér klettur – gefið mér góð ráð – og hjálpað mér í gegnum súrt og sætt.“

Mynd: Úr einkasafni

Spilar á gítar og les Stephen King

Hann segir mikilvægt að hafa önnur áhugamál. „Ég hef gaman af tónlist og kvikmyndum og elska að spila á gítar. Ég gríp oft í hann þegar ég er heima og þarf að hugsa um eitthvað annað en fótboltann. Það er æðislegt eftir langan dag að taka gítarinn og læra nýtt lag. En ég hef líka gaman af því að lesa,“ segir Jón Daði og nefnir hryllingssagnahöfundinn Stephen King sem sinn uppáhaldshöfund. Hann les einnig annan vísindaskáldskap og ævisögur, þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára gamall.

„Get orðið mjög reiður“
Jón Daði ber það ekki með sér en viðurkennir að hann sé skapmaður á velli – kannski væri nær að kalla hann keppnismann – og taki því nærri sér þegar illa gengur. „Ég get orðið mjög reiður og fúll. Sérstaklega ef ég hef verið lélegur í leik eða á æfingu. En Maríu tekst alltaf einhvern veginn að ná mér niður.“

Þau skötuhjú eru barnlaus en hann vonast til þess að það breytist þegar fram líða stundir. „Það eru engin börn á leiðinni eins og er en við erum ekkert að flýta okkur. Það er nægur tími til stefnu. Ég vona að í framtíðinni munum við eignast börn og stofna til fjölskyldu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Besta deild kvenna fer af stað með látum á sunnudag

Besta deild kvenna fer af stað með látum á sunnudag
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Leikmaður United ákærður fyrir tvö brot – Mætti fyrir dómara í dag en neitar sök

Leikmaður United ákærður fyrir tvö brot – Mætti fyrir dómara í dag en neitar sök
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Pétur Theódór snýr aftur heim til Gróttu eftir erfið meiðsli

Pétur Theódór snýr aftur heim til Gróttu eftir erfið meiðsli
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Arteta sagður skoða þessa tvo framherja fyrir sumarið

Arteta sagður skoða þessa tvo framherja fyrir sumarið
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Hetja Bayern sökuð um að gera grín að haltrandi leikmanni Arsenal

Hetja Bayern sökuð um að gera grín að haltrandi leikmanni Arsenal
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Ríkharð segir þetta ástæðu þess að KSÍ hefur ekki ráðið framkvæmarstjóra – „Hún er byrjuð í annarri vinnu og þiggur laun þar“

Ríkharð segir þetta ástæðu þess að KSÍ hefur ekki ráðið framkvæmarstjóra – „Hún er byrjuð í annarri vinnu og þiggur laun þar“
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Leikmaður Arsenal talar ekkert við Arteta

Leikmaður Arsenal talar ekkert við Arteta
433Sport
Í gær

Norski áhrifavaldurinn nú komin með athyglisverðan titil – Sjáðu nýjustu myndir hennar

Norski áhrifavaldurinn nú komin með athyglisverðan titil – Sjáðu nýjustu myndir hennar