fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Sport

Svona varð Katrín Tanja hraustasta kona heims: Lærði af ósigrinum og lagði allt í sölurnar

Katrín Tanja er hraustasta kona heims eftir sigur á Crossfit-leikunum í Los Angeles í gærkvöldi

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 25. júlí 2016 11:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Tanja Davíðsdóttir tryggði sér titilinn hraustasta kona heims á Crossfit-leikunum í Los Angeles í gærkvöldi. Þetta er annað árið í röð sem Katrín vinnur þennan eftirsótta titil, en hún fær 34 milljónir króna í verðlaunafé.

Katrín, sem er 23 ára, hefur lagt gríðarlega mikið á sig til að ná þessum magnaða árangri. DV.is rifjar hér viðtal sem DV tók við Katrínu í nóvember í fyrra en þar kom margt athyglisvert fram. Hún æfir í sex klukkustundir á dag og er mikil keppnismanneskja að eigin sögn. Hún hóf feril sinn í fimleikum en fann sig best í Crossfit. Og árangurinn hefur svo sannarlega ekki látið á sér standa.

Lífið í föstum skorðum

Í viðtalinu í nóvember voru liðnir fjórir mánuðir síðan hún vann fyrri heimsmeistaratitilinn. „Ég finn að þetta krefst meiri athygli, ég þarf að sinna fleiri hlutum, svara tölvupósti og mæta hér og þar, en mitt daglega líf er samt alveg eins: Ég vakna, fer á æfingu, tek mér hádegishlé og fer aftur á æfingu,“ sagði hún um það hvort lífið hefði breyst mikið eftir keppnina í fyrra.

Eftir æfingarnar sagði Katrín að hún þyrfti að huga vel að hvíld og endurheimt, til dæmis með sjúkraþjálfun, gufuböðum, nægum svefni og góðri næringu. „Mér finnst þess vegna enn jafn gaman að vakna á morgnana og drífa mig á æfingu. Ég er alltaf jafn spennt að æfa og velti því stöðugt fyrir mér hvernig ég geti bætt mig,“ sagði hún. „Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri. Ef ég mætti gera hvað sem er þá væri það nákvæmlega þetta: að mæta á æfingu,“ sagði hún í viðtalinu.

Eftir vonbrigðin 2014 ákvað Katrín að leggja harðar að sér. Árangurinn lét ekki á sér standa á leikunum í fyrra. Hún endurtók svo leikinn um helgina.
Lærði af reynslunni Eftir vonbrigðin 2014 ákvað Katrín að leggja harðar að sér. Árangurinn lét ekki á sér standa á leikunum í fyrra. Hún endurtók svo leikinn um helgina.

Mynd: ©2015 Reebok. Used with permission from Reebok.

Mikil keppnismanneskja

Til að ná góðum árangri í íþróttum þarf keppnisskap og það er eitthvað sem Katrín hefur alltaf haft. „Já, ég er mikil keppnismanneskja. Þegar ég var krakki skipti engu máli hvað ég var að gera, ég var stöðugt í keppni. Ég keppti um það hver væri fljótastur út að leika. Ég var alltaf að búa til keppnisbraut og hoppa yfir hitt og þetta. Mér fannst það skemmtilegast. Ég setti klukku á gólfið, stóð í handstöðu og mældi hvað ég gat verið lengi. Ég var alltaf að keppa við sjálfa mig,“ sagði hún.

Vildi hætta í fimleikum

Crossfit sem keppnisgrein er tiltölulega ný af nálinni, að minnsta kosti í samanburði við aðrar íþróttagreinar. Katrín hóf feril sinn í íþróttum hjá Fimleikafélaginu Björk í Hafnarfirði þegar hún var sex ára. Þaðan lá leiðin í Ármann í Reykjavík samhliða framhaldsskólanámi. Katrínu fannst fimleikarnir skemmtilegir en hún sagði í viðtalinu að þeir hefðu ekki endilega hentað sér og hún þurft að hafa talsvert fyrir hlutunum.

Katrín segist hafa reynt að nýta sér veikleika sína í fimleikunum og gert þá að styrkleikum. Henni fannst til dæmis alltaf skemmtilegast á þrekæfingunum, en fimleikar og þrekæfingar eru einmitt náskyldar crossfit. Greinarnar eru einnig náskyldar frjálsum íþróttum. Grunnurinn í fimleikunum kom því að góðum notum þegar hún stóð á tímamótum, vildi hætta í fimleikum en finna sér aðra íþrótt en gekk illa að finna hvað ætti að taka við.

„Ég einbeitti mér 110 prósent á öllum æfingum og þetta gekk – ég komst á heimsmeistaramótið.“

„Ég hafði æft í fjóra klukkutíma á dag, sex daga vikunnar frá því að ég var svona tíu ára og kunni ekkert annað. Ég varð einfaldlega að finna mér eitthvað annað að gera,“ sagði hún en hún byrjaði í frjálsum, en fann sig ekki vel þar heldur.
„Ég var aldrei best í fimleikunum eða frjálsum. Ég er ekki náttúrulega góð í fimleikum og þurfti að hafa mikið fyrir þeim. Ég lenti alltaf á höfðinu að minnsta kosti fimm sinnum áður en ég náði tökum á því sem ég var að gera. En þegar ég horfi til baka þá kenndi það mér að vinna vel, að hafa fyrir hlutunum. Það kenndi mér góða vinnusiði sem ég bý að í dag. Ég vil vakna á morgnana með markmið í huganum. Það finnst mér skemmtilegt og ég vil vinna markvisst að hlutunum. Það sama var í frjálsum, ég fann ekki neina eina grein sem hentaði mér og ég vildi einbeita mér að. Ég var frekar týnd. Ég fór aðeins aftur í fimleika, var í ræktinni og flæktist svona á milli,“ sagði hún og bætti við að hún hafi verið verið frekar eirðarlaus, sem hentaði henni illa.

Annie Mist fyrirmyndin

Þetta var sumarið 2011, árið sem Annie Mist Þórisdóttir steig fram á sjónarsviðið og vann heimsleikana í crossfit í fyrsta sinn. Um ferðalag hennar til Los Angeles voru gerðir þættir sem Katrín Tanja fylgdist með. Sigur hennar varð til þess að hálfgert crossfit-æði hófst á Íslandi, og raunar víðar um heiminn, sem ekki sér enn fyrir endann á.
Sameiginleg vinkona þeirra benti Katrínu á að Annie, sem í grunninn er frjálsíþróttakona, væri að æfa bæði í Boot Camp og CrossFit og sagði Katrínu að hún ætti ef til vill að prófa. „Henni fannst við vera svipaðar og sagði: „Mér finnst að þú eigir að prófa þetta“,“ sagði hún. Hvatning frá stærstu stuðningsmönnum Katrínar, móður hennar og ömmu, varð svo til þess að hún dreif sig á æfingu í báðum greinum. „Það var eiginlega ekki aftur snúið. Mér fannst þetta strax mjög skemmtilegt og krefjandi,“ sagði hún.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Valdi Crossfit og lagði sig alla fram

Það varð svo Crossfit sem heillaði hana betur en Boot Camp og Katrín setti sér strax markmið um að komast á Evrópumeistaramótið og svo á heimsmeistaramótið. „Ég sagði ekki mörgum það, en ég lagði mig alla fram og æfði mikið og vel. Ég einbeitti mér 110 prósent á öllum æfingum og þetta gekk – ég komst á heimsmeistaramótið,“ sagði hún en bætti við að eftir á hyggja hafi hún haft lítið erindi á svo stórt mót. Hún var ekki búin að venjast því álagi sem þarf til að ná mjög langt og var ekki nógu vel undirbúin varðandi mataræði og hvíld sem til þarf. Þá var hún ekki með sinn eigin þjálfara en var þó með gott fólk í kringum sig sem gat leiðbeint henni.

Allt breyttist með bandarískum þjálfara

Árið 2013 komst hún aftur á heimsleikana en aftur var hún ekki nógu vel undirbúin. Eftir leikana kynntist hún bandarískum crossfit-þjálfara, Ben Bergeron, sem starfar í Boston og segir Katrín það að kynnast honum hafi verið það besta sem gat gerst. Ben féllst á að taka Katrínu að sér, leiðbeina henni og vinna að því að bæta veikleika hennar. Katrín segist hafa verið heppin að hafa kynnst Ben – og sérstaklega að hann hafi viljað taka að sér þjálfun hennar enda þjálfi hann fáa kúnna. Þá segir Katrín að Ben einbeiti sér ekki bara að líkamlegu hliðinni heldur sé andlega hliðin ekki síður mikilvæg.

Hellti sér í bókalestur

Árið 2014 reyndi Katrín Tanja aftur við heimsleikana. Hún var þá byrjuð að æfa með Bergeron, en á Evrópumeistaramótinu fóru leikar þannig að Katrín komst ekki áfram og fékk ekki þátttökurétt á heimsleikunum. „Ég var í mjög góðu formi líkamlega og hefði undir öllum kringumstæðum átt að komast á þá. Ég hafði farið tvisvar áður en þarna var ég í mínu besta formi. En hugarfarið fylgdi ekki með og þá gekk þetta ekki upp,“ sagði Katrín í viðtalinu. Katrín sat eftir og komst ekki á leikana. Vonbrigðin leyndu sér ekki og hafði hún lítinn áhuga á að æfa. Þetta sumar las hún þó nokkuð af bókum, meðal annars ævisögur íþróttamanna sem lent höfðu í erfiðleikum.

„Ég las til dæmis ævisögu hlauparans Michaels Johnson, sem átti að vinna stórsigur á Ólympíuleikunum árið 1992, en fékk matareitrun og náði ekki markmiðum sínum. En í staðinn fyrir að hætta þá æfði hann mjög vel og tók leikana 1996 með trompi,“ sagði Katrín, en Johnson er eitt stærsta nafn frjálsra íþrótta fyrr og síðar. Katrín áttaði sig á því að leiðin á toppinn sé sjaldnast bein og bakslag sé eðlilegur fylgifiskur þess að ná árangri. Hún ákvað að læra af reynslunni og lagði harðar að sér.

Lagði hart að sér

„Á hverri einustu æfingu hafði ég þetta hugfast: „Ég ætla ekki að sætta mig við ekki neitt, ég ætla að komast á leikana. Ég ætla ekki bara að komast á leikana, heldur ætla ég að vera besta útgáfan af sjálfri mér.“ Ég lagði mjög hart að mér og þetta ár las ég mikið í íþróttasálfræði. Mér tókst að tvinna huga og líkama vel saman,“ sagði hún. Á heimsleikunum í fyrra small allt saman; hugarfarið, líkaminn og úthaldið voru í takt. Katrín sagðist ekki hafa sett sér markmið um að vinna leikana í fyrra heldur þess í stað sett sér smærri markmið.

„Mér finnst það svo fallegt þegar ég fæ skilaboð til dæmis frá öðrum stelpum sem segja að ég sé fyrirmyndin þeirra.“

„Ég var að horfa á að ég yrði í topp tíu, en að mitt gull væri ef ég gæti verið á meðal efstu fimm,“ segir hún. „Ég hugsaði ekki beint um sætin, heldur það að eftir helgina hefði ég enga eftirsjá. Ég vildi vera viss um að ég hefði gefið allt sem ég gat í hvern einasta dag, hverja einustu æfingu og vita að ég hefði alltaf gert mitt besta. Ég hefði ekki geta lyft meiru eða hlaupið hraðar í neinni grein,“ sagði hún. Á leikunum í fyrra hafði hún einnig stærra stuðningsnet; þjálfara og umboðsmann sem hugsuðu um allt sem Katrín þurfti utan keppninnar sjálfrar. Þeir stýrðu því hvenær hún svaf, drakk og borðaði.

Ætlar að halda áfram

Í viðtalinu í nóvember sagði Katrín að það hefði tekið hana smá tíma að aðlagast nýjum titli. Hún kvaðst þó hafa tekið þessu öllu með ró en skrýtnast þyki henni þegar hún hittir fólk, erlendis, sem spyr hana hvort hún sé Katrín Davíðsdóttir.

Hún sagðist líka finna til sín sem fyrirmynd. „Mér finnst það svo fallegt þegar ég fæ skilaboð til dæmis frá öðrum stelpum sem segja að ég sé fyrirmyndin þeirra. Mér finnst fyrir vikið að ég eigi að lifa því líferni sem ég vil að aðrir geti tekið sér til fyrirmyndar,“ sagði hún. Hún sagði að einn daginn fari hún í háskólanám, en á meðan tækifærin láta á sér kræla í crossfit-heiminum ætlar hún að njóta þess og grípa þau sem flest. „Ég vil vera afreksíþróttamaður og vil fá að leyfa mér að gera það,“ sagði Katrín sem virðist hvergi nærri hætt – enda hraustasta kona heims tvö ár í röð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Garnacho bað Ten Hag afsökunar – „Hann verður að læra mikið og hratt“

Garnacho bað Ten Hag afsökunar – „Hann verður að læra mikið og hratt“
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Haaland tæpur fyrir bikarleikinn mikilvæga á morgun

Haaland tæpur fyrir bikarleikinn mikilvæga á morgun
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Hartman í Val

Hartman í Val
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Svona hafa síðustu leikir Stjörnunnar og Vals farið – Hvað gerist í kvöld?

Svona hafa síðustu leikir Stjörnunnar og Vals farið – Hvað gerist í kvöld?
433Sport
Í gær

Stuðningsmenn Liverpool súpa hveljur – Af hverju er húsið hans komið á sölu?

Stuðningsmenn Liverpool súpa hveljur – Af hverju er húsið hans komið á sölu?
433Sport
Í gær

Ríkharð segir þetta ástæðu þess að KSÍ hefur ekki ráðið framkvæmarstjóra – „Hún er byrjuð í annarri vinnu og þiggur laun þar“

Ríkharð segir þetta ástæðu þess að KSÍ hefur ekki ráðið framkvæmarstjóra – „Hún er byrjuð í annarri vinnu og þiggur laun þar“