fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Sport

Stjörnuframherjar Atletico Madrid

Maður kemur alltaf í manns stað á Vicente Calderón – Þó að stjörnurnar fari koma nýjar sem skína skærar

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 20. apríl 2016 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Atletico Madrid hefur á undanförnum árum stimplað sig rækilega inn sem eitt af bestu félagsliðum Evrópu undir stjórn hins argentínska Diego Simone. Liðið sló Barcelona út úr Meistaradeild Evrópu í síðustu viku, lið sem margir töluðu um sem eitt besta félagslið sögunnar. Í síðari leik liðanna skoraði franski framherjinn Antoine Griezmann bæði mörk Madrídinga í merkilegum 2-0 sigri á stórveldinu frá Katalóníu. Griezmann hefur þegar þetta er skrifað skorað 29 mörk í öllum keppnum fyrir Atletico og bætist hann við langan lista af frábærum framherjum sem spænska félagið virðist alltaf ná að grafa upp og láta blómstra í fremstu víglínu á Vicente Calderón.

Margoft á umliðnum árum hefur Atletico mátt sjá á bak stjörnuframherjum sínum, sem raðað hafa inn mörkum fyrir félagið í lengri eða skemmri tíma. En alltaf virðast forráðamenn félagsins eiga svar þegar stórliðin mæta með ferðatöskur fullar fjár til að kaupa þeirra bestu leikmenn. Eftir tvær frábærar leiktíðir er ljóst að mörg fjársterk félög munu reyna að nappa Griezmann í sumar. En eins og sagan sýnir, þá þarf það ekki endilega að vera mikið áfall fyrir Atletico.

Hér eru nokkur fræg dæmi um frábæra framherja sem Atletico hefur átt og misst, en alltaf náð að fylla í skarðið með einum eða öðrum hætti á umliðnum árum.


Christian Vieri

Markahrókurinn ítalski var óstöðvandi á eina tímabili sínu með Atletico.
Christian Vieri Markahrókurinn ítalski var óstöðvandi á eina tímabili sínu með Atletico.

Mynd: EPA

Tímabil: 1997/1998
Leikir: 32
Mörk: 29

Ítalski markahrókurinn hafði vakið athygli á sínu fyrsta og eina tímabili með Juventus þegar Atletico keypti hann 24 ára gamlan á 10 milljónir evra. Vieri sló samstundis í gegn, raðaði inn mörkum og varð markahæsti leikmaður deildarinnar. Vieri stoppaði þó stutt við, eins og vanalega. Eftir frábæra leiktíð og frammistöðu á HM 1998 var hann seldur til Lazio á 25 milljónir evra. Átti ári síðar eftir að verða dýrasti leikmaður sögunnar þegar Inter borgaði 49 milljónir evra fyrir hann.


Jimmy Floyd Hasselbaink

Raðaði inn mörkum en það dugði ekki til. Atletico féll og hann fór til Chelsea.
Jimmy Floyd Hasselbaink Raðaði inn mörkum en það dugði ekki til. Atletico féll og hann fór til Chelsea.

Mynd: EPA

Tímabil: 1999/2000
Leikir: 43
Mörk: 33

Hollendingurinn öflugi hafði átt tvö góð tímabil með Leeds á Englandi þegar hann var keyptur til Atletico sumarið 1999 á 10 milljónir punda. Þrátt fyrir frábæra frammistöðu og markafjölda þá tókst Hasselbaink ekki að forða Atletico frá falli það tímabilið. Fallklásúla í samningi hans gerði að verkum að Chelsea vann kapphlaupið um hann, greiddi 15 milljónir punda sem þá var hæsta verð sem Chelsea hafði greitt fyrir leikmann. Þar átti hann eftir að slá í gegn og mynda m.a. öflugt framherjapar með Eiði Smára Guðjohnsen.


Fernando Torres

Var orðinn fyrirliði Atletico 19 ára gamall.
Fernando Torres Var orðinn fyrirliði Atletico 19 ára gamall.

Mynd: EPA

Tímabil: 2001–2007
Leikir: 244
Mörk: 91

Brotthvarf Hasselbaink var ekki eins mikið áfall og margir héldu því í unglingaliðinu átti Atletico einn Fernando Torres sem miklar vonir voru bundnar við. Þegar hann var aðeins 19 ára var hann orðinn fyrirliði Atletico og varð á sex ára tímabili að goðsögn á Vicente Calderón. Var síðan keyptur til Liverpool á um 25 milljónir punda árið 2007 þar sem hann sló rækilega í gegn. Torres er nú aftur kominn til Atletico á láni frá AC Milan og hefur skorað nokkur mikilvæg mörk.


Sergio Agüero

Undrabarnið sem rættist úr. Agüero var nýorðinn 18 ára þegar hann gekk til liðs við Atletico og sló í gegn.
Sergio Agüero Undrabarnið sem rættist úr. Agüero var nýorðinn 18 ára þegar hann gekk til liðs við Atletico og sló í gegn.

Mynd: EPA

Tímabil: 2006–2011
Leikir: 234
Mörk: 101

Atletico sló félagsmet sitt þegar það greiddi Independiente í Argentínu 20 milljónir evra fyrir framherja sem nýorðinn var 18 og talinn var eiga möguleika á að verða næsti Diego Maradona. Sergio Agüero mátti strax lifa við mikla pressu sem verðmiðanum fylgdi og sýndi með sjö mörkum á sínu fyrsta tímabili að hann var enginn venjulegur 18 ára knattspyrnumaður. Á næstu fjórum tímabilum eftir það raðaði hann inn mörkum og myndaði sérlega eitrað framherjapar með næsta stjörnuframherja á listanum.


Diego Forlán

Úrúgvæski framherjinn átti frábær ár hjá Atletico og samstarf hans og Agüero var gjöfult.
Diego Forlán Úrúgvæski framherjinn átti frábær ár hjá Atletico og samstarf hans og Agüero var gjöfult.

Mynd: EPA

Tímabil: 2007–2011
Leikir: 196
Mörk: 96

Forlán hafði slegið í gegn á þremur tímabilum sínum með Villareal á Spáni eftir misheppnaða dvöl hjá Manchester United. Var hann orðinn einn öflugasti framherji Evrópu þegar Atletico keypti hann sumarið 2007 á 21 milljón evra til að fylla skarð Torres og stilla upp með undrabarninu Agüero. Samstarf þeirra var gjöfult og mynduðu þeir eitt besta framherjapar Evrópu næstu tímabilin á eftir. Félagið vann meðal annars UEFA-bikarinn 2010. Þó að Torres væri að brillera á Englandi á sama tíma, voru fáir sem söknuðu hans með Forlán og Agüero í stuði.


Radamel Falcao

Skoraði að vild hjá Atletico.
Radamel Falcao Skoraði að vild hjá Atletico.

Mynd: EPA

Tímabil: 2011–2013
Leikir: 91
Mörk 70

Atletico beið risavaxið verkefni sumarið 2011 að fylla skörð Agüero, sem seldur hafði verið til Manchester City á 45 milljónir evra, og Forlán, sem fór til Inter Milan. Það virtist nær ómögulegt. En í Portúgal hafði Radamel nokkur Falcao verið að raða inn mörkum fyrir Porto í tvö ár og var orðinn afar eftirsóttur. Stærstu félög Evrópu þorðu þó einhverra hluta vegna ekki að taka sénsinn og verðmiðinn fældi aðra frá. Atletico greiddi Porto 40 milljónir evra fyrir Falcao sem sló umsvifalaust í gegn. Mörkunum rigndi, Atletico vann spænska bikarinn, UEFA-bikarinn og UEFA-Ofurbikarinn með Falcao í fremstu víglínu. Hið nýríka franska félag Monaco greiddi síðan 60 milljónir evra fyrir hann sumarið 2013 og Atletico vantaði enn á ný stjörnuframherja.


Diego Costa

Eftir nokkurra ára eyðimerkurgöngu blómstraði Costa hjá Atletico, loks þegar hann fékk traustið og tækifærið.
Diego Costa Eftir nokkurra ára eyðimerkurgöngu blómstraði Costa hjá Atletico, loks þegar hann fékk traustið og tækifærið.

Mynd: EPA

Tímabil: 2010/11 og 2012-2014
Leikir: 135
Mörk: 65

Atletico hafði keypt Costa fyrst árið 2007 frá Braga en lánað hann út um allar trissur árin á eftir. Eftir að hafa selt hann til Valladolid 2009 var hann keyptur aftur sem varaskeifa fyrir Agüero og Forlán tímabilið 2010/2011. En þegar þeir voru horfnir og Falcao orðinn aðalmaðurinn náði Costa sér á strik og skoraði 20 mörk í öllum keppnum tímabilið 2012/2013. En það var ekki fyrr en á því næsta, þegar Falcao var horfinn á braut, sem Costa blómstraði. Skoraði 36 mörk í öllum keppnum og var lykilmaður í liðinu sem óvænt vann spænsku deildina tímabilið 2013/2014 og komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Þá um sumarið var hann seldur til Chelsea á um 32 milljónir punda og hélt uppteknum hætti þar.


Antoine Griezmann

Frakkinn frábæri hefur slegið í gegn hjá Atletico Madrid, eins og svo margir framherjar á undan honum.
Antoine Griezmann Frakkinn frábæri hefur slegið í gegn hjá Atletico Madrid, eins og svo margir framherjar á undan honum.

Mynd: EPA

Tímabil: 2014–enn hjá Atletico
Leikir: 98
Mörk: 54

Enn á ný hafði Atletico misst sinn helsta markaskorara þegar félagið ákvað, sumarið 2014, að veðja á 23 ára Frakka sem slegið hafði í gegn hjá Real Sociadad tímabilið áður. Atletico greiddi hátt í 30 milljónir evra fyrir Griezmann sem sló samstundis í gegn og skoraði 25 mörk á sínu fyrsta tímabili. Hann er enn að og hefur leikið betur en nokkru sinni fyrr á yfirstandandi tímabili. Hefur skorað 29 mörk í 45 leikjum í öllum keppnum. Hvort Atletico takist að halda honum frá auðjöfrum knattspyrnuheimsins á eftir að koma í ljós, en eitt er víst; þeir eru sjálfsagt með eftirmann hans í handraðanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Úr dönsku úrvalsdeildinni í Vestra

Úr dönsku úrvalsdeildinni í Vestra
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Erling Haaland áfram meiddur

Erling Haaland áfram meiddur
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Væntanlegur stjóri Liverpool er harðhaus – Gerði Simeone trylltan en óttaðist ekkert

Væntanlegur stjóri Liverpool er harðhaus – Gerði Simeone trylltan en óttaðist ekkert
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Eyðir hverri einustu mynd eftir að hafa verið fitusmánuð fyrir framan alþjóð – Unnusti hennar er heimsfrægur

Eyðir hverri einustu mynd eftir að hafa verið fitusmánuð fyrir framan alþjóð – Unnusti hennar er heimsfrægur
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Setja vermiða á stjórann sem Liverpool vill fá – Mjög vegleg upphæð

Setja vermiða á stjórann sem Liverpool vill fá – Mjög vegleg upphæð