fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Sport

Paul Pogba verður fyrsti 100 milljóna punda maðurinn: Þetta eru dýrustu fótboltamenn sögunnar

Tiltölulega óþekktur Ítali varð fyrsti milljón punda maðurinn – Papin fyrstur til að kosta meira en 10 milljónir punda

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 29. júlí 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flest bendir til þess að franski landsliðsmaðurinn Paul Pogba verði dýrasti knattspyrnumaður sögunnar. Talið er að aðeins sé tímaspursmál hvenær Manchester United tilkynnir kaupin á Pogba frá Juventus en talið er að kaupverðið muni nema um hundrað milljónum punda, um 20 milljörðum króna.

Mail Online tók af þessu tilefni saman stærstu félagaskipti fótboltasögunnar frá árinu 1975 þegar fyrsti leikmaðurinn sem kostaði meira en eina milljón punda var keyptur. Óhætt er að segja að síðan þá hafi verð á góðum fótboltamönnum hækkað mikið.


Giuseppe Savoldi

Kaupverð: 1,2 milljónir punda
Keyptur til: Napoli frá Bologna
Ár: 1975

Árið 1975 festi Napoli kaup á tiltölulega lítt þekktum Ítala, Giuseppe Savoldi, sem þó var talinn býsna efnilegur. Hann hafði leikið fjóra landsleiki fyrir Ítalíu og varð fyrsti leikmaðurinn sem kostaði meira en milljón pund. Kaupin reyndust ágæt því Savoldi skoraði 55 mörk í 118 leikjum fyrir Napoli og varð bikarmeistari með liðinu á sinni fyrstu leiktíð.


Paolo Rossi

Kaupverð: 1,75 milljónir punda
Keyptur til: Vicenca frá Juventus
Ár: 1976

Rossi er þekkt nafn í ítölskum fótbolta og af mörgum talinn í hópi bestu leikmanna í sögu Ítalíu. Rossi var tiltölulega óskrifað blað þegar Vicenca greiddi metfé fyrir leikmanninn. Hann raðaði inn mörkunum fyrir Vicenca en gekk aftur í raðir Juventus árið 1981. Rossi varð heimsmeistari með Ítölum árið 1982.


Diego Maradona

Kaupverð: 3 milljónir punda
Keyptur til: Barcelona frá Boca Juniors
Ár: 1982

Einn allra besti knattspyrnumaður sögunnar varð einnig dýrasti leikmaður sögunnar árið 1982 þegar Barcelona keypti hann frá Boca Juniors í Argentínu.


Diego Maradona

Kaupverð: 5 milljónir punda
Keyptur til: Napoli frá Barcelona
Ár: 1984

Maradona varð aftur dýrasti leikmaður sögunnar þegar Napoli keypti hann eftir stutta dvöl hjá Barcelona. Hann er besti leikmaðurinn í sögu Napoli og vann fjölmarga titla með liðinu á sjö ára tíma sínum með liðinu.


Ruud Gullit

Kaupverð: 6 milljónir punda
Keyptur til: Milan frá PSV Eindhoven
Ár:1987

Ruud Gullit var einn allra besti fótboltamaður sinnar kynslóðar og AC Milan þurfti að punga út hárri fjárhæð til að klófesta hann. Það gerðist árið 1987 og varð Gullit dýrasti knattspyrnumaður sögunnar. Kaupin reyndust góð enda vann Gullit fjölmarga titla með ítalska stórliðinu.


Mynd: EPA

Roberto Baggio

Kaupverð: 8 milljónir punda
Keyptur til: Juventus frá Fiorentina
Ár: 1990

Roberto Baggio þekkja allir knattspyrnuunnendur enda stórbrotinn leikmaður þegar hann var upp á sitt besta. Baggio lék í fimm ár með Juventus og var algjör lykilmaður í sterku liði Juventus. Hann vann ítölsku deildina einu sinni á tíma sínum og ítalska bikarinn einu sinni. Árið 1993 var hann valinn besti knattspyrnumaður heims.


Jean-Pierre Papin

Kaupverð: 10 milljónir punda
Keyptur til: Milan frá Marseilee
Ár: 1992

Frakkinn varð fyrsti 10 milljóna punda maðurinn árið 1992 þegar hann gekk í raðir Milan. Papin hafði skorað ógrynni marka fyrir Marseille þegar Milan bankaði á dyrnar. Hann lék í aðeins tvö ár með Milan áður en hann fór til Bayern Munchen. Hann lék 54 landsleiki á sínum tíma og skoraði 30 mörk.


Gianluca Vialli

Kaupverð: 12 milljónir punda
Keyptur til: Juventus frá Sampdoria
Ár: 1992

Þessi magnaði leikmaður hafði átt góðu gengi að fagna með Sampdoria áður en hann samdi við Juventus. Þar hélt hann uppteknum hætti og vann fimm titla með liðinu á fjórum árum, þar á meðal Meistaradeildina.


Gianluigi Lentini

Kaupverð: 13 milljónir punda
Keyptur til: Milan frá Torino
Ár:1992

Lentini er líklega lítt þekktasta nafnið á þessum lista enda varð ferill þessa efnilega leikmanns ekki eins blómlegur og vonast hafði verið til. Þessi leikni og fljóti vængmaður lék vel á sínu fyrsta tímabili með Milan. Áður en annað tímabil hans með Milan hófst lenti hann í alvarlegu umferðarslysi. Þó hann hafi leikið fótbolta áfram var Lentini aðeins skugginn af sjálfum sér og hann náði sér aldrei á strik. DV hefur áður fjallað um harmsögu Lentini.


Ronaldo

Kaupverð: 13,2 milljónir punda
Keyptur til: Barcelona frá PSV Eindhoven
Ár: 1996

Brasilíski Ronaldo er einn besti fótboltamaður sögunnar. Brasilíska undrabarnið kostaði talsverða fjármuni þegar Barcelona festi kaup á honum árið 1996. Ronaldo raðaði inn mörkum fyrir spænska stórveldið og skoraði 47 mörk í 49 leikjum á sínu fyrsta og eina tímabili með Barcelona.


Alan Shearer

Kaupverð: 15 milljónir punda
Keyptur til: Newcastle frá Blackburn
Ár: 1996

Shearer er sem kunnugt er markahæsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Newcastle greiddi metfé fyrir þennan stórbrotna markaskorara á sínum tíma. Hann er lifandi goðsögn meðal stuðningsmanna Newcastle enda skoraði kappinn 206 mörk í 405 leikjum á 10 árum hjá Newcastle.


Ronaldo

Kaupverð: 19,5 milljónir punda
Keyptur til: Inter frá Barcelona
Ár: 1997

Ronaldo varð aftur dýrasti knattspyrnumaður heims þegar Inter keypti hann frá Barcelona árið 1997. Þar hélt kappinn uppteknum hætti við markaskorun og skoraði 34 mörk á sinni fyrstu leiktíð á Ítalíu. Hann meiddist illa á hné árið 1999 og aftur árið 2000 sem setti stórt strik í reikninginn hjá þessum frábæra fótboltamanni.


Denilson

Kaupverð: 21,5 milljónir punda
Keyptur til: Real Betis frá Sao Paulo
Ár:1998

Brasilíska tæknitröllið Denilson stóð aldrei undir væntingum hjá Real Betis. Enginn efaðist um hæfileika þessa brasilíska vængmanns og til marks um þá trú sem forráðamenn Betis höfðu á kappanum má geta þess að hann fékk 11 ára samning þegar hann gekk í raðir félagsins.


Mynd: Mynd: Getty

Christian Vieri

Kaupverð:32,1 milljón punda
Keyptur til: Inter frá Lazio
Ár:1999

Ítalski markahrókurinn varð langdýrasti leikmaður heims árið 1999 þegar Inter borgaði Lazio rúmar 32 milljónir punda fyrir hann. Áður hafði Vieri skorað haug af mörkum fyrir Juventus og Atletico Madrid auk Lazio. Hann naut mikillar velgengni hjá Inter og skoraði yfir 100 mörk fyrir félagið.


Hernan Crespo

Kaupverð: 35,5 milljónir punda
Keyptur til: Lazio frá Parma
Ár:2000

Argentínski markahrókurinn Hernan Crespo hafði átt góðu gengi að fagna með gullaldarliði Parma þegar Lazio ákvað að festa kaup á honum. Hann lék með Lazio í tvö tímabil þar sem hann skoraði 48 mörk í 73 leikjum. Eftir það lék hann með liðum á borð við Inter, Chelsea og Milan.


Luis Figo

Kaupverð: 37 milljónir punda
Keyptur til: Real Madrid frá Barcelona
Ár: 2000

Portúgalski snillingurinn Luis Figo vakti mikla reiði stuðningsmanna Barcelona þegar hann ákvað að ganga í raðir erkifjendanna í Real Madrid. Barcelona fékk væna summu fyrir leikmanninn sem á þessum tíma var einn sá allra besti í heimi. Hann átti ágætu gengi að fagna hjá Madridarliðinu og vann spænsku deildina tvisvar ásamt því að vinna Meistaradeildina einu sinni. Figo var valinn besti knattspyrnumaður heims árið 2000.


Zinedine Zidane

Kaupverð: 46,6 milljónir punda
Keyptur til: Real Madrid frá Juventus
Ár: 2001

Real Madrid borgaði aftur metfé fyrir leikmann, ári eftir komu Luis Figo til félagsins. Árið 2001 greiddi Real Madrid metfé fyrir franska snillinginn Zinedine Zidane og hann reyndist vera hverrar krónu virði. Zidane lék í fimm ár með Real áður en hann lagði skóna á hilluna árið 2006. Zidane er í dag stjóri Real Madrid eins og flestir vita.


Mynd: Reuters

Kaka

Kaupverð: 56 milljónir punda
Keyptur til: Real Madrid frá AC Milan
Ár:2009

Zinedine Zidane var dýrasti knattspyrnumaður heims lengi vel og það var ekki fyrr en árið 2009 að metið var slegið. Það gerði Real Madrid þegar Brassinn Kaka var keyptur frá AC Milan. Kaka var einn besti fótboltamaður heims á þeim tíma en þótti ekki beint standa undir væntingum í Madrid.


Mynd: Reuters

Cristiano Ronaldo

Kaupverð:80 milljónir punda
Keyptur til: Real Madrid frá Manchester United
Ár: 2009

Real Madrid tók góða ákvörðun þegar félagið festi kaup á portúgalska snillingnum Cristiano Ronaldo frá Manchester United. Margir settu spurningamerki við verðmiðann á sínum tíma enda varð Ronaldo langdýrasti knattspyrnumaður sögunnar. Fjárfestingin reyndist vera góð fyrir Real Madrid enda hefur Ronaldo fyrir löngu skipað sér sess meðal allra, allra bestu knattspyrnumanna sögunnar. Hann hefur skorað 260 mörk í 236 leikjum og náð þeim undraverða árangri að skora yfir 50 mörk sex tímabil í röð. Og það sem meira er, Ronaldo virðist eiga mörg góð ár eftir.


Mynd: Reuters

Gareth Bale

Kaupverð: 86 milljónir punda
Keyptur til: Real Madrid frá Tottenham
Ár: 2013

Bale hafði farið hamförum á Englandi áður en Real Madrid gerði ómótstæðilegt tilboð og klófesti þennan frábæra íþróttamann. Bale varð um leið dýrasti leikmaður sögunnar. Hann hefur þótt spila ágætlega fyrir Real Madrid og skorað 58 mörk í 123 leikjum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Besta deild kvenna fer af stað með látum á sunnudag

Besta deild kvenna fer af stað með látum á sunnudag
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar

Þetta stendur á veggnum þegar leikmenn City fara á æfingar
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Leikmaður United ákærður fyrir tvö brot – Mætti fyrir dómara í dag en neitar sök

Leikmaður United ákærður fyrir tvö brot – Mætti fyrir dómara í dag en neitar sök
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Pétur Theódór snýr aftur heim til Gróttu eftir erfið meiðsli

Pétur Theódór snýr aftur heim til Gróttu eftir erfið meiðsli
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Arteta sagður skoða þessa tvo framherja fyrir sumarið

Arteta sagður skoða þessa tvo framherja fyrir sumarið
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Hetja Bayern sökuð um að gera grín að haltrandi leikmanni Arsenal

Hetja Bayern sökuð um að gera grín að haltrandi leikmanni Arsenal
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Ríkharð segir þetta ástæðu þess að KSÍ hefur ekki ráðið framkvæmarstjóra – „Hún er byrjuð í annarri vinnu og þiggur laun þar“

Ríkharð segir þetta ástæðu þess að KSÍ hefur ekki ráðið framkvæmarstjóra – „Hún er byrjuð í annarri vinnu og þiggur laun þar“
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Leikmaður Arsenal talar ekkert við Arteta

Leikmaður Arsenal talar ekkert við Arteta
433Sport
Í gær

Norski áhrifavaldurinn nú komin með athyglisverðan titil – Sjáðu nýjustu myndir hennar

Norski áhrifavaldurinn nú komin með athyglisverðan titil – Sjáðu nýjustu myndir hennar